Jóna Margrét gefur út plötuna Tímamót

Söngkonan Jóna Margrét Guðmundsdóttir gaf út sína fyrstu plötu á dögunum og ber hún nafnið Tímamót. Þegar Skessuhorn náði tali af Jónu Margréti var hún í kaffipásu í vinnunni en hún byrjaði í sumar að vinna í skautsmiðju Norðuráls á Grundartanga. „Ég er að vinna í Norðuráli, í skautsmiðjunni, og mér finnst það mjög skemmtilegt. Síðustu 7-8 ár hef ég verið að vinna sem þjónn á sumrin og nú langaði mig bara aðeins að breyta til. Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður en ég ætla að vera hér alveg fram að áramótum, þá fer ég til Danmerkur í söngnám.“ Jóna Margrét mun taka þriggja mánaða söngprógram við danska skólann Complete Vocal Institute. „Þar er ég í rauninni að fara að læra um allt sem gerist í líkamanum þegar þú ert að syngja og hvernig þú getur beitt röddinni betur þegar þú syngur.“

Skipstjóri eða söngkona

Jóna Margrét býr á Akranesi hjá foreldrum sínum og verður þar þangað til hún fer út til Danmerkur. Hún er nemi á tónlistarbraut við Menntaskólann á Akureyri og núna í haust ætlar hún að klára síðustu önnina í fjarnámi með vinnu og mun þá útskrifast þaðan í desember. „Sko, ég var í MA á raungreinabraut því ég ætlaði að verða skipstjóri og var mjög áhugasöm um það. En svo breyttist það bara þegar ég kom í MA því það voru svo mörg skemmtileg tækifæri í skólanum. Þar er leiklistar- og tónlistarfélag og það kveikti rosalegan áhuga hjá mér þannig ég fór að spyrjast fyrir hvort það væri hægt að útskrifast á stúdentsbraut í tónlist í MA og það kom í ljós að það var bara vel hægt. Ég kláraði sem sagt allan grunn á raungreinabraut og tók svo alla auka áfanga á tónlistarbraut. Núna á ég eftir að klára einn áfanga í tónfræði og útskrifast svo um jólin.“

Alltaf syngjandi

Dalirnir eiga stóran hlut í hjarta Jónu Margrétar, hún flutti þangað þegar hún var í 6. bekk í grunnskóla og lauk grunnskólagöngunni þar. Hún segir að þar hafi verið lagður hornsteinninn að hennar tónlistarferli og þar lærði hún að koma fram. „Mamma segir að ég hafi byrjað að syngja áður en ég lærði að tala og ég hef einhvern vegin alltaf verið syngjandi. Það hefur verið draumur frá því ég var lítil að vera söngkona og geta lifað á því. Það var samt ekki fyrr en ég flutti í Búðardal að ég fór að æfa söng og þar steig ég fyrst á svið. Ólafur Einar Rúnarsson var söngkennarinn minn í Búðardal og hann hjálpaði mér ótrúlega mikið og fékk mig til að þora að syngja fyrir framan aðra. Svo sagði hann mér til og sýndi mér hvernig ég átti að passa upp á raddböndin og fleira. Hann gaf mér í raun mjög dýrmæt verkfæri sem ég nýti mér enn í dag.“

Tímamót

Platan Tímamót kom út 12. ágúst og hafði þá verið í smíðum í tvö ár. Platan inniheldur níu lög sem öll eru samin af Jónu Margréti sjálfri en með góðri aðstoð vina og vandamanna. „Það koma mjög margir að þessari plötu og ég ætla ekki að taka heiðurinn af henni allri sjálf,“ segir Jóna og nefnir í kjölfarið að hún hafi haft mjög góða pródúsera sem hjálpuðu henni að útsetja lögin og mamma hennar og aðrir vinir hafi hjálpað henni með textagerð og lagasmíð. En af hverju að gefa út plötu? „Það var eiginlega bara hluti af skólaverkefni. Á tónlistarbrautinni fáum við mikið að velja verkefni sem við gerum; sumir gera tónlist í bíómyndir og aðrir gera nótnabækur. Mig langaði að gera plötu þar sem eru fjölbreytt lög og ég fæ að prófa alls konar; mismunandi tilfinningar og mismunandi tónlistarsnið og tónlistarstíl. Í þessu ferli komst ég líka að því að ég geri ekki bara eina tegund af tónlist heldur ræður tilfinningin svolítið því sem ég geri hverju sinni. Á plötunni er allt frá ballöðu yfir í grjóthart klúbbalag.“

Uppáhaldslag Jónu Margrétar á plötunni er lagið Skák og mát. „Það fjallar um togstreituna í ástarsambandi sem er að verða komið á endastað, þar sem báðir einstaklingar eru að reyna að láta sambandið ganga en maður veit innst inni að það er ekki að fara að ganga.“

Brennur fyrir söng- og leiklist

Hver eru framtíðarplön Jónu Margrétar? „Draumurinn er að fara til Danmerkur í söngskólann og koma svo heim og sækja um í LHÍ á leikarabraut og svo bara halda áfram í þessu. Ég ætla að flytja suður og ég er með aðgang að stúdíói þar svo þar mun ég bara skrifa og semja og halda áfram. Ég mun bara pakka mér inn í tónlist og leiklist.“

Jóna Margrét segist hafa valið leiklistarnám í LHÍ því hún getur ekki ákveðið hvort hún vilji verða leikari eða söngvari. „Ég ætla að byrja á söngnáminu því það er gott að hafa það á ferilskránni því það getur verið erfitt að komast inn á leiklistarbrautina. En það skemmtilegasta sem ég geri er að leika og vera í söngleikjum og ég brenn fyrir því.“

Föstudaginn 26. ágúst nk. mun Jóna Margrét koma fram í Vínlandssetrinu í Búðardal. Hún stígur á svið klukkan 21:00 og flytur lög af nýútgefinni plötu sinni, Tímamót.
Hlusta má á plötuna í heild sinni hér