Í fyrirheitna landinu – ný sýning Einars Kárasonar

Fyrirheitna landið er áttunda sýningin sem Einar Kárason kemur á á sögulofti Landnámsseturs í Borgarnesi. Frumsýningin var fyrsta sýningin eftir tilslökun á samkomubanni og því ærið tilefni til að fagna. Það þýddi að gestir voru færri en venjulega enda ekki hægt að pakka áhorfendum þétt í salinn en fyrir vikið var andrúmsloftið afslappað og heimilislegt. Tímabundin lokun Hvalfjarðarganganna olli korters töf á sýningunni en það gerði lítið til. Einar er kunnur sagnamaður og eins og í fyrri sýningum notar hann hér eitt elsta listformið, að segja sögur af Karólínu spákonu, Badda frænda, Ömmu Gógó og fleiri vel þekktum persónum Einars úr Djöflaeyju-þríleiknum. Samstarfið við Kjartan Ragnarsson hefur verið blómlegt og í sameiningu hafa þeir félagar þróað framsetningu efnisins, svo mjög að langt frá því að vera einföld sagnamennska minnir verkið meira á einleik.

Helsti styrkleikur Djöflaeyju-þríleiksins er litríka persónugalleríið sem Einar kynnti fyrir lesendum í lok 20. aldarinnar. Persónurnar eru byggðar á fólki sem lifði og dó í braggahverfum Reykjavíkur um miðja öldina og átti sínar ástir og átök þó það ætti ekki upp á pallborðið hjá broddborgurum bæjarins. Þó lífið í Thule-kampi sé oft á tíðum kaldranalegt og ofbeldisfullt ber frásögnin með sér væntumþykju og glöggt auga fyrir mennskunni í persónunum, ekki bara göllum þeirra. Fyrirheitna landið er þriðja og síðasta bókin í þríleiknum og þar segir frá ferðalagi Munda og Manna til Ameríku, þar sem þeir hitta ömmu Gógó, Badda frænda og fleiri litríkar persónur.

Á sviðinu meðal annars er Einar í hlutverki Munda, sögumannsins sem gefur hlustendum innsýn í ástandið í bröggunum og ferðalagið vestur um haf. Persónurnar sem hann mætir á leiðinni eiga það til að taka yfir frásögnina, og Einar bregður sér jafnt í gervi Badda frænda, ömmu Gógó og tautandi bandarísks svínahirðis. Úr munni Badda hrjóta eftirminnilegar setningar eins og „Kung fu fighting, engan skæting“ og amma Gógó hristir af sér áföll og mótlæti, hvers kyns sem þau eru með léttu „jájá, elskan mín, þetta verður allt í lagi“ en gefur ekki mikið fyrir samferðafólk sitt. Orðfærið er hárnákvæmt og persónurnar hafa skýr sérkenni, Baddi og Gógó sletta bandarísku hér og þar og það bregst ekki að Karólína spákona fallbeygir orðið læknir vitlaust. Natnin við smáatriðin og væntumþykja fyrir gölluðum persónum eru hápunktur sýningarinnar. Það gerir það að verkum að ævintýri þeirra og skakkaföll verða oft á tíðum bráðfyndin og áhorfendur skemmtu sér konunglega ef marka má hláturinn í salnum.

Fyrir hlé tekur Einar sér tíma í að rifja upp mismunandi persónur í gegnum augu manns sem snýr aftur í kampinn eftir dvöl erlendis. Persónur eru margar og ekki úr vegi að rifja þær upp, ekki síst fyrir fólk sem ekki þekkir bækurnar eða myndina til hlítar. Það fer þó helst til mikil orka í upprifjunina og framvinda sögunnar er losaraleg til að byrja með. Eftir hlé, þegar strákarnir eru komnir út til að hafa uppi á ömmu Gógó og hennar niðjum er sýningin þéttari, auðveldara að halda þræði og lokamarkmiðið, að safna nægilega mörgum sögum af fólkinu til að hafa efni í bók, er þægilegt leiðarhnoð til að halda hlustendum við efnið.

Umgjörð sýningarinnar er einföld og látlaus eins og Söguloftið gefur tilefni til. Það er rúmt í salnum enda gefinn kostur á að sitja í góðri fjarlægð frá öðrum, þó kannski ekki í fullri tveggja metra fjarlægð. „Sviðið“ er gangur eftir gólfinu endilöngu og áhorfendur sitja sitt hvoru megin við. Það hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar að Einar þarf yfirleitt að snúa bakinu í einhvern hluta áhorfenda en hann nýtir allt sviðið, er á mikilli hreyfingu og með líflega framkomu, svo það kemur ekki mikið að sök. Hann er einn á sviðinu, án leikmuna og eina umgjörð sýningarinnar er tónlist sem kynnir hann á svið.

Það er vandasamt verk að laga skáldsögu að sviði, ekki síst þegar persónurnar eru jafn vel þekktar og fólkið úr Djöflaeyjunni. Þrátt fyrir að aðlögunin sé ekki hnökralaus er auðvelt að gleyma sér undir frásögn Einars og í meðförum hans stíga persónurnar ljóslifandi á svið.

 

Gréta Sigríður Einarsdóttir