Elín H. Hinriksdóttir, sérfræðingur ADHD samtakanna.

Nýtt útibú ADHD samtakanna opnað á Vesturlandi í ágúst

ADHD samtökin eru í mikilli uppsveiflu þessi misserin. Aðalskrifstofa samtakanna er að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík en jafnframt hafa verið sett á stofn útibú á Norður-, Austur- og Suðurlandi auk Vestmannaeyja. Nú er verið að undirbúa stofnun útibús á Vesturlandi og síðan verður hringnum lokað með Vestfjörðum. Fyrirhugað er að stofnfundur ADHD Vesturlands verði í ágúst. Vesturlandsútibúið mun þjóna Akranesi, Borgarnesi, Snæfellsnesi, Borgarfirði og nærsveitum og er gert ráð fyrir að útibúið muni hefja starfsemi í haust.

ADHD samtökin eru landssamtök til stuðnings börnum og fullorðnum með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Á vef samtakanna segir meðal annars: „Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum.“

Blaðamaður Skessuhorns ræddi við Elínu H. Hinriksdóttur, sérfræðing ADHD samtakanna um fyrirhugað útibú á Vesturlandi. Að sögn Elínar er mikil þörf á útibúum á landsbyggðinni. „Oft á tíðum upplifir fólk með ADHD eða foreldrar barna með ADHD sig vera einangrað og þekkja fáa sem eru að kljást við vandamál tengdum ADHD í einni eða annarri mynd. Með tilkomu útibús ADHD samtakanna er einstaklingum gefinn kostur á að sækja sér fræðslu og jafningjastuðning.

Spjallfundir einu sinni í mánuði

Í því skyni eru haldnir spjallfundir einu sinni í mánuði. „Yfirleitt kemur einhver sérfræðingur frá höfuðstöðvunum og flytur innlegg um fyrirfram ákveðið málefni. Það getur verið hvað eina sem tengist ADHD; kvíði unglinga, systkini og ADHD, svefnvandi, skólastarf og lyfjamál svo dæmi séu nefnd. Að innlegginu loknu eru frjálsar umræður, hvort sem er um málefni fundarins að ræða eða annað sem fólki liggur á hjarta. Ekki er nauðsynlegt að tjá sig og sumir koma eingöngu til að hlusta.“ Hér gefst kostur á að hitta aðra og spjalla um sameiginleg viðfangsefni. Á Covid tímum hafa samtökin fært spjallfundi mikið yfir á stafrænt form. „Það skapast hins vegar ekki sama „dýnamík“ á rafrænum fundi eins og þegar fólk hittist augliti til auglitis. Í kjölfar stofnfundar útibúsins verður settur í loftið facebókhópur er nefnist ADHD Vesturland en þar verður að finna nýjustu fréttir tengdar ADHD. Útibúin eru ekki með eigið húsnæði heldur fara fundirnir iðulega fram í skólum eða fundarsölum á viðkomandi stað.“

Sjálfboðastarf

Að sögn Elínar er allt starf útibúa ADHD samtakanna unnið í sjálfboðavinnu. „Markmiðið er að breiða út boðskapinn og sem hluta af því hafa samtökin  tvisvar á ári boðið upp á stærri fræðslufundi. Þar hefur verið fjallað um ADHD á breiðum grunni og leitast er við að hafa sérfræðinga í fremstu röð meðal fyrirlesara. Síðasti fundur var haldinn í sal Íslenskrar Erfðagreiningar og nefndist „ADHD þjóðin“. Þar var meðal annars fjallað um alþjóðlega rannsókn sem framkvæmd var í samvinnu við Íslenska Erfðagreiningu og gekk hún út á að kanna tengsl erfða og ADHD. Einnig hafa samtökin staðið fyrir fræðslufundi sem sneri að nýrri rannsókn á tengslum ADHD og mataræðis, framkvæmda af Bertrand Lauth geðlækni og Bryndísi E. Birgisdóttur næringarfræðing. Þessir fundir hafa legið niðri á Covidtímum en við höfum fullan hug á að hefja leik að nýju strax í haust.“

Þá segir Elín að á vef samtakanna, www.adhd.is, sé að finna mikið magn upplýsinga og fræðsluefnis um ADHD. Á síðastliðnu ári voru framleidd myndbönd sem nefnast; „Hvað er ADHD“ ásamt hlaðvarpsþáttunum „Lífið með ADHD“  og hafa þau slegið í gegn og fengið mikið áhorf. Einnig er þar að finna alla bæklinga sem samtökin hafa gefið út ásamt vefverslun með bækur og ýmsum vörum sem létt geta fólki með ADHD lífið.