Skinkuhorn hlaðvarp – Heiðar Örn Jónsson

Í þessum nýjunda þætti Skinkuhornsins ræðir Gunnlaug við Hvanneyringinn Heiðar Örn Jónsson.
Heiðar er giftur Selmu Ágústsdóttur og eiga þau saman þrjú börn: Arnar Inga, Sigurð Örn og Arneyju Söru. Vorið 2020 tók Heiðar við starfi varaslökkviliðsstjóra og eldvarnareftirlitsmanns í slökkviliði Borgarbyggðar og er óhætt að segja að töluverð breyting hafi orðið á slökkviliðinu síðan hann kom þar inn. Þátturinn er aðgengilegur á Spotify og á Soundcloud.is/skessuhorn

Haustið 2021 voru ráðnir inn 19 nýjir slökkviliðsmenn í slökkvilið Borgarbyggðar en skilyrði fyrir þeim ráðningum var að fólk færi ekki á útkallslista fyrr en það hefði lokið slökkviliðsmannanámskeiði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í því felst bæði bóklegt nám og verkleg starfsþjálfun.

„Við ákváðum að gera þessa ráðningu almennilega. Við héldum kynningarkvöld og eftir það var ákveðið að ráða inn heldur stóran hóp sem færi ekki á útkallsskrá fyrr en hann hefði lokið menntun hjá HMS. Það voru svo 32 sem sækja um, við ráðum inn 23 og í þessu æfingarferli síast svo út þeir sem hafa ekki tíma í þetta því að þetta ferli er svolítið tímafrekt. Og þá finnur maður það líka vel að þeir sem eru tilbúnir til þess að leggja svolítið á sig til þess að komast inn í slökkviliðið eru í liðinu í dag. Við stóðum svo uppi með 19 sem kláruðu námið og æfingarferlið og eru komnir á útkallsskrá í dag,“ segir Heiðar Örn.

Í slökkviliði Borgarbyggðar eru nú 59 manns og er það eitt fjölmennasta slökkvilið landsins enda stórt landsvæði undir. „En við erum líka með útkallseiningu sem hefur lokið menntun. Við sjáum um menntunina sjálf, bæði verklegu framkvæmdina og bóklega þáttinn í samráði við HMS. Og þetta var engin smá keyrsla fyrir nýliðana og slökkviliðsmennina sem voru fyrir. Það er ekkert grín að fá inn tuttugu manna hóp í vel slípað og öflugt slökkvilið og þurfa svo að fara að og mentora og leiðbeina, þannig þetta var mikið álag fyrir mjög marga, en núna rúmu ári seinna erum við með 59 manna slökkvilið sem ég hika ekki við að segja að sé ótrúlega öflugt. Þetta eru ótrúlegir fagmenn og ég dáist að þessu fólki. Að leggja allt þetta á sig, hafa metnaðinn fyrir því að mennta sig og þjálfa sig í þessu og standa svo uppi sem gríðarlega öflugt og flott slökkviliðsfólk,“ segir Heiðar Örn og það leynir sér ekki að hann er innilega stoltur af sínu fólki.

„Mig langar að gera þessu fólki svolítið hátt undir höfði af því það er ekki sjálfgefið að fólk sinni þessu starfi. Sérstaklega ekki í svona litlu samfélagi. Þótt sveitarfélagið sé landfræðilega stórt þá er það ekki sérlega fjölmennt svo að líkurnar á því að þegar kallið kemur þurfir þú að fara til einhvers sem þú þekkir og ert jafn vel tengdur fjölskylduböndum, eru bara rosalega miklar.“

Heiðar segist ekki vita hvað valdi því að hann hafi svona mikinn áhuga á viðbragðsstörfum en hann er einnig menntaður neyðarflutningamaður og vann sem slíkur á Selfossi áður en hann flutti aftur í Borgarfjörðinn 2020. „Þegar ég var yngri skildi ég ekki af hverju það vildu ekki allir vera í slökkviliðinu, og ég skil það í raun ekki enn þann dag í dag þótt ég sé orðinn fullorðinn,“ segir Heiðar og hlær. Hann rifjar þá upp minningu frá því í grunnskóla þegar hann fór í starfskynningu hjá slökkviliði Borgarbyggðar og fékk að setja á sig reykköfunartæki og var með það á sér á meðan hann fór í gegnum þrautabraut „Ég man það bara þegar ég tók af mér grímuna, haugsveittur og hálfsmeykur að vera með þetta á andlitinu og ég hugsaði bara að þetta væri eitthvað sem ég ætlaði að gera í lífinu. Og ég hef bara haft bilaðan áhuga á þessu síðan.“

Auk þess ræddi Gunnlaug við Heiðar um æskuna á Hvanneyri, starf hans í neyðarflutningum á Selfossi og eldvarnir sem árlega er imprað á í desembermánuði. Þá sagði Heiðar frá ákveðnu atviki sem hann lenti í fyrir nokkrum árum í útkalli sem hafði drastísk áhrif á hann og olli því að hann var óvinnufær um tíma vegna andlegra veikinda. „Þetta atvik hefði kannski undir venjulegum kringumstæðum ekki verið neitt merkilegt eða erfitt. En miðað við hvernig ég var stemmdur þá lenti ég illa í því og ég þurfti að leita mér sálfræðiaðstoðar eftir það útkall til þess að vinna úr minni upplifun… „Ég gat ekki lengur keyrt yfir Hellisheiðina af því að alltaf þegar ég fann hveralyktina sem þar er þá fór hugur minn aftur í útkallið,“ segir Heiðar í Skinkuhorni vikunnar.