Elín er nýr formaður Brákar. Ljósm. úr einkasafni.

Elín er fyrsti kvenformaður Brákar

Á aðalfundi björgunarsveitarinnar Brákar í Borgarnesi miðvikudaginn 27. maí lét Einar Örn Einarsson af starfi formanns eftir fjögur ár. Nýr formaður sveitarinnar var kosin Elín Matthildur Kristinsdóttir en hún hefur verið varaformaður sveitarinnar síðustu þrjú ár. Elín er fyrsti kvenformaður Brákar en það er einnig kona sem tekur við af Elínu sem varaformaður, Vigdís Ósk Viggósdóttir. Elín gekk í björgunarsveitina Brák fyrir rúmlega fimm árum en þar á undan hafði hún starfað með Rauða krossinum.

Góðar móttökur í Borgarnesi

Elín er fædd og uppalin í Reykjavík, nánar tiltekið í Efra Breiðholti. Hún lauk námi í Kennaraháskólanum og flutti þá í Stykkishólm þar sem hún bjó í 19 ár. Árið 2013 flutti hún búferlum til Borgarness þar sem hún fékk starf í Grunnskólanum í Borgarnesi þar sem hún er velferðarkennari „Ég kem í Borgarnes án þess að hafa í raun neinar tengingar hingað. Mér bara bauðst starf og ákvað að slá til og koma,“ segir Elín sem var á þessum tíma einstæð móðir með fjórar dætur. „Ég var fljót að koma mér inn í samfélagið og hef kynnst alveg gríðarlega góðu fólki hér. Fljótlega eftir að ég flutti gekk ég í Freyjukórinn og Rauða krossinn auk þess sem ég vinn á stórum vinnustað og þetta hjálpaði mér mikið að komast inn í samfélagið. Það var ofboðslega vel tekið á móti okkur í Borgarnesi og hér þykir okkur gott að vera,“ segir Elín.

Vildi ögra sjálfri sér

Aðspurð segist Elín ekki hafa búið yfir neinni reynslu eða þekkingu á björgunarsveitastörfum áður en hún skráði sig í Brák. „Ég ákvað bara að prófa þetta svona á gamals aldri,“ segir hún og hlær. „Eða ég var orðin rúmlega fertug þegar ég skráði mig. Mig hafði langað áður að prófa að vera í björgunarsveit en gaf mér ekki tíma til þess þegar stelpurnar mínar voru litlar. Svo bara kom að því að þær voru orðnar það stálpaðar að ég hafði meiri tíma fyrir eitthvað svona. Þetta snérist eiginlega svolítið um að ögra sjálfri mér og gera eitthvað alveg nýtt og björgunarsveitastarfið hafði alltaf heillað mig,“ segir Elín. „Mér var rosalega vel tekið þegar ég kom inn í hópinn. Þá var mikill meirihluti karlmenn hér en ég fann aldrei fyrir því að ég væri eitthvað með minna vægi hér því ég væri kona. En sífellt fleiri konur eru að bætast í hóp björgunarsveitarfólks,“ segir hún.

Eflandi að vera í björgunarsveit

Elín var að leitast eftir því að ögra sjálfri sér með að skrá sig í björgunarsveit og það er óhætt að hún hafi gert það strax í upphafi en hún byrjaði á að skrá sig á námskeið en hún hefur frá upphafi verið dugleg að sækja ýmis námskeið. „Á námskeiðinu þurfti ég að gera allskonar hluti sem mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi gera. Ég, svona lofthrædd eins og ég var, bjóst aldrei við að ég gæti farið að síga eða klifra. En á þessu námskeiði þurfti ég að gera það,“ segir hún og bætir við að hjartað hafi fengið að pumpa vel þessi fyrstu skipti sem hún lét sig vaða fram af brún. „Í dag er þetta eitt það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir hún og hlær. Bjögurnarsveitastarfið segir hún vera bæði skemmtilegt en ekki síður eflandi. „Ég hef lært ótrúlega margt og þetta hefur eflt mig og gert mig öruggari í ýmsum aðstæðum. Sem dæmi er ég ekki ratvís manneskja en ég er búin að læra á öll þessi tæki sem geta hjálpað og svo bara að lesa í landslagið til að rata. Það gerir mikið fyrir mann að finna að maður getur meira en maður hélt og ég held það hafi allir gott af því að starfa í björgunarsveit,“ segir hún.

Dugleg að svara kallinu

Aðspurð segist Elín stökkva af stað þegar kallið berst ef hún mögulega getur. „Vissulega eru aðstæður stundum þannig að maður kemst ekki en ef ég kemst þá stekk ég af stað,“ segir hún. „Það er líka ofboðslega gott að finna hvernig flestir vinnuveitendur eru skilningsríkir þegar kemur að útköllum. Þeir gefa alltaf leyfi til að stökkva frá ef á þarf að halda og hafa góðan skilning á þessu,“ segir Elín. Hún býr í dag með unnusta sínum Þór Þorsteinssyni sem einnig er virkur meðlimur í björgunarsveit. „Við erum reyndar ekki í sömu sveit. Hann er í Oki, hér í Borgarfirði. En það er líka mjög góð sveit og það er mikið samstarf á milli björgunarsveita hér í Borgarbyggð,“ segir Elín. Þór var fyrir rúmu ári kjörinn formaður Landsbjargar, en má þá segja að þau lifi björgunarsveitalífsstílnum? „Já, það er líklega óhætt að segja það,“ svarar Elín og hlær.