Gætum varúðar í aðdraganda jóla og áramóta

Nú fer í hönd tími óhefðbundinna skreytinga í aðdraganda jóla og áramóta. Um leið skapast aukin eldhætta, ekki síst ef kveikt er á kertum. Þá þarf að yfirfara eldvarnarbúnað, æfa flótta úr íbúðarhúsnæði og annað sem gerir okkur hæfari til að bregðast við ef eldur verður laus. Bjarni Kristinn Þorsteinsson slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð vill koma á framfæri til lesenda nokkrum heilræðum:

 • Reykskynjarar eru sjálfsögð og ódýr líftrygging. Skipta skal um reykskynjara á tíu ára fresti. Rafhlöður skal endurnýja ár hvert og gjarnan í byrjun desember eða oftar ef þörf er á.
 • Átt þú handslökkvitæki? Er það í lagi? Hvenær var það síðast yfirfarið?
 • Slökkvitæki á að vera á sýnilegum stað, ekki í felum inni í skáp.
 • Ofhlöðum ekki fjöltengi og gætum að gömlum og lélegum rafbúnaði.
 • Notum ávalt viðurkenndar rafvörur og fjöltengi með slökkvara og gaumljósi.
 • Eldvarnarteppi skal vera í hverju eldhúsi og á aðgengilegum og sýnilegum stað.
 • Gerum flóttaáætlun úr íbúinni vegna eldsvoða með öllum á heimilinu og æfum hana reglulega. Tvær greiðar flóttaleiðir úr hverri íbúð!
 • Gætum varúðar í umgengni við kertaljós og skreytingar, skiljum börn aldrei eftir eftirlitslaus nærri logandi kertum eða eldi.
 • Aðgætum íbúðir okkar áður en gengið er til hvílu, eða þær eru yfirgefnar að degi til. Athugum sérstaklega hvort nokkursstaðar logi á kerti eða skreytingum.
 • Logandi kertaljós séu aldrei höfð í gluggum vegna dragsúgs og lausra gardína!!
 • Dreifið sem mest raforkunotkun við matseld um jól og áramót. Það kemur í veg fyrir hugsanleg óþægindi vegna mikils álags á dreifikerfi rafmagns.
 • Ullar- eða leðurvettlingar á höndum og öryggisgleraugu á öll nef við meðferð flugelda um áramót.
 • Munum 112 Neyðarlína ef slys, veikindi eða eldsvoða ber að höndum.

 

Með góðri kveðju,

Bjarni K. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.