Rím á Refsstöðum verður opnað í sumar

Í júní á síðasta ári var stórt og mikið eldra hús tekið af stalli sínum á Akureyri og flutt í tveimur hlutum að Refsstöðum í Hálsasveit. Hús þetta var byggt árið 1938 og hýsti lengst af bátasmiðju á Eyrinni. Hjónin Anna Lísa Hilmarsdóttir og Brynjar Bergsson keyptu húsið og fluttu á melinn vestan við stórt fjós þeirra á Refsstöðum. Nú hefur verið steyptur grunnur og plata og búið að koma húsinu á varanlegan stall. Auk þess var byggð fjögurra metra tengibygging milli húshlutanna þannig að nú er grunnflötur hússins 160 fermetrar og manngengt loft að auki undir súð. Áætlanir þeirra hjóna hafa frá upphafi verið að opna þar nýtt ferðaþjónustufyrirtæki í sumar.

Anna Lísa og Brynjar segja að draumur þeirra sé að opna léttveitingastað þar sem lögð verður áhersla á mat sem unninn verður sem mest úr hráefni af búinu og víðar úr héraðinu. Nefna þau hamborgara úr nautakjöti sem þau sjálf rækta, heimagerðan ís og fleira. Úti verður svo vísir að húsdýragarði og stór leikvöllur þar sem fjölskyldufólk getur átt notalega stund saman. Búið er að gefa staðnum nafn og hanna vörumerki, en staðurinn mun bera nafnið Rím. Unnið hefur verið í húsinu inni sem úti og framundan eru framkvæmdir við lóð og umhverfi. Inni er húsið klætt með panel í gömlum stíl og meðal annars sóttur gamall panell úr húsum sem búið er að rífa vestur á fjörðum. Þannig er reynt að skapa gamaldags og hlýlegt umhverfi inni í þessu rúmlega áttatíu ára gamla húsi. „Við ákváðum að kaupa þetta hús á síðasta ári og upphaflega var auðvelt að reikna að það væri ódýrara að kaupa það en að byggja nýtt hús frá grunni undir þá ferðaþjónustu sem við ætlum að reka hér. Flutningur á húsinu gekk að mestu leyti vel og hér var það sett á melinn í fyrrasumar,“ segir Anna Lísa. Hún kveðst spennt að byrja brátt í ferðaþjónustu og segir henta sér vel að fara rólega af stað og æfa sig á Íslendingum í ljósi þess að erlendir ferðamenn verða fáir í sumar.