CrossFit stöð opnuð í Snæfellsbæ

CrossFit iðkun hefur vaxið hratt í landshlutanum undanfarið og nýverið var opnuð ný CrossFit stöð við Smiðjugötu 5 í Rifi. Nýja stöðin heitir CF Snb og það eru vinkonurnar Gestheiður Guðrún Sveinsdóttir og Kristfríður Rós Stefánsdóttir sem standa að opnun stöðvarinnar. Gestheiður og Kristfríður hafa báðar verið að æfa CrossFit hjá CrossFit Reykjavík og eru búnar að ljúka þjálfaranámskeiði í CrossFit. Evert Víglundsson, einn af eigendum CrossFit Reykjavík og upphafsmaður CrossFit á Íslandi kom nýlega í Rif og hélt fyrsta grunnnámskeiðið fyrir nýja iðkendur í Snæfellsbæ. Allir sem æfa CrossFit þurfa allir að ljúka grunnnámskeiðið til að ná tökum á grunntækni æfinganna áður en hægt er að mæta í æfingu dagsins.

„Við héldum fyrsta grunnnámskeiðið um síðust helgi og verðum með annað grunnnámskeið um næstu helgi. En stöðin er þó ekki alveg formlega opnuð en það er hægt að koma og taka æfingar,“ segir Gestheiður þegar Skessuhorn heyrði í henni fyrr í vikunni. Gestheiður útskrifast sem íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands í júní og Kristfríður stefnir á útskrift úr sama námi í lok árs. „Við erum báðar búnar að búa í Reykjavík síðustu ár og erum núna fluttar aftur vestur. Við ákváðum eiginlega að flytja heim aftur til að opna þessa stöð,“ segir Gestheiður. „Kærastar okkar beggja hafa verið að hjálpa okkur mikið við að undirbúa opnunina og þetta hefur allt gengið rosalega vel. Aðstaðan er mjög góð, við erum með tvo klefa með sturtum og ættum að geta tekið á móti 15-20 manns á hverja æfingu. Okkur var rosalega vel tekið og við bjuggumst alls ekki við svona góðum viðtökum og erum alveg í skýjunum yfir þessu öllu og hlökkum mikið til framhaldsins,“ segir hún að lokum.