Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. Ljósm. kgk.

„Markmiðið að hafa kjör félagsmanna eins góð og hægt er“

Örn Pálsson hefur verið framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda frá árinu 1987 og man tímana tvenna í smábátaútgerð. Skessuhorn hitti framkvæmdastjórann að máli og ræddi við hann um það sem er efst á baugi í smábátaútgerðinni. Ekki þarf að koma á óvart að þar voru umræður um strandveiðar og stöðvun grásleppuveiða áberandi, enda hvort tveggja í brennidepli og mikil hagsmunamál félagsmanna LS. „Nú stöndum við í smá stappi í tengslum við strandveiðarnar. Á síðasta ári var  úthlutað 11.100 tonnum af óslægðum botnfiski til smábáta á strandveiðum. En við nýttum ekki allan kvótann. Það veiddust aðeins rúm níu þúsund tonn, aðallega vegna veðurs. Við hefðum átt að fá flutning 15% af ellefu þúsund tonna heildarafla þorsks yfir á þetta ár, ein 1650 tonn og eins sjálfsagt og það er hefur það ekki enn verið staðfest í reglugerð,“ segir Örn. „Heimilt er í kvótakerfinu að flytja 15% aflamarks milli ára, til að hagræða ef veiðar ganga illa eða ef verðið er lélegt,“ segir framkvæmdastjórinn. Þá má geta þess að eftir að Skessuhorn ræddi við Örn ákvað sjávarútvegsráðherra að auka heimild kvótahafa til að flytja aflamarks botnfisks milli ára úr 15% í 25% vegna Covid-19 faraldursins. Í því kerfi veiðir hver kvótahafi sinn kvóta en strandveiðarnar eru einn pottur. Honum var skipt milli 620 báta í fyrra og stefnir í að þeir verði 700 í ár. „Ef við fáum í gegn flutning á 15% aflaheimilda síðasta árs til viðbótar við 11 þúsund króna heildarafla á þessu ári, þá ætti það að vera nóg fyrir 700 báta í fjóra mánuði. Mikið er í húfi þar sem á annað þúsund manns koma til með að hafa beina atvinnu af strandveiðum í sumar,“ segir Örn.

„Mestu verðmætin úr dagróðrarfisknum“

Að sögn Arnar hafa strandveiðisjómenn verið mjög dyggir félagsmenn LS alla tíð, en örlítið brottfall hafi orðið meðal eigenda stærri smábáta, línubátanna. „Við skiljum það reyndar ekki þar sem við höfum náð miklum árangri í afsláttum frá veiðigjöldum, réttinda- og kjaramálum, auk línuívilnunar sem á undir högg að sækja svo eitthvað sé nú nefnt,“ segir hann. „Við höfum haft þá stefnu að línuívilnun verði útfærð á annan hátt. Í dag nær hún eingöngu til báta sem veiða á línu sem er beitt og stokkuð upp í landi en við viljum að allir dagróðrabátar sem veiða á línu fái línuívilnun. Þetta er hlutur sem við verðum að ná í gegn til að efla línuveiðarnar. Þær eru dýrar en þær eru líka umhverfisvænar og ætti því að vera sjálfsagt mál á tímum aukinnar umhverfisverndar. Línuveiðar eru veiðar með kyrrstæð veiðarfæri. Fiskurinn hefur val um það hvort hann bítur á agnið. Það hefur hann ekki þegar veitt er með togveiðarfærum, sem eru bara dregin og taka allt sem verður á vegi þeirra,“ segir Örn. „Í línuveiðum er enginn mismunur á því sem er veitt og því sem er landað. Línuveiðarnar eru það dýrar að það er ekki hægt að fara tvær ferðir eftir sama fiskinum. Það kemur allt um borð, þeir lifa sem losa sig af króknum. En við togveiðar hefur svo og svo mikið af fiski drepist sem smýgur út úr trollinu og því nokkru meira veitt en kemur upp með því,“ segir hann. „Mestu verðmætin eru úr dagróðrarfiskinum, þess vegna eigum við að leggja áherslu á þær veiðar,“ bætir hann við.

Hverjum fiski strokið

Auk þess segir Örn ekki mega líta fram hjá þeim jákvæðu áhrifum sem strandveiðarnar hafi á byggðarlög um landið. „Tökum bara Patreksfjörð sem dæmi. Þar eru um 10% íbúanna á strandveiðum. Það er rosalega hátt hlutfall. Þar er tíð löndunarbið á sumrin, öllum afla landað á staðnum og hann seldur í gegnum fiskmarkaði. Atvinnulífið í landinu bíður eftir því að strandveiðar hefjist,“ segir Örn. „Núna er staðan einfaldlega sú að fiskkaupendur, markaðsmenn og aðrir geta gengið að tíu til ellefu þúsund tonnum af þorski yfir sumarið í beina markaðssetningu á hágæðafiski, sem er veiddur á handfæri,“ segir hann, en bætir því að í upphafi strandveiðanna fyrir meira en áratug hafi gæðin ekki verið nægilega mikil. „Síðan þá höfum við gert mikið átak í því og í fyrra barst okkur ekki ein einasta kvörtun um að ekki hefði verið gengið nægilega vel um aflann,“ segir Örn ánægður. „Enda er aðdáunarvert þegar maður fer niður á bryggju og kíkir ofan í körin hjá körlunum. Maður hefur á tilfinningunni að hverjum einasta fiski hafi verið strokið,“ segir hann.

Vill aflamarkið burt úr strandveiðunum

Framkvæmdastjórinn segir það vera sýn LS að strandveiðarnar þróist á þá leið að ekki verði gefinn út neinn heildarafli, heldur verði veiði eingöngu stýrt með veiðidögum. Þannig eigi menn aldrei á hættu að veiðar verði stöðvaðar. „Strandveiðileyfið yrði þá 48 daga leyfi til að veiða með handfærum ákveðna daga í viku og yfir lengra tímabil en nú er. Þá myndi ekki skapast þetta kapp á milli manna eins og stundum hefur orðið,“ segir hann. „Það getur gerst þegar fiskað er upp að hámarksafla. Ég vil ekki sjá það gerast í ágúst að veiðar verði stöðvaðar, það má ekki koma upp sú staða og með ólíkindum að ráðherra skuli ekki hafa tryggt meiri afla inn í kerfið samhliða fjölgun báta,“ bætir hann við. „Við höfum þessa auðlind og göngum ekki á hana. Handfæraveiðar geta aldrei ofveitt neina fiskistofna. Bátarnir eru háðir því að veiða ekki meira en 774 kg af þorski á dag og verða að vera komnir í land 14 tímum eftir að þeir leggja úr höfn. Það getur aldrei orðið nein hætta á ofveiði,“ segir Örn. „Aðalstýringin er auðvitað veðrið og fiskgengd á grunnslóð. Veðrið nú hefur verið betra en í fyrrasumar, hvað sem nú verður þegar líður á. Þegar það er bræla dettur aflinn niður í ekki neitt, en fer kannski upp í 200 tonn á góðum dögum,“ segir hann. „Við höfum líka viljað breyta fyrirkomulaginu á þá leið að vikan verði gerð upp í afla, ekki hver einasti dagur. Ef menn koma einn daginn með 800 kg vita þeir að þeir þurfa að minnka næsta dag. Síðan yrði umframaflinn gerður upp eftir vikuna, en ekki þannig að menn fái sekt á hverjum degi þegar þeir fara umfram, þó þeir séu undir 774 kg meðaltali yfir vikuna. Þetta er eitthvað sem þarf að laga,“ segir Örn.

Að ýmsu að hyggja

Nú í sumar stefnir í töluverða fjölgun báta á strandveiðum. Sem fyrr segir er búist við um og yfir 700 bátum, samanborið við 620 í fyrra. Síðasta sumar var heilt yfir gott að sögn framkvæmdastjórans, bæði hvað varðar veiði og gott verð, þó veðrið hefði mátt vera betra á miðunum yfir tímabilið. „Nú hefur verðið lækkað og það tekur í. Það er auðvitað ýmiss kostnaður sem fylgir strandveiðiútgerð. Í fyrsta lagi þarf að eiga bát og greiða af honum, tryggja og sinna viðhaldi. Strandveiðileyfi er sérleyfi og er árlegur kostnaður er 20 þúsund krónur. Þess utan er svokallaður bryggjuskattur, sem strandveiðisjómenn greiða til viðbótar strandveiðileyfinu. Hann var settur á 2010 til að mæta kostnaði hafnanna, sem töldu sig ekki reiðubúnar að taka við hundruðum báta og þjónusta þá. Það hefur verið stefna LS að þessi skattur verði aflagður. Vonandi verður það gert fljótlega á næsta ári,“ segir hann.

„En tilgangur strandveiðanna er líka að gera mönnum kleift að komast inn í útgerð. Gefa ungum mönnum færi á að hasla sér völl, finna hvort þeir geta þetta og hvort þetta á við þá,“ segir Örn. Hann telur strandveiðarnar, auk grásleppuveiðanna, í raun eina tækifærið sem menn hafa í dag til að koma á fót eigin útgerð. „Ég held að nánast enginn hafi tök á að kaupa sér bæði bát og veiðiheimildir. Það þarf að eiga töluvert mikinn sjóð til þess og er ekki á færi margra,“ segir hann. „En með því að rýmka aðeins með strandveiðum væri hægt að efla þær, þannig að menn hefðu góðan hagnað af og gætu smám saman keypt sig inn í kvótakerfið,“ bætir hann við.

Vinnan við að gera út smábát er heldur ekki fyrir hvern sem er að glíma við. „Það þarf að hafa tök á fjölmörgum þáttum. Menn þurfa í fyrsta lagi að hafa það í sér að geta veitt. Síðan fylgir þessu mikið bókhald, menn þurfa að kynna sér allar reglur í kringum veiðarnar, sölu aflans og helst geta gert við sjálfir ef það bilar,“ segir Örn. „Síðast en ekki síst þurfa menn að hafa mikinn sjálfsaga og búa yfir skynsemi til að meta veðrið. Það er ekki bara mætt klukkan átta og byrjað að vinna. Það þarf mikla þolinmæði, elju og að vera reiðubúinn að vera við allan sólarhringinn. Þetta er strit og streð,“ segir hann.

Vilja þrepaskipta línuívilnun

Innan vébanda LS er nokkuð af kvótabátum. Einkum er þar um að ræða línubáta allt að 30 tonnum að stærð. Örn segir kvótasetninguna á sínum tíma hafa leitt til ákveðinnar mismununar innan kerfisins. „Það eru allir í harðri samkeppni um að bæta við sig veiðiheimildum. Ef sá sem á lítinn kvóta vill bæta við sig getur verið mjög erfitt að fá til þess fyrirgreiðslu. Þeir sem eru orðnir mjög stórir eiga miklu betri aðgang að lánsfé og kjörum,“ segir hann. „Þessu þykir okkur eðlilegt að sporna við með ákveðinni stýringu, eins og afslætti frá veiðigjöldum,“ bætir hann við. „Síðast þegar veiðigjöld voru til umfjöllunar lögðum við til að þau yrðu þrepaskipt. Mestan afslátt fengju þeir sem ættu minnstar veiðiheimildir, en síðan myndi afslátturinn lækka í þrepum og að lokum detta út,“ segir Örn. Innan krókaflamarksins hafi lagabreyting 2013 sem heimilaði stækkun á bátum úr 15 tonnum í 30 tonn sömuleiðis leitt til aukinnar samþjöppunar í kerfinu. „Það eru alltaf fleiri og fleiri að komast upp í þakið í eignarhaldi á kvóta. Þar sitja stærri útgerðir og útgerðir sem eru með fiskvinnslu líka við annað borð en þær smæstu,“ segir hann. „Smærri kvótabátarnir hafa þó mikið til haldið sínum kvóta undanfarið, en bæta það upp sem upp á vantar með því að fara á grásleppu eða strandveiðar á sumrin. Þannig er slíkum útgerðum haldið á floti,“ bætir hann við.

„Auðvitað eru allir hundfúlir“

Grásleppusjómenn eru allstór hluti félagsmanna LS. Grásleppuveiðar hafa verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur, eftir að þær voru stöðvaðar í byrjun maí. Framkvæmdastjórinn er að vonum óhress með hvernig þar var staðið að málum. „Undanfarin ár hefur veiðunum verið stýrt þannig að Hafró gefur út ráðgjöf um heildarafla, Út frá honum, sem og stöðu á mörkuðum, hefur verið gefinn út fjöldi veiðidaga. Þannig hefur okkur tekist að vera innan marka,“ segir Örn. „En í ár gekk þetta ekki og fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi ákvað ráðherra að láta veiðar hefjast 10. mars, eða tíu dögum fyrr en verið hefur. Lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar liggur ekki fyrir fyrr en 1. apríl. Bátar sem byrjuðu fyrsta daginn á vertíðinni hefðu verið á sínum síðasta degi 3. apríl,“ segir hann. „Við þetta myndast stress og pressa að ákveða hvað séu passlega margir dagar á vertíðinni, sem við sjáum vanalega í kringum 12. eða 13. apríl og höfum getað áætlað mjög vel í kringum þann tíma undanfarin ár. Grásleppunefnd LS fór afar vel yfir stöðuna eftir að Hafró hafði gefið út lokaráðgjöf og reyndi að meta hversu marga daga þyrfti til veiða. 2. apríl skrifaði LS bréf til ráðuneytisins. Þar lýstum við góðri veiði fyrir norðan og að allt stefndi í fína vertíð, að minnsta kosti á því svæði. Við báðum því ráðuneytið að fækka dögum frá síðasta ári og hafa þá 39-40. Á það var ekki hlustað og leyfð veiði í 44 daga. Jafnframt lýstum við í erindinu að vegna mikillar veiði fyrir norðan þyrfti að fylgjast vel með veiðunum, til að kvótinn myndi ekki klárast áður en allir fengju tækifæri til að róa. Það var ekki gert og þessu bara leyft að springa í loft upp, veiðar stöðvaðar og auðvitað eru allir hundfúlir,“ segir Örn og bætir því við að við stöðvun veiða hafi tugir sjómanna ekki verið byrjaðir á vertíðinni, en allir hafi þeir verið búnir að leggja út fyrir kostnaði. „Síðan var ákveðið að við innanverðan Breiðafjörð, þar sem veiði hefði ekki byrjað fyrr en 20. maí, fengju menn að veiða 15 tonn og hafa til þess 15 daga,“ bætir hann við. „Allt saman vekur þetta auðvitað óánægju og menn spyrja sig eðlilega hvað vakir fyrir ráðherra. Hann hlyti að hafa getað fækkað dögum þegar veiddist svona vel fyrir norðan, fækka kannski niður í 35 þannig að allir á öllum svæðum hefðu getað fengið passlega mikið. En það var ekki gert og þá verður til þessi mismunun og eðlilega óánægja. Þetta er alvarlegt mál og á ábyrgð ráðherra að stýra ekki veiðunum betur en þetta. Ekki aðeins þannig að ekki verði farið yfir heildaraflann, heldur verður hann að hugsa um hvern og einn sem er á veiðum. Það gerði hann ekki þessa vertíðina,“ segir Örn.

Á móti kvótasetningu grásleppu

Sjávarútvegsráðherra hefur lagt til og talað fyrir kvótasetningu á grásleppu. Örn segir að LS hafi hingað til verið því andsnúið. „Hver er megintilgangur kvótakerfa? Jú, það er að geta stýrt veiðum til að koma í veg fyrir ofveiði. Það höfum við ekki gert í grásleppunni, bara alls ekki og það er ekki þannig að það sé bara eitt kerfi sem gengur upp til að stýra veiðum,“ segir hann og bætir því við þróun grásleppuveiða sé fyrirséð, komi til kvótasetningar. „Útgerðunum fækkar. Við úthlutun munu margir fá miklu minni kvóta en þeir telja sig þurfa til að halda áfram. Þá verða þeir að selja kvótann. Jú, þeir eignast dálítið af peningum, en þeir missa atvinnuna í leiðinni. Maður hefur oft séð menn verða dálítið ráðvillta þegar þeir allt í einu missa starfið,“ segir Örn. „Sumum þykir ósanngjarnt að setja á kvóta vegna þeirra sem á eftir koma, finnst að þeir eigi að geta að geta keypt sér bát og byrjað að róa eins og verið hefur hingað til. Það er fyrirséð að það verði dýrt að komast inn í kerfið ef veiðarnar verða kvótasettar. Enn aðrir eru farnir að hugsa að starfslokum og þeir fengju auðvitað greiðslu, ef þeir hefðu kvóta til að selja þegar þeir hætta. Allt þetta hefur auðvitað áhrif á afstöðu manna til kvótasetningar, skiljanlega,“ segir framkvæmdastjórinn. „Hingað til hefur verið almenn ánægja með grásleppukerfið, meira að segja þegar veiðidagarnir hafa ekki verið nema 32 talsins. Og með þessu kerfi hafa veiðarnar dreifst mjög vel um landið, alveg frá Vopnafirði og þaðan norður og um allt Norðurland, Vestfirði og suður á Snæfellsnes og Akranes. Það er alls staðar veidd grásleppa nema á Suðurlandi. Veiðin hefur veitt mönnum atvinnu og góðar tekjur þegar selst á góðu verði, eins og í fyrra. Ég held að menn ættu að hugsa sig mjög vel um áður en farið er að hrófla eitthvað við þessu,“ segir Örn.

Frá krítartöflu á kontórinn

En þá að stærstu spurningunni hingað til; hefur Örn sjálfur verið til sjós? „Nei, ég hef aldrei verið á sjó,“ segir hann og brosir. „Ég var að kenna eðlisfræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þegar það var náð í mig hingað á skrifstofuna,“ bætir hann við. „Arthur Bogason, vinur minn til margra ára og jafnaldri frá Akureyri, stofnaði Landssamband smábátaeigenda 1985. Árið eftir vantaði mann á skrifstofuna og hann spurði hvort ég gæti komið af og til niður á kontór um sumarið og svarað í símann og svona. Ég gerði það, fór aftur að kenna um haustið en þetta heillaði mig eitthvað,“ segir Örn. „Þegar var síðan leitað eftir því að ég tæki að mér starf framkvæmdastjóra ákvað ég að segja upp í kennslunni. Ég var mjög mikið hérna haustið 1986 og alfarið frá ársbyrjun 1987,“ segir framkvæmdastjórnn, sem hefur þannig gegnt starfinu undanfarin 33 ár. „Þetta er heillandi og skemmtilegt starf, þó auðvitað fylgi þessu stress og ýmislegt svoleiðis, en það er alltaf eitthvað nýtt sem bíður. Félagsmenn eru algerlega frábærir, hver með sína skoðun á öllum málum og mikill fróðleikur sem þeir búa yfir,“ segir Örn. Hann telur það ekki hafa háð sér í starfinu að hafa ekki átt bakgrunn í sjómennsku. „Ég held að það hafi ekki gert mig að slakari starfskrafti fyrir félagsmenn. Þetta lærist með tímanum. Maður kom alveg hlutlaus inn í þetta á sínum tíma, engum háður. Markmiðið er að hafa kjör félagsmanna eins góð og hægt er, með því að viðhalda veiðiréttinum og auka við hann. Ég held að LS hafi bara tekist nokkuð vel upp í því,“ segir Örn.

Stærstu sigrarnir

Þar sem framkvæmdastjórinn er reyndur í starfi og hefur séð ýmislegt er ekki úr vegi að spyrja hann hvern hann telji stærsta sigurinn sem smábátasjómenn hafa unnið? „Árið 1991 var gerð ansi mikli breyting, þegar allir bátar yfir sex tonnum voru kvótasettir. Við það fækkaði þeim hratt, voru um tvö þúsund en fækkaði snögglega um hundruð. Veiðiheimildir í þorski voru að dragast saman á þessum tíma og margir fengu ekki nógu mikinn kvóta. Þá stóð þeim til boða að færa sig í annan hóp, báta undir sex tonnum sem gátu valið hvort þeir færu í kvóta eður ei. Hins vegar lá það fyrir að 1. september 1994 yrðu þeir kvótasettir og aðeins rúmum 2% þorskveiðiheimilda skipt á milli þeirra. Við notuðum þennan tíma eins og við gátum til að reyna að koma stjórnvöldum í skilning um að þetta gengi ekki. Að lokum fór svo að ákveðið var að hlutdeild þessara báta í heildaraflamarki í þorski yrði 13,5%, ásamt margra ára aðlögun að kvótasetningu í öðrum tegundum. Þarna lagði LS grunninn að þeirri sterku stöðu sem eigendur krókaaflamarksbáta hafa notið.  Líklega stærsti sigurinn sem LS hefur unnið,“ segir Örn en nefnir einnig að strandveiðarnar hafi verið stór áfangi. „Það er mikil og almenn ánægja innan okkar raða með strandveiðarnar. Það var líka mikill sigur þegar þeim var komið á árið 2009. Þær hafa vaxið og eflst og ekkert lát orðið á þeim ennþá,“ segir Örn Pálsson að endingu.