Blikinn, elsti varðveitti fiskibátur á Íslandi frá árinu 1826. Ljósm. vaks.

Sjóminjasafnið á Hellissandi heimsótt

Á ferðalagi sínu á Snæfellsnesi á dögunum átti blaðamaður Skessuhorn leið fram hjá Sjóminjasafninu á Hellissandi og fékk að koma í heimsókn þó safnið væri lokað. Miklar breytingar hafa verið gerðar á Sjóminjasafninu á síðustu árum og var það enduropnað árið 2018 með mikilli viðhöfn. Þá voru kynntar tvær nýjar sýningar. Annars vegar „Sjósókn undir Jökli“ en hún er í bátaskýlinu. Þar er Blikinn í aðalhlutverki og þeir safngripir sem tilheyra sjósókn og ekki síst árabátaöldinni. Þar má einnig sjá gamalt fiskbyrgi sem Þórður I. Runólfsson á Lágafelli hlóð ásamt litlum beitningarskúr sem rifjar upp stemninguna á bryggjunni. Hins vegar hefur gamli salurinn í safninu verið endurgerður og meðal annars fengið nýtt gólf og þar er sýning sem nefnist „Náttúran við ströndina.“ Uppistaðan í þeirri sýningu eru nokkur sérsöfn og er stærst þeirra fuglasafnið úr grunnskólanum sem Smári Lúðvíksson safnaði á sínum tíma, en það telur um 60 fugla. Einnig er til sýnis steinasafn Guðmundar K. Hjartarsonar sem bjó í Ólafsvík en lést 1997. Guðmundur safnaði einkum steinum af Snæfellsnesi og er hluti af safni hans til sýnis svo og lítið safn skelja, kuðunga og smádýra. Gerðar voru eftirmyndir af 20 helstu nytjafiskum og þær settar upp á lifandi hátt. Í fyrra voru fjórar sýningar í safninu: Auk sjósóknar undir jökli voru sýningarnar Náttúran við Hafið, Sagan Okkar sem er ljósmyndasýning og Landnámsmenn í Vestri sem er í garðinum við Sandahraun. Þar hefur einnig verið komið fyrir styttunni Jöklarar eftir myndlistarmanninn Ragnar Kjartansson sem var afhjúpuð árið 1974. Safnið er sjálfseignarstofnun og er rekið af sjálfboðaliðum. Öll þessi uppbygging kostaði sitt og er safnið svo lánsamt að eiga góða styrktaraðila  sem eru Snæfellsbær , útgerðir í Snæfellsbæ og aðrir góðir sem hafa verið að styrkja safnið, einnig hefur safnið fengið rekstrarstyrk frá SSV undanfarin ár.

Að sögn Þóru Olsen, verkefnisstjóra safnsins, sem tók á móti blaðamanni og leiddi hann um safnið er opið frá 1. júní til 30. september, kl. 10-17 alla daga. Á öðrum tímum er opið eftir samkomulagi fyrir hópa. Blaðamaður Skessuhorns fékk að taka nokkrar myndir á safninu sem fylgja með fréttinni og hvetur fólk að kíkja við á safninu því þar er margt skemmtilegt, fræðandi og forvitnilegt að finna.