Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl. Nýja merki félagsins er í öllum regnbogans litum og undirstrikar það hversu fjölbreytt einhverfa er. En samtökin hafa í aprílmánuði undanfarin ár gert ýmislegt til að vekja athygli á málefnum barna á einhverfurófinu og er 2. apríl dagur einhverfunnar. Af því tilefni að apríl er að ganga í garð og dagur einhverfunnar er á laugardaginn heyrði blaðamaður Skessuhorns í Sigríði G Arnardóttur, sérkennara og deildarstjóra á starfsbraut við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði, og ræddi við hana um einhverfu.

Einhverfa er allskonar

Einhverfa er allskonar og mjög ólík milli einstaklinga. Hún kemur fram í skynjun þeirra sem eru einhverfir og getur haft áhrif á samskipti og félagsleg tengsl. En vegna þess að einhverfa er mjög margbreytileg er oftast talað um einhverfuróf. „Einhverfa og einhverfa er ekki það sama, þetta er rosalega breitt bil og fólk á einhverfurófinu getur verið mjög ólíkt. Við tölum gjarnan um einhverfu, ódæmigerða einhverfu, röskun á einhverfurófi og  aspergerheilkenni. Einhverfurófið er notað til að lýsa margbreytileika einstaklinganna.. En það eru samt ekki allir sem eru greindir með einhverfu með sömu einkenni. Þetta eru í raun mjög víð skilgreining á hugtökum og fólk með einhverfu er eins fjölbreytt og það er margt,“ útskýrir Sirrý.

Fagnar vitundavarkningu

Spurð um vitundavarkninguna í aprílmánuði segist Sirrý fagna því átaki þar sem mikilvægt sé að vekja athygli á einhverfu og fræða samfélagið. „Það er mjög mikilvægt að við fögnum fjölbreytileikanum og það á ekki bara við um einhverfu heldur allar þær vitundarvakningar sem í gangi eru eins og til dæmis Alþjóðlegur dagur Downs heilkennis þegar við klæðumst ósamstæðum sokkum,“ svarar hún. „Greiningum á rófinu hefur fjölgað síðustu ár og því er mikilvægt að kynna einhverfu fyrir samfélaginu því þetta er fólk sem tekur þátt í samfélaginu okkar og fer út á vinnumarkaðinn, hvort sem það er á almennan vinnumarkað eða í önnur úrræði. Samfélagið þarf að hafa skilning á fólki á rófinu og fjölbreytileika þeirra,“ segir Sirrý

Einstaklingsmiðað nám

Eins og segir hér að framan er Sirrý deildarstjóri starfsbrautar í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og hefur þar reynslu af því að vinna með einhverfum ungmennum. En hvernig er tekið á móti þessum hópi úr grunnskólanum? „Við byrjum alltaf á að heimsækja væntanlega nemendur okkar í grunnskólann og kynnumst krökkunum aðeins betur. Innritunarferlið á starfsbrautir er í janúar og eftir að því lýkur er væntanlegum nemendum frjálst að koma eins oft og þeir vilja til okkar að skoða aðstæður og fá svör við spurningum ef einhverjar eru. Með þessu auðveldum við yfirfærsluna úr grunnskólanum mikið. Við erum með einstaklingsmiðað nám og mætum hverjum og einum nemanda þar sem hann er staddur og byggjum námið hjá okkur upp þannig. Við reynum að styrkja veiku hliðarnar og líka að byggja ofan á styrkleikana en þetta eru krakkar með marga styrkleika,“ svarar Sirrý.

Leggja áherslu á stuðning

Spurð hvort nemendum á einhverfurófinu sem þó geti sinnt námi utan starfsbrautar sé einnig mætt með sama hætti svarar Sirrý því að svo sé. Hún segir það áherslu í skólanum að veita öllum stuðning sem þurfa. „Þetta eru nemendur sem eiga rétt á stuðningi þó þeir séu ekki á starfsbraut og þau fá að sjálfsögðu þann stuðning. Þau sem hafa færni til að stunda áfanga hjá öðrum kennurum, utan starfsbrautar, hafa líka oft gert það. Við höfum líka oft styrkt félagsfærni nemenda með því að fá leyfi frá kennurum til að nemendur okkar sitji inni í tímum með eigið námsefni. Þá eru nemendurnir þátttakendur í kennslustundum með sínum jafnöldum þó svo við á starfsbraut útvegum námsefnið, höfum umsjón með náminu og styðjum þau í því. Við erum svo heppin að vera með frábæra kennara sem hafa líka aðstoðað þessa nemendur við námið eins og aðra nemendur. Annars er allur gangur á þessu hjá okkur og við reynum að finna hvað hentar hverjum og einum og vinnum út frá því,“ segir Sirrý.

Hvetur fólk til að kynna sér einhverfu

Að lokum segir Sirrý mikilvægt að vakin sé athygli á því að einhverfa sé ekki eitthvað eitt og að samfélagið í heild þurfi að sýna fólki á rófinu skilning, hvort sem um er að ræða börn eða eldra fólk. „Við erum einfaldlega ekki öll steypt í sama mót og það þarf að bera virðingu fyrir mótum allra. Ég vil hvetja alla til að kynna sér hvað einhverfa er og að vera opið fyrir margbreytileika fólks. Sérstaklega vil ég hvetja fyrirtæki og stofnanir til að vera opið fyrir því að hafa einstaklinga með einhverfa í vinnu og kynna sér þá færni og hæfni sem þeir búa yfir. Þau sem eru á rófinu geta verið frábært starfsfólk enda eru þetta einstaklingar sem búa yfir mörgum hæfileikum,“ segir Sirrý að endingu.