Guðmundur og Lóa Katrín tíu ára dóttir hans.

„Ég finn að hjartað mitt á heima í Norðvesturkjördæmi“

Í lok síðasta mánaðar var kynntur til leiks oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi en það er Guðmundur Gunnarsson sem mun leiða listann í kjördæminu í kosningunum næsta haust. En uppstillingarnefnd Viðreisnar á enn eftir að kynna listann í heild sinni. Guðmundur þekkir kjördæmið vel, hann ólst upp í Bolungarvík en faðir hans er Siglfirðingur og mamma hans Ísfirðingu. Skessuhorn heldur áfram kynningum á væntanlegum frambjóðendum til kjörs í kosningunum í haust. Blaðamaður heyrði í Guðmundi og fékk að kynnast honum aðeins betur.

Tölum um að fara heim

Foreldrar Guðmundar voru bæði verkafólk í Bolungarvík. Oddný móðir hans var fiskverkakona en er í dag sest í helgan stein. Gunnar faðir hans var lengst af kaupmaður en hann sá einnig um sundlaugina í Bolungarvík um tíma. Guðmundur er giftur Kristjönu Millu Snorradóttur, mannauðsstjóra hjá Borgarleikhúsinu. Kristjana er iðjuþjálfi að mennt og starfaði áður hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Hún ólst að mest upp í Svíþjóð en bjó lengi á Akureyri og í Reykjavík. Kristjana á ættir að rekja í Dýrafjörð og á Ísafjörð, þar sem faðir hennar bjó og hún varði miklum tíma sem unglingur. „Við tölum bæði um að fara heim þegar við förum vestur,“ segir Guðmundur. Guðmundur á 19 ára son, Gunnar Sölva, úr fyrra sambandi en saman eiga þau Kristjana hana Lóu Katrínu tíu ára.

Sjálfboðastarf í Hondúras

Tvítugur fann Guðmundur fyrir ævintýraþrá og fór þá til Mið-Ameríku þar sem hann vann sem sjálfboðaliði í Hondúras í eitt og hálft ár og ferðaðist um með bakpoka. „Eftir að hafa búið alla tíð í Bolungarvík langaði mig að skoða heiminn og sjá eitthvað nýtt. Ég ætlaði upphaflega að fara út sem skiptinemi en gerði svo samkomulag við pabba um að klára stúdentspróf og fara svo eins langt og eins lengi og ég vildi. Þetta datt svo upp í hendurnar á mér. Það voru alþjóðleg sjálfboðaliðasamtök að leita að sjálfboðaliðum og mig langaði að læra spænsku og endaði því í Hondúras,“ segir Guðmundur. Sem sjálfboðaliði vann hann fyrir götubörn sem bjuggu við mjög slæmar aðstæður og mikla fátækt. „Þetta var mjög lærdómsríkur tími fyrir mig, án efa lærdómsríkasta árið mitt á námsferlinum. Þarna fékk ég blákaldan raunveruleikann í andlitið,“ segir Guðmundur.

Aðspurður segir hann menningarsjokkið hafa verið mikið þegar hann kom til Hondúras. „Allt sem maður hélt að væri sjálfsagt og eðlilegt var sett í alvöru samhengi fyrir mig þarna og ég sá allt í nýju ljósi. Það sem ég hafði áður litið á sem vandamál voru alls engin vandamál í raun og veru. Þarna horfði maður upp á fólk búa við ömurlegar aðstæður og hrylling,“ rifjar Guðmundur upp. Hann vann m.a. fyrir mannréttindasambönd sem berjast gegn barnaþrælkun en það er landlægur vandi á þessum slóðum. „Þetta er sérstaklega slæmt í Hondúras en þar eru t.d. fataverksmiðjur og melónuakrar sem þræla börnum í vinnu. Ég sem er ljós yfirlitum, hafði betri aðgang inn á þessa staði og vann því við að komast að því hvernig aðstæður voru á þessum vinnustöðum. Þar sá ég margt sem mun sitja í mér alla ævi. Þarna upplifði ég hvað grimmdin getur verið mikil á götunni, sérstaklega fyrir börn,“ segir Guðmundur.

Flutti til Spánar

Guðmundur stoppaði stutt heima á Íslandi eftir dvölina í Mið-Ameríku. Hann fann að ævintýraþráin var enn til staðar svo hann flutti til Spánar. Þar vann hann sem flugþjónn í tvö ár. „Ég sá auglýst eftir spænskumælandi Íslendingi í vinnu fyrir flugfélag sem flaug mikið yfir Atlantshaf. Ég var því mikið að þvælast í Brasilíu, Argentínu og á þeim slóðum,“ segir Guðmundur og bætir við að þetta hafi trúlega verið erfiðasta vinna sem hann hefur unnið. „En fríin voru góð og náðu að næra mína ævintýraþrá,“ segir hann og hlær. „Við vorum að stoppa í svona þrjá til fimm daga á hverjum stað svo ég fékk tækifæri til að kynnast landi og þjóð.“

Fjölmiðlafræðin

Skömmu eftir heimkomu frá Spáni sá hann auglýst nýtt nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og ákvað að skrá sig. „Það hafði alltaf blundað í mér þessi fjölmiðladraumur en ég var meðal þeirra fyrstu sem fóru í þetta nám. Við vorum sjö saman og þetta var alveg frábær tími,“ segir Guðmundur og bætir við að á síðasta árinu í HA, árið 2006, var honum boðin vinna við afleysingar hjá RÚV á Akureyri. „Ég var þá það sem hefur verið kallað lopapeysufréttamaður fyrir fréttastofur útvarps og sjónvarps. Þetta var mjög lædrómsríkt ár fyrir mig,“ segir Guðmundur. Ári seinna var honum boðið að koma til starfa hjá fréttastofu sjónvarps í Reykjavík og flutti þá suður.

Bæjarstjóri á Ísafirði

Guðmundur starfaði fyrir RÚV til ársins 2012 sem frétta- og dagskrárgerðamaður fyrir útvarp og sjónvarp og lauk samhliða því mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík. „Þá fór ég að vinna fyrir Sjóklæðagerðina, 66°Norður, þar sem ég stýrði alþjóðasviðinu hjá þeim í nokkur ár. Eftir það stýrði ég AFS skiptinemasamtökunum í fjögur ár,“ segir Guðmundur. Hann sá þá auglýst starf bæjarstjóra á Ísafirði og ákvað að sækja um. Guðmundur fékk starfið og flutti vestur á firði árið 2018. Nú í byrjun þessa árs var gert samkomulag um starfslok Guðmundar og lét hann af störfum hjá Ísafjarðarbæ og flutti til Reykjavíkur þar sem hann vinnur að ýmsum verkefnum fyrir sveitarfélög. Um þessar mundir er hann að vinna fyrir Reykjanesbæ að endurskipulagningu velferðarmála í tengslum við þjónustu til farsældar barna.

Hjartað slær fyrir Norðvesturkjördæmi

Spurður hvers vegna hann ákvað að fara í framboð fyrir Norðvesturkjördæmi svarar hann því að hjartað slái fyrir þann hluta landsins. „Ég er algjör landsbyggðartútta og ég finn að hjartað mitt á heima í Norðvesturkjördæmi,“ segir Guðmundur. „Ég tel mig hafa margt fram að færa og ég hef sterkar skoðanir á því sem þarf að gera til að móta og vinna að framgangi heimahaganna. Ég er mikill Vestfirðingur og dreg ekki dul á það þó kjördæmið sé stærra. En það er margt sem mig langar að standa fyrir og vinna með góðu fólki að í framfaramálum, bæði á Vestfjörðum og í kjördæminu öllu,“ segir Guðmundur.

Að eiga rödd við borðið

Spurður hver séu brýnustu málin í Norðvesturkjördæmi segir hann það vera að að jafna grunnþjónustu. „Ég lít svo á að stærsta réttlætismálið sem við stöndum frammi fyrir núna sé að jafna aðstöðu fólks óháð búsetu, jafna möguleikana til að velja búsetju, sjá sér farborða og stofna fjölskyldu. Við eigum öll að geta gert þessa hluti hvar sem við búum á landinu. Auðvitað verður alltaf munur á aðstöðu eftir búsetu, það eru kostir og gallar við alla staði en grunnþjónusta á að vera til staðar fyrir alla. Mín réttlætiskennd segir að þessi munur hafi verið of mikill of lengi og ég trúi því að einn af lykilþáttum þess að bæta þessa stöðu sé að landsvæðin eigi sér málsvara og rödd við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Við tölum ekki alltaf fallega um kjördæmapot en ég held að við þurfum að snúa því við, það þurfa allir hópar að eiga sína rödd og þar finn ég að ég hef eitthvað að gefa,“ segir Guðmundur. „Ég hef mikinn áhuga á byggðamálum almennt og hvernig samfélögin tikka, verða til og eflast,“ bætir hann við.

Fjölbreyttara atvinnulíf

Guðmundur segist vilja sjá aukna fjölbreytni og nýsköpun á landsbyggðinni svo minni þorp hafi fleiri en eina atvinnustoð. „Þegar atvinnustoðirnar eru fáar eru samfélögin veikburða og völt. Ég vil sjá okkur byggja upp fjölbreyttari atvinnu á landsbyggðinni þar sem við vinnum markvisst að því að efla atvinnuuppbyggingu,“ segir Guðmundur. „Síðustu áratugi hafa samfélög úti á landi mikið verið að reiða sig á eitt gullegg en við þurfum að setja eggin í fleiri körfur,“ bætir hann við. Þá segir hann samgöngumál vera ofarlega á lista yfir það sem þurfi að koma í lag í Norðvesturkjördæmi. „Það er eitthvað sem öll sveitarfélögin á þessu svæði eiga sammerkt. Við þurfum líka að horfa til þess að samgöngur eru ekki bara fyrir ferðaþjónustu, við megum ekki gleyma fólkinu sem býr og starfar á þessum svæðum. Það þarf líka að fara í heljarinnar uppbyggingu í samgöngumálum innan sveita. Það væri nú bara til að æra óstöðugan að telja upp allt sem þarf að bæta í samgöngum í kjördæminu. Þarna eru svæði sem hafa verið svelt í þessum efnum alltof lengi,“ segir Guðmundur.

Fjölmenningin styrkir samfélögin

Heilbrigðismálin segir Guðmundur einnig vera honum ofarlega í huga. „Við þurfum að gera framtíðarplan í heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Það hefur verið skorið niður lengi og er enn verið að skera niður. Það þarf að snúa þessu við,“ segir hann og bætir við að þetta sé bara lítið brot af því sem þurfi að gera til að bæta kjör íbúa á landsbyggðinni. „Grunnþjónusta er víða á landsbyggðinni mjög skert og það þarf að breytast. Það eru grunnstoðirnar sem ég vil fyrst og fremst verja minni orku í að berjast fyrir. Ég hef líka mikinn áhuga á fjölmenningarmálum og finnst við þurfa að setja meiri fókus á þau auðæfi sem felast í fjölmenningu. Fjölmenningin styrkir samfélögin en við þurfum líka að huga vel að fólkinu. Við þurfum að gæta þess hvernig skólakerfið tekur á móti fólki og hverngi þjónustu við bjóðum upp á fyrir fólk sem kemur annars staðar frá,“ segir Guðmundur.

Viðreisn samrýmist skoðunum hans

Aðspurður segist hann hafa valið að ganga til liðs við Viðreisn því málefni flokksins samrýmist því sem hann standi fyrir. „Hjá Viðreisn er rauði þráðurinn að almannahagsmunir trompi sérhagsmuni og allt sem við stöndum fyrir snýr að því að stuðla að réttlæti og jafnrétti. En ég hef líka sterkar skoðanir á að við þurfum að efla alþjóðasamstarf. Það skiptir ekki máli hvar þú átt heimili eða hvar þú byggir upp þína fjölskyldu, vaxtaumhverfi okkar og þessi örgjaldmiðill gerir okkur öllum þyngra að koma þaki yfir höfuðið og bítur jafn sárt hvort sem þú átt heima í Bolungarvík eða Garðabæ. Þetta þarf að breytast. Við þurfum að gera öllum kleift að eignast heimili,“ segir Guðmundur Gunnarsson oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.