Skinkuhorn hlaðvarp – Hlynur Bæringsson

Körfuboltaleikmaðurinn Hlynur Bæringsson er fæddur í Stykkishólmi. Hann bjó í Grundarfirði til þrettán ára aldurs en flutti þaðan til Borgarness þar sem hann bjó í sex ár. Leið hans lá svo aftur til Stykkishólms næstu átta árin eftir það þar sem ferill hans í körfuboltanum tók af stað. Hlynur hefur síðan þá m.a. starfað sem körfuboltamaður á erlendri grundu en hann spilaði einnig með íslenska landsliðinu í um 20 ár. Í dag er hann rekstrarstjóri körfuboltadeildar Stjörnunnar ásamt því að þjálfa yngri flokka og spila með úrvalsdeildarliði félagsins.

Áhuginn kviknaði snemma

Áhugi Hlyns á körfubolta kviknaði í Grundarfirði þar sem þó var ekkert körfuboltastarf. Hann fékk þess vegna að flytja til Reykjavíkur í eitt ár til að byrja að æfa hjá KR. ,,Áður en ég flyt til Borgarness flutti ég til Reykjavíkur í eitt ár þar sem ég byrjaði að æfa körfubolta hjá KR, þá var ég líklega um tólf ára. Mig langaði sem sagt að byrja að æfa körfubolta og fékk þess vegna að fara til Reykjavíkur og búa þar hjá frænku minni. Á meðan ég var í Reykjavík flutti mamma í Borgarnes þannig að ég fór þangað eftir veru mína í Reykjavík. Borgarnes var og er mikill körfuboltabær og það má segja að þegar ég kom þangað hafi ég byrjað að spila körfubolta af einhverri alvöru,“ segir Hlynur. 

Fékk skópar að launum

En hvenær byrjaði í atvinnumennskan? ,,Það fer eftir því hvað skilgreinist sem atvinnumennska, ég fékk nú einhverjar krónur fyrir spilamennskuna í Borgarnesi á sínum tíma. Ég held að fyrsti samningurinn minn þar hafi kveðið á um eitt skópar og 20.000 krónur fyrir áramót. Þá var ég kannski sautján ára. Fyrir mig var það bara flott, 20.000 krónur var aðeins meira þá en myndi teljast í dag. En ætli ég hafi ekki byrjað að geta lifað á þessu aðeins seinna, þá í Stykkishólmi en það kom a.m.k smá alvara í þetta í Borgarnesi.“

Allt tilviljunum háð

Hlynur byrjaði að spila með úrvalsdeildarliðinu í Borgarnesi í 10. bekk og spilaði þar í nokkur ár. ,,Svo féllum við niður um deild og ég flutti mig yfir í Stykkishólm fyrir tilviljun og ílengdist þar. Ég ætlaði nefnilega að fara og spila með KR en þetta eru allt einhverjar tilviljanir sem verða til þess að maður lendir á hverjum stað fyrir sig. Ég var á leiðinni á æfingu með KR kvöld eitt þegar ég lenti í bílslysi og slasaðist, ekkert alvarlega en þó þannig að ég gat ekki mætt á æfingu það kvöldið. Ég meiddist á hendi og gat ekki spilað í nokkrar vikur. Þá fór ég í Borgarnes og nokkrir vinir mínir þaðan ætluðu að færa sig yfir í Stykkishólm og þeir náðu að plata mig með sér. Þannig að ég fór aldrei til KR,“ segir Hlynur.

Mikil forréttindi að spila með landsliðinu

Þó Hlynur hafi spilað úrvalsdeildarbolta segir hann ekki horfa á árin sín á Íslandi sem atvinnumennsku. ,,Ég var í námi meðfram körfuboltanum og vann líka einhver störf með t.d. við að mála,“ segir Hlynur sem seinna meir fór að spila erlendis og var lengi í landsliðinu. ,,Ég var í um 20 ár í landsliðinu. Það er með það eins og svo margt annað, maður fattar það eftir á hvað þetta voru mikil forréttindi og frábær tími. Ég gerði mér samt að sjálfsögðu grein fyrir því þegar á þessu stóð líka. Maður ferðaðist út um allan heim, til landa sem maður myndi annars aldrei heimsækja. Oft voru þetta reyndar stuttar ferðir og maður hafði kannski ekki tíma til að skoða sig mikið um og kynnast sögu hverrar þjóðar fyrir sig en þetta voru mikil forréttindi. Ég finn alveg fyrir því að það er erfitt að geta ekki spilað þarna lengur en það er víst lífsins gangur. Það er enginn sextugur í landsliðinu,“ segir Hlynur sem er í dag fertugur og spilar enn með liði Stjörnunnar í Garðarbæ.

Stemningin eftirminnilegust

,,Það eru nokkrir mjög eftirminnilegir leikir sem maður spilaði með landsliðinu. Við fórum t.d. til Kína og spiluðum þar á móti leikmanni sem heitir Yao Ming. Hann er svona þjóðhetja í Kína en hann spilaði í NBA og er gríðarlega vinsæll. Það var mikil upplifun að spila á móti svona stórum leikmönnum. Þarna var t.d. mannhaf sem fylgdi liðinu, við vorum ekki vanir því frá Íslandi. Þegar rútan kom á völlinn var bara mannmergð svo langt sem augað eygði, það var gríðarleg upplifun. 

Ég fór svo til Ísrael þegar ég var þrítugur, ég var þá orðin meðvitaðari um að missa ekki af tækifærinu til að kynna mér landið. Ég náði að skoða mig aðeins um, þetta er náttúrulega umdeilt land en þarna er gríðarleg saga og margt merkilegt að skoða þar, sú ferð er mjög eftirminnileg. Ferðirnar á Balkanskagann líka, þjóðirnar þar eru með frábæra íþróttamenn og þjóðirnar einhvernveginn blóðheitar og gríðarlega mikil stemning í kringum liðin. Sérstaklega í Bosníu og í Svartfjallalandi, þegar ég horfi til baka hefði ég verið til í að spila þar oftar en þetta eru ótrúlega flottar íþróttaþjóðir. Stoltið er mikið, það er mikill hiti í kringum íþróttirnar og mjög ólýsanlegt að spila í þessum aðstæðum. Ég man ekki eftir mörgum körfum eða endilega hvernig leikirnir fóru en maður man eftir stemningunni og umgjörðinni í kringum leikina,“ segir Hlynur m.a. í nýjasta þætti Skinkuhorns.

Hlusta má á þáttinn á soundcloud.com/skessuhorn, á Spotify og í spilaranum hér fyrir neðan.