Frá undirritun samningsins í Borgarnesi síðastliðinn föstudag. F.v. Lilja Björg Ágústsdóttir, Haukur Valtýsson og Bragi Þór Svavarsson. Ljósm. umfi.is

Fimmtugir og eldri stefna á að skemmta sér í Borgarnesi

„Við viljum að sem flestir geti þátt í móti UMFÍ, ætlum að breikka aldursbilið og stefnum á fjölmennt Landsmót UMFÍ 50+ í júní,“ segir Bragi Þór Svavarsson, sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar. Hann skrifaði nýverið undir samning um mótið í Borgarnesi ásamt þeim Hauki Valtýssyni, formanni UMFÍ, og Lilju Björg Ágústsdóttur, settum sveitarstjóra Borgarbyggðar.

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Borgarnesi dagana 19.-21. júní. Mótið var fyrst haldið árið 2011 og laðar það að sér æ fleiri þátttakendur sem komnir eru um miðjan aldur og vilja taka þátt í skemmtilegum íþróttagreinum, hvort heldur í einmenningsíþróttum eða með fleirum í liði. Eins og áður verður boðið upp á greinar sem margir þekkja og hafa vakið heilmikla athygli, þar á meðal hinn klassíski pönnukökubakstur, stígvélakast, boccía og ringó. Til viðbótar verður bætt við knattspyrnu, hlaupagreinum, blaki og ýmsum fleiri spennandi greinum eins og pílukasti. Til viðbótar verður heilmikil afþreying í boði fyrir alla þátttakendur.

Mótið er hugsað fyrir þá sem verða fimmtugir á árinu og eldri. Hins vegar er nú gert ráð fyrir mun fleiri þátttakendum á ýmsum aldri. Bragi segir aldursbilið verða breiðara nú og boðið upp á opnar greinar fyrir yngri þátttakendur þannig að sem flestir geti tekið þátt í því. „Við viljum að sem flestir heimamenn geti tekið þátt, líka þeir sem eru ekki að verða fimmtugir. Allir geta treyst því að þetta verður skemmtilegt mót,“ sagði hann og lagði áherslu á að mikil reynsla sé fyrir mótahaldi í Borgarnesi og því stefni þar í frábært mót í júní.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði við undirritunina stefna í mjög skemmtilegt mót í Borgarnesi. Staðsetningin sé auk þess góð og aðstaðan með þeim betri á landinu. Lilja Björg Ágústsdóttir, settur sveitarstjóri Borgarbyggðar, tók undir með Braga og sagði mikla áherslu hafa verið lagða á að sem flestir í Borgarbyggð taki þátt í íþróttastarfi í sveitarfélaginu. „Þetta er gott innlegg í þá vinnu,“ sagði hún.