Gull, silfur og brons til Íslands fyrir vel lukkaða markaðsherferð

Markaðsaðgerðir á vegum verkefnisins Ísland saman í sókn hafa fengið fjölmörg verðlaun á alþjóðlegum verðlaunahátíðum markaðs- og auglýsingafólks að undanförnu. Alls hafa herferðir á vegum verkefnisins hlotið 39 alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar, þar af 16 gullverðlaun, frá því verkefnið hóf aðgerðir í byrjun sumars 2020.

Í síðustu viku vann herferðin Icelandverse til þriggja verðlauna á hinni virtu Cannes Lion Festival of Creativity, sem haldin er í Cannes í Frakklandi. Herferðin hlaut tvö silfurverðlaun fyrir kvikmyndaðar auglýsingar, annars vegar í flokknum  ferðaþjónusta og hins vegar í flokki smærri auglýsenda. Þá fékk herferðin bronsverðlaun fyrir almannatengsl í flokknum ferðaþjónusta. Hátíðin verðlaunar framúrskarandi skapandi vinnu í markaðsstarfi og eru verðlaunin þau eftirsóttustu sem veitt eru fyrir markaðssetningu.

Um miðjan júní vann herferðin Sweatpant Boots gullverðlaun í flokknum smærri auglýsendurþjónusta og hlaut jafnframt silfurverðlaun í flokknum Davíð vs Golíat á Effie verðlaunahátíðinni sem haldin var í Bandaríkjunum. Effie verðlaunin eru eftirsótt fagverðlaun sem veitt eru fyrir árangursríka markaðssetningu og er einungis veitt herferðum sem geta sýnt fram á framúrskarandi árangurstölur. Dómnefnd er skipuð fagfólki í markaðssetningu sem velur sigurvegara úr miklum fjölda innsendinga.

„Það er ákaflega gaman að fá svona viðurkenningar, en þær eru til vitnis um bæði góðan árangur í markaðssetningu og gæði herferðanna. Við erum að berjast um þessi verðlaun við mörg af stærstu vörumerkjum heims, sem hafa gríðarlega fjármuni til þess að setja í sitt markaðsstarf,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Við leggjum mikla áherlsu á að mæla árangurinn og þær rannsóknir sem við höfum gert undanfarin misseri sýna mikinn og aukinn áhuga fólks á að ferðast til Íslands. Við tókum þá ákvörðun að halda áfram að markaðssetja í gegnum heimsfaraldurinn, og teljum að sú ákvörðun hafi borgað sig, Sú staðreynd að ferðaþjónustan er að taka hraðar við sér en nokkur átti von á er ákaflega ánægjulegt og mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Herferðin Outhorse Your Email stendur nú yfir og hefur farið vel af stað. Alls hefur verið fjallað um hana í rúmlega 700 erlendum fjölmiðlum sem ná samanlagt til 4,5 milljarða lesenda. Þá hafa rúmlega 20.000 manns nú skráð sig fyrir sjálfvirku svari frá íslenskum hestum við tölvupóstinum sínum.

Um herferðirnar:

Íslandsveruleikinn (Icelandverse) kynnti til sögunnar fullmótaða og gagnvirka þjónustu sem hefur verið í þróun í milljónir ára. Þar má finna eldfjöll, fossa, og norðurljós ásamt ýmsum öðrum náttúrulegum fyrirbrigðum sem eru ótrúlegri en nokkur eftirlíking í tölvuheimum. Íslandsveruleikinn er jafnframt frábær staður til þess að eyða tíma með vinum og kynnast nýju fólki í raunheimum. Það er Jörundur Ragnarsson leikari sem kynnti þessa nýju þjónustu sem boðið verður upp á hér á Íslandi um ókomna tíð. Leikstjórn var í höndum Allans Sigurðssonar.

Markaðsherferðin Sweatpant boots gekk út á að bjóða ferðamönnum að mæta með „heimsfaraldurs-joggingbuxurnar“ sínar í pop-up búð í Bankastræti þar sem þær voru endurunnar í gönguskó. Alls náði herferðin 1.4 milljarði snertinga, 62 milljónir hafa horft á myndband herferðarinnar, og rúmlega 100 erlendir fréttamiðlar fjallað um

Skórnir voru hönnun fatahönnuðarins Ýrar Þrastardóttur. Herferðinni var fylgt úr hlaði með frumsömdu lagi, Sweatpant Boots, eftir Ásgeir Orra Ásgeirsson og Rögnu Kjartansdóttir, einnig þekkt sem Cell 7, sem flytur lagið. Leikstjórn var í höndum Guðnýjar Rósar Þórhallsdóttur, en Skot Productions sá um framleiðslu.

Allar herferðirnar eru gerðar í samstarfi við auglýsingastofuna SS+K í New York sem er hluti M&C Saatchi keðjunni og íslensku auglýsingastofuna Peel.

Sweatpant Boots: https://www.youtube.com/watch?v=-RR_D9_laZk&t=5s&ab_channel=InspiredbyIceland

Bak við tjöldin: https://www.youtube.com/watch?v=O0h5sf-rlKA&ab_channel=InspiredbyIceland

Icelandverse: https://www.youtube.com/watch?v=enMwwQy_noI&ab_channel=InspiredbyIceland