Svavar Garðarsson við minningarstein um skriðuna og sumarblóm. Ljósm. Austurglugginn.

Dalamaður gróðursetti blóm í skriðufarið á Seyðisfirði

Sumarblóm lífga nú upp á farveginn sem stóra skriðan ruddi á Seyðisfirði í desember. Blómaunnandi úr Búðardal gerði sér ferð austur í síðustu viku til að gróðursetja í skriðufarið. Hann segir magnað að sjá hvernig skriðan hefur breyst síðustu mánuði. Í frétt Austurgluggans, héraðsfréttablaðs á Austurlandi segir: „Það var Svavar Garðarsson úr Búðardal sem kom til Seyðisfjarðar á miðvikudagskvöld á sendiferðabíl með um 200 sumarblóm meðferðis. Eftir að hafa skoðað svæðið hófst hann handa við að planta blómunum í farveg skriðunnar innan við Búðará. Ferð Svavars átti sér reyndar langan aðdraganda því hann hafði samband við sína sveitarstjórn strax 20. desember, tveimur dögum eftir stóru skriðuna,“ segir í frétt Austurgluggans.

„Ég fór þess á leit við Dalabyggð að skipuleggja ferð sjálfboðaliða hingað til að sá í skriðuna. Hugmyndin var þannig að sveitarfélögin öfluðu fjár fyrir fræjum, áburði og ferðakostnaði. Ég var að vona að undirtektirnar yrðu það góðar að hægt yrði að tilkynna þetta sem jólagjöf frá hinum endanum á landinu til Seyðisfjarðar, að við kæmum um sumarið til að sá í skriðuna,“ segir Svavar. Svar Dalabyggðar barst ekki fyrr en í janúar en það var jákvætt. Ekkert varð þó af ferð Vestlendinga fyrr en nú, þar sem heimamenn sáu sjálfir um að sá grasfræi í skriðuna snemma í sumar.

Óvenju mikið af fræjum

En hugmyndin var ekki dottin alveg upp fyrir. Svavar hefur árum saman ræktað sumarblóm og sett niður í Dalabyggð. Ræktunin hjá honum hefst snemma á árinu og segist hann hafa sett niður óvenju mikið af fræjum í ár með það bak við eyrað að ef vel tækist til myndi hann fara austur með það sem hann notaði ekki heima. Ræktunin lukkaðist vel því blóm uxu upp af nánast öllum fræjum. Þegar Svavar var búinn að setja út þau blóm sem hann ætlaði sér í Dölunum var tími kominn á austurferðina. Blómin sem hann fór með eru sumarblóm þannig og þótt einhver þeirra eigi að vera fjölær, samkvæmt upplýsingum á fræbréfunum, virðist það ekki virka í íslenskri veðráttu. Það veltur því á haustinu hversu lengi blómin dafna á Seyðisfirði. „Ég sá fyrir mér að þau myndu lengja sumarið fyrir Seyðfirðinga. Ef það tíðarfar sem hefur verið nú er komið til að vera þá set ég niður pálmatré hér næsta sumar,“ segir Svavar.

Einu sinni komið á Seyðisfjörð

Svavar, sem ólst upp í Reykhólasveit, á annars engin tengsl við Seyðisfjörð. Hann kveðst einu sinni hafa komið þangað áður, fyrir um 40 árum, en telur sig eiga nokkuð af skyldmennum í gegnum sameiginlega formóður af Héraði. Skriðuföllin snertu þó við honum eins og mörgum landsmönnum.

„Hér tapaðist heil götumynd sem bærinn var þekktur fyrir. Það voru ekki bara Seyðfirðingar sem töpuðu henni heldur við öll. Eftir skriðuna var spurning hvort við gætum ekki gert eitthvað fyrir Seyðisfjörð og Seyðfirðinga hvert og eitt. Ég gat alveg sett niður fleiri fræ. Við svona aðstæður langar marga að gera eitthvað en fá ekki hugmynd sem þeim finnst nothæf. En það er ýmislegt hægt. Til ferðarinnar þurfti ég sendiferðabíl sem ég átti ekki. Eigendur bílsins lánuðu mér hann án endurgjalds þegar þeir vissu hvað ég ætlaði að gera. Þannig gera þeir eitthvað fyrir staðinn.“

Búið að gjörbylta skriðunni

Svavar segir mikil viðbrigði að sjá skriðuna á Seyðisfirði nú, þegar grasið er farið að koma upp úr henni, samanborið við þær myndir sem landsmenn horfðu upp á í vetur. „Það var svakalegt að sjá þetta. En við undirbúning ferðarinnar skoðaði ég myndir til að sjá hvar ég gæti sett blómin. Þá sá ég þetta verk sem hér hefur verið unnið. Ég trúði því varla að þetta gæti gerst á svona stuttum tíma. Það er búið að gjörbylta skriðunni, það sér hana varla nokkur en í staðinn er komið þetta listaverk,“ segir hann.

En skriðan er þó kannski ekki besti staðurinn til gróðursetningar. „Mér hefur gengið hægt því það er svo mikið grjót í jarðveginum. Þá er maður lengi að gera holuna, þarf að fiska upp steina og hafa hana stóra til að geta sett gróðurmold í kringum hverja plöntu.“

Blóm gleðja

Sem fyrr segir hefur Svavar starfað lengi að fegrun umhverfis á sínum heimaslóðum og unnið þar mikið sjálfboðaliðastarf. Að hans hugmynd setti Dalabyggð á fót sjóð til styrktar sjálfboðaliðaverkefnum fyrir um áratug sem hann og fleiri hafa nýtt til að taka til hendinni. Blómin eru hans eftirlæti. „Það er gaman að setja niður fræ og sjá hvort eitthvað komi upp og þá hvernig það líti út. Blóm gleðja yfirleitt og þess vegna er þetta skemmtilegt,“ segir hann.

Svavar kveðst hafa fengið jákvæð viðbrögð við framtakinu á Seyðisfirði. „Þeir sem ég veit að eru héðan og hafa stoppað hjá mér til að tjá sig eru ánægðir. Hvað útlendingana varðar þá ákveð ég að þeir séu að tala fallega um blómin – því ég skil ekki orð,“ sagði Svavar.

Gunnar Gunnarsson ritstjóri Austurgluggans skráði og birti meðfylgjandi viðtal við Svavar í blaði sínu og sendi það jafnframt Skessuhorni, með kærri kveðju til Svavars frá Austfirðingum fyrir framtakið og hlýja strauma.