Ferðafélagar Guðgeirs á leiðinni á toppinn. Ljósm. vaks

Fór á hjóli 41 ferð upp og niður Akrafjall

Um síðustu áramót setti Guðgeir Guðmundsson á Akranesi sér það takmark að fara 41 sinni niður á hjóli frá öðrum hvorum toppnum á Akrafjalli, áður en hann yrði fertugur. Í allan vetur er hann búinn að hjóla upp og niður fjallið í sól, snjó, myrkri, þoku, rigningu, logni og hvassviðri enda allra veðra von á fjallinu. Mánudaginn 8. ágúst átti hann eftir tíu ferðir til að ná markmiðinu og hefur síðan þá farið frá mánudegi til miðvikudags eina til tvær ferðir á dag til að ná að ljúka við ferðirnar áður en hann yrði fertugur. Blaðamaður Skessuhorns var með í för í ferð númer 39 síðasta þriðjudag í fyrri ferð dagsins ásamt nokkrum vinum Guðgeirs upp á Háahnúk sem er um 550 metrar á hæð.

Guðgeir þarf að reiða hjólið sitt alla leið upp á topp og það er alls ekki auðvelt. Stundum þarf hann að halda á hjólinu sem er um 15 kíló í mesta klöngrinu og erfiðastur er fyrsti hluti ferðarinnar þar sem fyrsta brekkan er mjög brött. Gangan á þriðjudag gekk mjög vel í góðu veðri og var hópurinn kominn upp á topp fjallsins rúmlega klukkutíma eftir að gangan hófst. Blaðamaður fékk að prófa á leiðinni að reiða hjólið hjá félaga Guðgeirs til að hann fengi smá hvíld enda hann að fara í fyrsta skiptið og komst að því að það er alls ekki auðvelt að vera með hjól í eftirdragi, hvað þá alla leið upp á toppinn. En þetta tókst allt saman á endanum og skemmtileg kvöldstund með góðum hópi á þessu fallega kvöldi.

Guðgeir og félagi hans hjóluðu síðan á fullri ferð niður Akrafjallið og mættum við honum síðan aftur á leiðinni upp við rætur fjallsins og ekki bilbug á honum að finna. Hann lauk síðan takmarkinu daginn eftir og náði þar með sinni 41. ferð. Guðgeir verður fertugur næsta föstudag og fagnar því með fjölskyldu og vinum. Skessuhorn óskar honum hjartanlega til hamingju með afmælið og að ná langþráðu takmarki sínu með glæsibrag.