Hinsegin Vesturland fer í gang með hönnunarsamkeppni að lógói

„Félagið Hinsegin Vesturland hefur hrundið af stað hönnunarkeppni í leit að hinu fullkomna logo-i fyrir félagið,“ segir í tilkynningu. Keppnin er leynileg. Trúnaðarmaður keppninnar tekur við innsendum tillögum og sér um öll samskipti við þátttakendur. Keppnin er öllum opin nema stjórn Hinsegin Vesturlands og nánustu fjölskyldum þeirra. Engin takmörk eru á hversu margar tillögur hver þátttakandi má senda inn. Merkið/lógóið skal endurspegla tilgang félagsins sem er að auka sýnileika, stuðning og fræðslu ásamt því að efla tengslanet hinsegin fólks á Vesturlandi, auk aðstandenda þeirra og velunnara. Hinsegin Vesturland mun tilkynna um sigurvegara keppninnar en vinningar fyrir verðlaunahugmyndir koma frá Kraumu, Hótel Búðum og Hraunsnefi sveitahóteli.

Trúnaðarmaður keppninnar er Anna Sigríður Guðbrandsdóttir myndmenntakennari í Grunnskóla Borgarness. Hún tekur á móti innsendum tillögum og miðlar þeim til dómnefndar og sér um að upplýsa stjórn Hinsegin Vesturlands um niðurstöðu keppninnar. Þátttakendur skula skila tillögu á PDF formi, uppsettu á A4. Í skjalinu mega ekki koma fram neinar upplýsingar sem kunna að gefa til kynna hver höfundur tillögunnar er, ellegar er hætta á því að hún verði dæmd úr leik. Tillögur skulu sendar inn á tölvupósti á: merkihinseginvest@gmail.com. Skilafrestur er til miðnættis 25. mars 2022.

Allar nánari upplýsingar eru á http://hinseginvesturland.com