Geðrækt er lykillinn að góðri geðheilsu

G-vítamín dagatalið fyrir þorrann er komið í sölu hjá Geðhjálp en í því eru 30 skammtar af G-vítamíni fyrir alla. „Í dagatalinu eru lítil og einföld geðræktandi ráð sem hjálpar fólki að bæta geðheilsu sína. Við þurfum öll að glíma við eitthvað í gegnum lífið og stundum blæs hressilega á móti. En ef maður stundar reglulega geðrækt er maður betur í stakk búin til að takast á við stærri verkefni lífsins,“ útskýrir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar í samtali við Skessuhorn. Öll vitum við að með reglulegri líkamsrækt getum við bætt ónæmiskerfið okkar, styrkt hjartað og líkamlega heilsu og um leið dregið úr líkum á alvarlegum sjúkdómum. Það sama á við um geðheilbrigði að sögn Gríms. „Við getum ekki alveg komið í veg fyrir geðrænar áskoranir en við getum dregið úr líkunum og komið í veg fyrir stærri vandamál með reglulegri geðrækt.“

Geðhjálp á landsbyggðinni

Íbúar á landsbyggðinni búa margir langt frá geðheilbrigðisþjónustu en að sögn Gríms eru þó nokkrir valkostir sem fólk getur nýtt sér. Fyrst og fremst leggur hann áherslu á fyrirbyggjandi aðferðir eins og geðrækt en fyrir þá sem þurfa meiri aðstoð er hægt að fá viðtöl í gegnum fjarbúnað á netinu auk þess sem hægt er að leita til heilsugæslunnar í sínu sveitarfélagi. „Það er í dag hægt að fá sálfræðiþjónustu á netinu. Mín líðan býður til dæmis upp á fjarviðtöl. Þar fer öll þjónustan fram á netinu. Við hjá Geðhjálp erum með sálfræðing sem býður upp á fjarviðtöl í gegnum öruggan búnað. Það er líka hægt að leita til heilsugæslunnar en í dag eru komin geðheilsuteymi í öllum landshlutum. Lykillinn er samt alltaf geðrækt, að sinna sér á hverjum degi og styrkja sig þannig þegar stærri verkefni lífsins berast manni,“ segir Grímur.

„Þunglyndi er ekki eitthvað sem maður rífur sig upp úr“

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á geðheilsu almennings og þau sem eru komin djúpt í vanlíðan og þurfa á aðstoð að halda strax geta leitað á bráðamóttöku geðsviðs eða til heilsugæslunnar. „Það er líka alltaf hægt að hringja til okkar og fá ráð eða fá viðtal, það getur þess vegna verið nafnlaust. Oft er bara gott að tala við einhvern og það er mikilvægt að fólk leiti sér aðstoðar þegar þess þarf,“ segir Grímur. „Við vissum það þegar Covid kom að veiran myndi hafa áhrif á geðheilsu fólks. Við erum ekki vön sóttkví, einangrun og að fá ekki að hitta fólkið okkar. Það sem skiptir mestu máli er að halda rútínu eins og hægt er og vera í tjáningu við fólk. Einangrun er aldrei góð og vindur oft upp á sig, veldur kvíða og vandinn bara vex. Það er mikilvægt að fólk reyni að vera virkt til að koma sér út úr þessum aðstæðum, en bara taka lítil skref í einu. Þunglyndi er hins vegar ekki eitthvað sem maður rífur sig upp úr,“ bætir hann við.

Umræðan að breytast

Aðspurður segir hann geðheilsu enn vera tabú umræðuefni en að það sé að breytast. „Það er skrýtið hvað við virðumst eiga erfitt með að tala um þetta. Það er t.d. vandamál hversu margir taka eigið líf á Íslandi og þetta er oft ungt fólk. Þetta snýst um geðheilsu og því miður hafa verið fordómar fyrir geðrænum vanda og fólk hefur í gegnum árin skammast sín fyrir að þurfa aðstoð. Sem betur fer er þetta að breytast og ungt fólk talar um að fara til sálfræðinga, geðlækna og annarra sem bjóða upp á viðtalsmeðferðir eins og ekkert sé sjálfsagðara,“ segir Grímur „Við þurfum líka að muna að við höfum öll geðheilsu sem þarf að huga að. Geðheilsa er ekki bara eitthvað sem á við um þá sem glíma við mikinn geðrænan vanda. Geðrænar áskoranir eru allskonar,“ segir Grímur.

G-vítamín dagatalið er hægt að kaupa á gvitamin.is og upplýsingar um hvert er hægt að leita og góð ráð til geðræktar má finna á heimasíðu Geðhjálpar, gedhjalp.is.