Sætar franskar

Í stað þess að birta uppskrift af aðalrétti kemur hér einföld og góð uppskrift af góðu meðlæti. Sætar kartöflur eru frábært meðlæti með flestum mat, hollar og ótrúlega bragðgóðar. Hægt er að sjóða þær, mauka, grilla eða baka í ofni. Ýmsar skemmtilegar uppskriftir má finna víða á veraldarvefnum, meðal annars af fylltum sætum kartöflum og fleiru. Hér er uppskrift af sætkartöflufrönskum, sem eru í senn  hollar og góðar. Uppskriftin er einföld en krefst smá undirbúnings. Gott er að kaupa miðstærð af kartöflum, þær eru oft bragðbetri en þær sem eru mjög stórar.

 

Innihald:

Sætar kartöflur

Smá maísmjöl til að dreifa yfir kartöflurnar

Ólívuolía

Salt, pipar og krydd. Sumir nota Cumin (ekki kúmen) en aðrir kjósa cayenne-pipar, paprikuduft eða karrý. Hvítlaukur getur líka virkað – allt eftir smekk!

 

Aðferð:

Hitið ofninn í 200 – 220 gráður (minna ef blástur er notaður). Flysjið kartöflurnar og skerið þær í franskar. Reynið að skera þær jafnt, í sambærilega bita svo þær steikist jafnt. Hendið þeim í skál, eða leggið þær á bökunarplötu sem er klædd með bökunarpappír (alls ekki álpappír). Dreifið smá maizenamjöli jafnt yfir, en engar klessur. Setjið svo nokkrar skeiðar af olíu, nóg til að hylja þær. Krydda með salti, pipar og kryddum. Passið að franskarnar séu ekki í hrúgu á plötunni, ofan á hvor annarri því þá verða þær ekki stökkar. Bakið í 15 mínútur, takið plötuna út og snúið frönskunum. Best er að nota spaða og snúa nokkrum í einu með snöggri handarhreyfingu.

Bakið í 10 til 15 mínútur í viðbót, eða þar til þær verða stökkar. Þær eru tilbúnar þegar þær hætta að vera glansandi appelsínugular og verða mattari. Það er mikilvægt að baka þær nógu lengi, annars verða þær ekki stökkar. Ekki hafa áhyggjur af því að brúnirnar brenni örlítið. Verði ykkur að góðu!