Eitt eilífðar smáblóm

Hjá mörgum skipa íþróttir veigamikinn sess í tilverunni. Ýmist sem beinir þátttakendur eða til stuðnings á ýmsan hátt. Fólk tekur til dæmis þátt í íþróttum barna sinna með því að styðja þau til þátttöku, hvetja, skutla eða leiðbeina. Allir vita að virk þátttaka þeirra í íþróttum er holl fyrir líkama og sál. Hefur fyrirbyggjandi áhrif og styrkir þau út í lífið.

Gildi íþrótta fyrir mannlegt samfélag og samkennd er oft vanmetið. Margir láta eins og þetta skipti engu máli, láta daglegt dægurþras taka yfir tímann og gleyma að njóta. Þessa dagana upplifum við sterkt hversu virk þátttaka í íþróttum hefur raunveruleg áhrif á allt samfélagið. Á vinnustöðum og skólum eru einfaldlega lögð niður störf til að fylgjast með í beinni útsendingu. Meira en hálf þjóðin fylgist af andakt og ánægju með félögunum í landsliðinu í handbolta gera frábæra hluti á EM í Svíþjóð. Við hrífumst með, hvetjum og sendum jákvæða strauma. Það hefur áhrif, strákarnir finna stuðninginn og gengur pínulítið betur fyrir vikið. Í höllinni úti upplifum við að aldrei hefur kröftugar verið tekið undir í íslenska þjóðsöngnum, þessu erfiða en fallega lagi. Þjóðsöngurinn sem oftast er nefndur Ó, Guð vors lands er í raun lofsöngur sem saminn var í tilefni þúsund ára Íslandsbyggðar árið 1874. Sálmurinn er eftir Matthías Jochumsson en lagið samdi Sveinbjörn Sveinbjörnssonar fyrir þjóðhátíð þetta herrans ár fyrir 152 árum síðan. Gamalt og gróið lag, býsna snúið í flutningi, og af þeim sökum hafa sumir viljað fórna því fyrir hvern annan Geirmundarslagara.

Einatt í byrjun árs veita íþróttafélög og héraðssambönd verðlaun fyrir góðan árangur íþróttafólks á liðnu ári. Ég hef reynt að fylgjast með slíkum viðburðum og greina frá í miðlun okkar. Það skiptir máli að heiðra þá sem gera vel, umbuna fyrir góða ástundun, árangur og þrautseigju. Færst hefur í vöxt að heiðra einnig þá sem koma að starfi íþróttafélaga með miklu og óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Fólkið sem einatt er mætt út á völl eða á sundlaugarbakkann til að blása í flautuna, sinna dómgæslu, hugga, hvetja eða annað sem fylgir því að standa fyrir íþróttaviðburðum. Það var því einkar ánægjulegt þegar forseti Íslands hafði Rósu Marinósdóttur á Hvanneyri í þeim hópi sem hlaut fálkaorðuna fyrir sjálfboðastörf í þágu íþróttaiðkunar ungs fólks um allt land og framlag til samfélagsmála í heimabyggð. Falleg umsögn enda vita þeir sem til þekkja að Rósa er engum lík. Fleiri sjálfboðaliðar hafa á þessu ári einnig verið heiðraðir. Nefni ég verðskuldaða viðurkenningu sem Þórdís Bjarney Guðmundsdóttir á Akranesi hlaut í byrjun árs sem sjálfboðaliði ársins hjá Íþróttabandalagi Akraness. Nú um helgina hlaut Sigríður Bjarnadóttir í Borgarnesi verðskuldað hvatningarverðlaun Ungmennasambands Borgarfjarðar. Allar hafa þessar konur lagt fram ómetanlegan skerf til eflingar íþróttum ungmenna. Sannir ungmennafélagar.

Ein var sú umsögn sem vakti athygli mína á sunnudaginn. Ungum íþróttamanni í UMSB var afhentur Auðunsbikarinn. Bikar sá er gefinn af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar sem lést í bílslysi aðeins 14 ára gamall árið 1995. Fjölskylda Auðuns hefur haldið minningu hans á lofti með að veita á hverju ári 14 ára unglingi viðurkenningu. Einstaklingi sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan. Steinar Orri Hermannsson í Reykholti hlaut þessa viðurkenningu og í umsögn kom fram að Steinar standi sig ekki einungis vel í íþróttum heldur er hann kurteis og jákvæður leiðtogi sem leggur sig alltaf allan fram, hvort heldur sem er innan eða utan vallar. Fallegri umsögn er ekki hægt að fá og slíku ber að halda á lofti. Kurteisi og jákvæðni eru nefnilega eiginleikar sem halda ber á lofti.

Að endingu vil ég árétta að íslenski þjóðsöngurinn er góður. Landsmönnum hefur vissulega verið tamt að tala hann niður og kallað eftir öðrum og auðveldari. Hættum því, verum stolt af honum, lærum textann, stöndum upp og tökum undir þannig að undir taki.

Áfram Ísland!

Magnús Magnússon