Það verður fjör hjá þessum í ágúst á Akranesi.

Kassabílarallý skipulagt á Akranesi í ágúst

Sagt er frá því á fésbókarsíðu hópsins Kassabílasmíði á Akranesi að í ágúst verði keppt í kassabílarallýi á Akranesi í fyrsta skipti. Þessi dagur verður tileinkaður kassabílum og kassabílasmíði þar sem keppt verður í nokkrum þrautum og verða veitt verðlaun fyrir frumlegasta og flottasta kassabílinn. Akraneskaupstaður styrkir framtakið og er ætlunin að þetta verði ógleymanleg fjölskylduskemmtun. Staðsetning og tímasetningar verða nánar kynntar síðar.

Ole Jakob Volden, einn af forsprökkum hópsins, segir að allir séu velkomnir hvaðan af landinu sem er og það kosti ekkert að taka þátt og því geta allir tekið þátt sem vilja. Þegar nær dregur verður boðið upp á námskeið í kassabílasmíði í áhaldahúsi Akraneskaupstaðar við Laugarbraut. Þar verður heitt á könnunni og foreldrar og forráðamenn geta komið með börnin sín og fengið aðstoð við að saga niður og skrúfa saman og við alla aðra tæknilega aðstoð.

Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt eða hafa einhvern áhuga á að aðstoða eða taka þátt í þessu framtaki eru vinsamlegast beðnir um að senda línu á kassabilarally@gmail.com