Félagsskapurinn er skemmtilegastur

Íþróttamaður vikunnar er nýlegur liður hjá Skessuhorni. Þar leggjum við fyrir tíu spurningar til íþróttamanna úr alls konar íþróttum á öllum aldri á Vesturlandi. Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni er körfuknattleiksmaðurinn Marinó Þór í Borgarnesi.

Nafn: Marinó Þór Pálmason

Fjölskylduhagir? Bý hjá foreldrum mínum ásamt þremur yngri systkinum.

Hver eru þín helstu áhugamál? Íþróttir og bíómyndir.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér um þessar mundir? Er að vinna alla daga til klukkan 15:30 í Öldunni. Svo kem ég heim að brasa eitthvað sniðugt í smá áður en ég fer að þjálfa og svo á æfingu. Eftir æfingu finnst mér svo gott að fara í heita pottinn áður en ég fer heim að hafa það huggulegt.

Hverjir eru þínir helstu kostir og gallar? Myndi segja að helstu kostirnir væru jákvæðni og iðjusemi á meðan gallinn er frestunarárátta.

Hversu oft æfir þú í viku? Fimm sinnum í viku og svo er oftast einn leikur líka.

Hver er þín fyrirmynd í íþróttum? Luka Doncic.

Af hverju valdir þú körfuknattleik? Pabbi minn spilaði og þjálfaði körfubolta þegar ég var yngri og það hefur ýtt mér í rétta átt.

Hver er fyndnastur af þeim sem þú þekkir? Samstarfsfélagar mínir í Öldunni.

Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við þína íþrótt? Skemmtilegast við íþróttina er félagsskapurinn á meðan það leiðinlegasta er að hita upp.