Nýútkomnar bækur frá Hólum

Bókaútgáfan Hólar sendir frá sér þó nokkrar bækur á þessu ári. Þar ber fyrst að nefna Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar, með undirtitlinum Fugladagbókin 2022, sem er nýjung á íslenskum bókamarkaði og einkum hugsuð fyrir þau fjölmörgu, ung og eldri, sem hafa áhuga á fuglum, ekki síst í nærumhverfinu, þótt einnig megi nota bókina sem venjulega dagbók. Í henni er t.d. hægt að skrá hjá sér í hverri viku ársins þær tegundir, og fjölda innan hverrar og einnar, sem sjást þennan eða hinn daginn, auk þess sem ítarlegur fróðleikur er um 52 af þeim rúmlega 400 fuglategundum sem hingað hafa komið til lengri eða skemmri dvalar frá því farið var að halda tölur um slíkt. Bókin er prýdd glæsilegum fuglamyndum og er höfundur hennar Sigurður Ægisson.

Spæjarahundurinn heitir ævintýrabók eftir Guðjón Inga Eiríksson og fjallar hún um bráðskarpan hund sem leysir hin erfiðustu sakamál, sem lögreglan hefur í rauninni gefist upp á og hér verður hann að taka á öllu sínu ef ekki á illa að fara, fyrir honum og heiminum öllum. Halldór Baldursson teiknaði myndirnar í bókinni og setja þær mikinn svip á hana eins og vænta mátti.

Ógn – ævintýrið um Dísar-Svan, eftir Hrund Hlöðversdóttur, fjallar um Svandísi, 14 ára gamla, sem flytur úr borginni norður í land. Amma hennar heldur því fram að álfar séu til og segir barnabörnunum sögur úr álfheimum. Svandís trúir ekki á álfa en þegar dularfull skilaboð berast henni er hún ekki lengur viss í sinni sök. Í kringum hana er margt einkennilegt á kreiki. Köttur með rauð augu, dularfullir hestar og fólk sem ef til vill er annað en það sýnist vera. Hún flækist inn í baráttu góðs og ills, kynnist ástinni og þarf ásamt vinum sínum að glíma við ógurlegar kynjaskepnur. Sagan byggir á þjóðsagnaarfi okkar Íslendinga og tengir saman tvo heima, raunheima sem við þekkjum öll og hulduheima sem færri þekkja.

Á vordögum kom út ljóðaúrval Hjálmars heitins Freysteinssonar, lengi heimilislæknis á Akureyri, en það heitir Ekki var það illa meint og geymir mörg gullkornin. Eins og þetta, sem ber heitið Skagfirsk fræði:

Margrét frá Mannskaðahóli

er mögnuð á torfæruhjóli.

Af ótuktarskap

sinn eiginmann drap

á toppnum á Tindastóli.

Hjálmar var okkar fremsta „skemmtiskáld.“ Hann sá atburði líðandi stundar í öðru ljósi en allir aðrir og deildi þeirri kímni sem hann bjó yfir óspart með okkur hinum.

Svo má nefna léttmetisbækurnar: Brandarar, þrautir og gátur, Spurningabókin 2021 og Fótboltaspurningingabókin 2021. Í þeirri síðastnefndu er m.a. annars spurt um íslenska boltann, enska boltann, Evrópumótið síðasta sumar, Evrópudeildina, Meistaradeildina og íslenska atvinnuknattspyrnumenn, fyrr og síðar. Þá kemur út þriðja heftið af hinum vinsælu Fimmaurabröndurum, en efnið þar er sótt í hina vinsælu síðu Fimmaurabrandarafjelagsins.

-fréttatilkynning