Er með gott þol

Íþróttamaður vikunnar er nýlegur liður hjá Skessuhorni. Þar leggjum við fyrir tíu spurningar til íþróttamanna úr alls konar íþróttum á öllum aldri á Vesturlandi. Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni er sundmaðurinn Enrique Snær frá Akranesi.

Nafn: Enrique Snær Llorens

Fjölskylduhagir? Móðir mín heitir Silvía Llorens og er í sambúð með Dean Martin. Faðir minn heitir Sigurður Kári, maki hans heitir Bjarney og ég á tvö systkini, þau heita Natalía og Anael Teitur.

Hver eru þín helstu áhugamál? Synda, fjallganga, skíða og hitta vini mína.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér um þessar mundir? Ég vakna um klukkan sjö og fer síðan á æfingu í svona einn og hálfan tíma. Síðan fer ég heim og borða, fer síðan í skólann og ég er þar oftast til klukkan fjögur. Eftir skóla fer ég heim, borða og læri til svona fimm og síðan er aftur æfing en hún er í tvo tíma. Eftir það fer ég heim að borða og sofa.

Hverjir eru þínir helstu kostir og gallar? Í sundi eru gallarnir mínir stungur og snúningar en kostirnir eru að ég er með gott þol og er fljótur.

Hversu oft æfir þú í viku? Ég æfi ellefu sinnum í viku.

Hver er þín fyrirmynd í íþróttum? Anton McKee.

Af hverju valdir þú sund? Út af því að mér fannst þetta skemtilegasta íþróttin.

Hver er fyndnastur af þeim sem þú þekkir? Það er hún Karen.

Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við þína íþrótt? Skemmtilegast er að æfa hana og það leiðinlegasta er að bíða eftir að þú ferð að keppa þegar þú ert á mótum.