Hljómsveitin E.C – Hörður Gunnar Geirsson, Ari Jónsson og Trausti Ísaksen. Ljósm. aðsend.

Hljómsveitin E.C gefur út sína fyrstu skífu

Hljómsveitin E.C gaf nýlega út sína fyrstu skífu, Man of Mystery. Á plötunni eru fimm lög, hvert öðru betra. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Skagastrákarnir Ari Jónsson, Trausti Már Ísaksen og Hörður Gunnar Geirsson. Ari og Trausti eru söngvarar hljómsveitarinnar en Trausti „rappar“ meðal annars í laginu Impulses. Skífan kom út 6. nóvember og er nú fáanleg á öllum helstu streymisveitum.

Hljómsveitin hefur starfað saman í um þrjú ár. Ari og Trausti höfðu verið að setja saman texta og höfðu meðal annars tekið þátt í Músíktilraunum. Þá vantaði hins vegar lagasmið. Hörður Gunnar frétti af því og bauð fram krafta sína. Í fyrstu hittust meðlimirnir á Facetime en að lokum var bílskúr foreldra Trausta tekinn traustataki undir æfingar hljómsveitarinnar.

Platan Man of Mystery varð til fyrir meira en ári þegar lögin Man of mystery og Lost in space voru skrifuð. Kom þá upp sú hugmynd að skrifa plötu um mótunarár þessa stráks sem talar um lífið og tilveruna en einnig einmanaleikann og erfiði þess að feta sín fótspor í lífinu. Við glögga hlustun í gegnum plötuna heyrir maður ungan mann reyna að takast á við óöryggi og slaka sjálfsmynd, falla í gildrur áfengisneyslunar og verða ástfanginn áður en hann gengur loks í sátt við lífið.