Sigurður Ólafur Þorvarðarson í Grundarfirði rétt áður en hann hélt út til Þýskalands til að fara á spænska togarann Lodario. Ljósm. tfk.

„Netið, sjónvarpið og betra fæði hefur bætt aðbúnað okkar“

Sigurður Ólafur Þorvarðarson er uppalinn Grundfirðingur og ólst upp í miklu návígi við sjóinn og sjávarútveginn. Faðir hans var Þorvarður Lárusson útgerðarmaður og skipstjóri. Allir bræður Óla Sigga fóru ungir til sjós og fjórir af fimm bræðrum hans fóru í Stýrimannaskólann. „Ég var 15 ára þegar ég byrjaði á skaki á Lunda SH-1 sem faðir minn gerði út ásamt Guðmundi Jóhannessyni sem var skipstjóri,“ rifjar Óli Siggi upp. „Þar fékk maður smjörþefinn af þessu og þegar ég var 16 ára byrjaði ég svo með föður mínum á Sólfara AK sem var 80 tonna austurþýskur stálbátur og var gerður út á fiskitroll.“

Aðbúnaður betri í dag

Næstu árin var Óli Siggi á sjó frá Grundarfirði á bátum með föður sínum sem hann gerði út eða var skipstjóri á. Þar kynntist hann netaveiðum, fiskitrolli, rækjutrolli, línuveiðum ásamt því að vera eitt haustið á skelveiðum frá Stykkishólmi. „Ég var háseti, kokkur, stýrimaður og meira að segja vélstjóri þó ekkert vit hafi ég haft á vélum. Mikill munur var á aðbúnaði um borð í þá daga og ekkert í líkingu við það sem menn þekkja í dag. Þetta voru lítil skip með lúkar og sumir bátarnir eingöngu með olíueldavél þar sem öll áhöfnin hafði viðveru og svefnstað ef ekki var verið að vinna á dekki. Þó klósett hafi verið komið í allflesta báta voru nokkrar undantekningar á því. Sumir bátarnir voru bara með kamar og fötu til að gera þarfir sínar í. Og oft voru gallarnir rakir og kaldir fyrst á morgnana þegar við vorum að byrja daginn,“ segir Óli Siggi er hann fer yfir gamla tíma.

Hrepptu foráttuvitlaust veður

Eftir þetta lá leiðin suður þar sem Óli Siggi réði sig á Helgu RE 49 með Viðari Benediktssyni og var stíft róðralag. „Við rerum mikið út á Brjálaðahrygg vestur af Snæfellsnesi á veturna og þar sem báturinn var ekki með yfirbyggt dekk var oft mikill barningur á hryggnum,“ rifjar Óli upp, en á sumrin voru þeir á fiskitrolli og haustin á síld. Síðar var svo byggt yfir dekkið og það átti eftir að koma sér vel. „Eitt sinn sigldum við með aflann til Bremerhaven milli jóla og nýárs. Ég var þá um tvítugt en stýrimaðurinn um borð var mágur minn, Einar Guðmundsson, en hann hafði farið í frí og því var fengin undanþága fyrir mig til að sigla sem stýrimaður.“ Siglingin til Bremerhaven gekk vel og var salan ágæt. „Þegar við vorum á heimleið gerði snælduvitlaust veður og vorum við níu og hálfan sólarhring á leiðinni sem tekur að jafnaði fjóra til fimm daga að sigla.“ Þetta var því mikil lífsreynsla fyrir ungan mann í sínum fyrsta túr sem stýrimaður.

Átti ekki fyrir öllum skólabókunum

Óli Siggi reri á fleiri bátum fyrir sunnan og var til að mynda eitt haustið á Hrafni Sveinbjarnarsyni frá Grindavík á net- og síldveiðum ásamt því að grípa í einn og einn róður sem lausamaður þegar færi gafst til. Haustið 1985 var eitthvað lítið framundan hjá unga sjómanninum en þá hvatti Jóhannes Þorvarðarson, bróðir Óla Sigga, hann til að fara í Stýrimannaskólann. „Við Jói fórum saman upp í skóla og ræddum við skólastjórann, Guðjón Ármann, því skólinn var þegar byrjaður. Ég fékk inngöngu í skólann og mætti daginn eftir. Ég man að ég átti ekki fyrir öllum skólabókunum því að stefnan var ekki að fara í skóla þetta haustið,“ rifjar Óli Siggi upp. „Þetta blessaðist þó allt saman því að eftir skóladaginn vann ég við beitningu og fiskvinnslu hjá bræðrunum sem áttu Aðalbjargirnar í Reykjavík.“ Óli Siggi útskrifaðist með fiskimannapróf frá Stýrimannaskólanum vorið 1987.

Konan sá um uppeldið

Eftir skólann tók tilhugalífið við og Óli Siggi hóf sambúð með Sjöfn Sverrisdóttur frá Gröf í Grundarfirði. „Við giftum okkur 1992 og eigum saman þrjú börn, barnabörnin eru orðin sex og það sjöunda er á leiðinni,“ segir hann. Eins og á flestum sjómannaheimilum sá konan um uppeldi barnanna að mestu og að halda heimilinu í röð og reglu. „Þegar ég spyr börnin að því í dag hvernig mér hafi gengið með uppeldið, þá fæ ég fljótt svar í andlitið um að ég hafi aldrei verið heima og að mamma hefði séð um þá deild,“ segir Óli Siggi og brosir.

Harmleikur í hafi

Þegar Sigurður Ólafur hafði lokið skólagöngu réði hann sig á Krossnes SH sem Hraðfrystihús Grundarfjarðar hafði keypt og var hann stýrimaður á dekki og í brú. „Okkur gekk vel að fiska á það skip,“ rifjar hann upp. Ferill hans á Krossnesinu varði þó skemur en áætlað var. „Ég var fyrsti stýrimaður um borð þegar skipið sökk undan okkur á Halamiðum 23. febrúar 1992 og með því fórust þrír góðir menn. Ég man að þetta gerðist svo hratt að ekki gafst öllum tími til að fara í björgunargallana áður en við komumst í gúmbátana.“ Aðrir bátar í nágrenninu komu aðvífandi þegar neyðarkallið barst. „Okkur var bjargað um borð í Guðbjörgina ÍS úr gúmmíbátunum en einum skipverja var bjargað úr sjónum um borð í Sléttanes ÍS en sá reyndist fótbrotinn og var fluttur suður með þyrlu,“ rifjar Óli Siggi upp.

Betri aðstaða um borð

Eftir þennan harmleik festi Hraðfrystihús Grundarfjarðar kaup á Klakki VE og fór áhöfnin af Krossnesinu yfir á hann. „Í millitíðinni fór ég nokkra róðra á Hamri SH frá Rifi sem stýrimaður. Síðar festir Hraðfrystihúsið einnig kaup á Sölva Bjarnasyni BA frá Bíldudal en hann fékk nafnið Drangur SH og fór Óli yfir á hann fljótlega. „Ég reri á Drangi sem stýrimaður og afleysingaskipstjóri áður en ég fór aftur yfir á Klakk SH.“ Hann hætti þó á honum þegar Fiskiðjan Skagfirðingur og Hraðfrystihús Grundarfjarðar sameinuðust. „Á þessum tíma hafði mjög mikið breyst í sambandi við aðbúnað hjá sjómönnum. Ég var kominn á stærri skip þar sem var mun betri aðstaða um borð og tala ég nú ekki um muninn að geta hringt heim úr farsíma sem ekki þekktist áður.“

Sungið á leiðinni

Mikið var um glens og grín um borð og góður mórall hjá mönnum. „Á þessum tíma fór ég tvær ferðir í Smuguna norður í Barensthafi. Aðra á Drangi SH og hina á Klakki SH. Þá voru haldnar kvöldvökur á leiðinni, menn sungu, lásu ljóð og voru með allskonar gjörninga,“ rifjar hann upp og brosir en þessir túrar gátu varið upp í rúman mánuð sem voru talsverð viðbrigði frá viku túrunum sem þeir voru vanir að fara í.

Fiskað fyrir kaupverðinu á mánuði

Árið 2001 ræðst Óli Siggi í að stofna útgerð með Jóhannesi bróður sínum, Guðmundi Reynissyni og Björgvini Lárussyni sem síðar seldi sinn hlut til Kristófers Kristjánssonar. „Við byrjuðum á að kaupa 53 tonna trébát sem smíðaður var í Stykkishólmi árið 1973 og skírðum hann Valdimar,“ rifjar Óli upp. Ævintýrið byrjaði vel því góð aflabrögð voru fyrstu vikurnar. „Fyrsta mánuðinn sem við rerum honum vorum við á rækjuveiðum í Kolluálnum. Við fiskuðum fyrir kaupverðinu á þessum mánuði.“

Fljótlega var útgerðin stækkuð og keyptur annar bátur. „Við keyptum Sigþór frá Húsavík og skírðum hann Þorvarð Lárusson SH og vorum við Jói bróðir með hann til skiptis á netum, rækju- og fiskitrolli en við vorum einnig að gera Valdimar út á sama tíma.“ Árið 2004 fóru þeir í samstarf við Samherja og skiptu Þorvarði Lárussyni út fyrir gömlu Smáeyna frá Vestmannaeyjum. „Við skírðum þann bát líka Þorvarð Lárusson enda hafði sá eldri reynst okkur vel. Þar var ég skipstjóri í sjö ár og voru þetta góð ár með góðum mannskap.“

Fengu einn stálbobbing

Árið 2008 varð vélarbilun í Þorvarði sem tók langan tíma að gera við. „Það tók ágætis tíma að gera við og í millitíðinni fór ég einn túr á Grænlandsmið sem stýrimaður á Baldvin NC sem gerður var út frá Þýskalandi. Við gerðum góðan túr. Fórum vestur fyrir Grænland á Julihanebank og suður að Hvarfi og síðan á grálúðu á Austur – Grænlandi. Þetta var mikið ævintýri.“ En lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim við Grænlandsstrendur. „Eitt sinn gerðum við dræma ferð norður með vesturströnd Grænlands og sigldum í rúman sólarhring ásamt Odru NC. Báðir bátarnir köstuðu en aflinn var frekar rýr. Við fengum einn stálbobbing og engan fisk en Odran fékk eina stórlúðu og ekkert annað. Við fórum til baka með öngulinn á kaf í afturendanum,“ segir Óli Siggi hlæjandi.

Enn verður vendipunktur

Árið 2011 var svo komið að enn einum vendipunkti í sjómannsferli Óla Sigga. „Það ár hóf ég störf hjá Samherja erlendis. Fyrst sem stýrimaður á Kiel NC frá Þýskalandi með Brynjólfi Oddssyni skipstjóra. Ég man að eitt sinn þegar ég átti að fara um borð var skipið statt úti á Reykjaneshrygg. Ég þurfti því að fá far með rússneskum togara sem var að landa í Hafnarfirði,“ rifjar hann upp. „Rússnesku sjómennirnir voru efins um þetta. Þeir voru ekkert á því að hleypa mér um borð en samþykktu það þó að lokum. Ég fékk sjúkraklefann um borð til afnota og var þetta sérstök reynsla,“ rifjar Óli Siggu upp. „Aðbúnaður áhafnar var allt öðruvísi en við eigum að venjast hér á Íslandi. Maturinn var mjög einhæfur en það var alltaf kartöflusúpa á borðum og maturinn var skammtaður á diskana. Ég tók líka eftir því að í öllum klefum voru menn með einhverjar græjur til að elda sér sjálfir. Mjög ólíkt því sem við eigum að venjast hér heima. Einnig var brúin töluvert öðruvísi en á íslensku skipunum. Í Brúnni var enginn skipstjórastóll, bara smá bekkur sem ekki var mikið notaður. Menn stóðu bara upp á annan endann alla vaktina í brúnni.“

Óli segir þó að þarna um borð hafi verið fínir karlar sem hann hafði samskipti við. „Ég var þarna um borð í þrjá daga áður en ég fór yfir í Kiel. Við vorum aðallega á grálúðuveiðum við Grænland og þorskveiðum í Barentshafi, við Svalbarða og í norskri landhelgi.“ Óli Siggi fór svo yfir á breska skipið Norma Mary árið 2015 þar sem hann var stýrimaður og svo skipstjóri frá 2017 og þar til honum var lagt síðasta vetur. „Skipinu var lagt vegna kvótaleysis því ekki náðist samkomulag milli Breta og Norðmanna um veiðar í lögsögum þeirra beggja vegna Brexit,“ segir Óli.

140 tonn á sólarhring

Skipin sem Sigurður Ólafur var á voru mikið á veiðum í Barentshafi í Svalbarðalögsögu, við Noreg og Austur – Grænland á Dornbankanum. „Við vorum mikið í ferskfiskveiðum og lönduðum aflanum í Honnigsvog og þegar við vorum á Dornbankanum lönduðum við á Akureyri og Dalvík í frystihús Samherja. Á Dornbankanum var mesta veiði sem ég hef upplifað á öllum mínum sjómannsferli en þar náðum við upp í 140 tonnum af slægðum þorski á einum sólarhring,“ rifjar Óli Siggi upp.

Oft staðið tæpt

Séð aftur á Lodario þar sem skipið er á togveiðum innan um ísjaka í núverandi túr.

En sjómannsferill Óla Sigga hefur ekki alltaf verið áfallalaus. „Verandi á þessum skipum lengst úti á hafi er ekki gott að eitthvað fari úrskeiðis um borð,“ segir hann. „Ég var eitt sinn fluttur með þyrlu af togaranum Kiel til Longebyen á Svalbarða með mikla verki fyrir brjósti. Og þaðan með sjúkraflutningi til Tromsö. Allt fór vel að lokum og komst ég heill út úr þessu en þarna rættist sú ósk mín að heimsækja Svalbarða þó að ég hefði viljað að það væri undir öðrum kringumstæðum.  Svo stóð þetta líka tæpt á Normu Mary á sjómannsferlinum. Tvisvar lentum við í stórbruna um borð í Normu Mary. Eldur kom upp í vinnslunni á millidekki og var þetta það mikill að ekki sást aftur fyrir gálga vegna reyks,“ rifjar Óli Siggi upp. Það var einungis fyrir vel þjálfaða áhöfn og hárrétt viðbrögð að ekki fór verr. „Okkur tókst að einangra eldinn með því að loka öllum lofttúðum að millidekkinu og kæfa eldinn. Eldtungurnar náðu upp í lofttúðurnar og þurftum við að reykkafa til að loka þeim. Þar kom sér vel öll menntunin úr Slysavarnaskóla sjómanna og markvissar brunaæfingar um borð.“ Óli Siggi segir að ótrúlegt sé að ekki hafi farið verr því að í bæði skiptin var millidekkið gjörónýtt og skipta þurfti um allt inn að járni á skipinu.

Svo hafa fleiri áföll knúið dyra hjá Óla Sigga. „Eitt sumarið á Kiel þegar við vorum á veiðum á Austur – Grænlandi urðum við fyrir þeirri sorglegu lífsreynslu að tveir menn urðu bráðkvaddir um borð hjá okkur. Þá tekur við ferli við að koma þeim í land en það var tveggja og hálfs sólarhringa sigling í næstu höfn. Um borð í þessum skipum voru í flestum tilfellum íslenskir yfirmenn. Þetta eru allt úrvals menn með mikla reynslu og kunnáttu en það má segja að maður hafi verið með allra þjóða áhöfnum til sjós erlendis. Þjóðverjum, Bretum, Portúgölum, Spánverjum, Rússum, Pólverjum, Rúmenum svona til að nefna eitthvað. Allt eru þetta góðir sjómenn með örfáum undantekningum þó. Með þessum mönnum fylgdu misjafnar venjur og siðir eins og gefur að skilja,“ bætir Óli Siggi við.

Með kveðju úr Barentshafi

Norma Mary siglir út Grundarfjörð fyrir nokkrum árum.

Miklar breytingar hafa orðið á aðbúnaði á þessum stóru togurum sem Óli Siggi hefur róið á. „Netið og sjónvarpið er komið um borð í öll þessi skip og aðbúnaður allur sá besti og þar með talið fæðið um borð. Oftar en ekki eru lærðir kokkar því ef ekki er góður kokkur um borð virka túrarnir alltaf lengri. Sá lengsti sem ég hef farið voru 102 dagar og reyndi það verulega á mann þar sem fjölskylda og ástvinir eru í landi. Ég hef líka lent í því að vera á sjó yfir jól og áramót en aftur á móti eru fríin löng á milli,“ segir Óli Siggi er hann fer yfir ferilinn. „Núna þegar þessi orð eru sögð er ég á spænskum frystitogara sem heitir Lodario. Hann var smíðaður árið 2015 og er hið glæsilegasta skip í alla staði með allar bestu græjur um borð og frábæran aðbúnað fyrir menn. Við erum á þorskveiðum við Svalbarða að draga innan um ís í misjafnri veiði,“ segir Óli. „Það eru 43 ár síðan ég hóf störf á sjó og hefur maður upplifað gríðarlegar breytingar í greininni,“ og bætir við að endingu: „Ég vil óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags með kveðju héðan úr Barentshafinu.“