Magnús Davíð Norðdahl er frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi. Ljósm. arg

„Byggðamál eru mannréttindamál“

Í lok marsmánaðar fór fram prófkjör Pírata í Norðvesturkjördæmi. Reglur flokksins í Norðvesturkjördæmi eru að yfir 100 manns þurfi að taka þátt svo niðurstaðan verði bindandi. Því lágmarki var ekki náð og var því öllum félagsmönnum Pírata á landsvísu boðið að taka þátt. Sigurvegari í kosningunni varð Magnús Davíð Norðdahl með 325 atkvæði. Gunnar Ingiberg Guðmundsson fékk 342 en hafnaði í öðru sæti því samkvæmt reglum Pírata lendir sá eða sú í fyrsta sæti sem er oftast kosinn fram fyrir aðra í röðinni. Því getur frambjóðandi fengið fleiri atvæði en aðrir en þó ekki náð fyrsta sætinu ef aðrir eru oftar teknir fram fyrir á heildina litið. Þriðji á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi er Pétur Óli Þorvaldsson með 299 atkvæði. En hver er Magnús Davíð Norðdahl? Blaðamaður Skessuhorns settist niður með honum og fékk svör við því.

Líður varla sú vika að leiðin liggi ekki í kjördæmið

Magnús er giftur Auði Kömmu Einarsdóttur og saman eiga þau tvö börn, Einar Svein sem er átta ára og Evu Sóllilju sem er fimm ára, og labrador hundinn Lísu sem er átta mánaða. Lísa á einmitt ættir að rekja í Norðvesturkjördæmi en hún kemur frá Kolkuósræktun á Akranesi. Auður er sálfræðingur að mennt og starfar sem atvinnuráðgjafi fyrir Hitt húsið á vegum Reykjavíkurborgar.

Magnús ólst upp í Kópavogi en er í dag búsettur í Reykjavík. Aðspurður segist hann eiga veruleg tengsl í Norðvesturkjördæmi. „Ég hef í gegnum árin mikið starfað í þessu kjördæmi. Ég var leiðsögumaður í sjö ár í uppsveitum Borgarfjarðar, en það er með fallegri svæðum sem ég hef komið á. Síðustu ár hef ég sem lögmaður mikið átt erindi í þetta kjördæmi. Ég hef verið að flytja mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi, Héraðsdómi Norðurlands vestra á Sauðárkróki og Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði. Það líður varla sú vika að ég eigi ekki leið í kjördæmið í tengslum við störf mín sem lögmaður,“ segir Magnús. Þá er amma hans í föðurætt fædd og uppalin á Hamri á Skálmarnesmúla á Barðaströnd og á Magnús þar lítinn hlut úr jörð sem fjölskyldan átti.

Lærði heimspeki

Á unglingsaldri flutti Magnús með foreldrum sínum til Danmerkur þar sem þau bjuggu í tvö ár. Þetta var að hans sögn mjög mótandi tími fyrir hann. „Þá fékk að ég kynnast því að ganga í skóla í öðru landi og að takast á við erfiðar áskoranir. Mér þótti mjög erfitt að flytja frá Íslandi á þessum tíma og fara til Danmerkur, ég vildi bara fara aftur heim. Þegar ég horfi til baka á þennan tíma og sé hlutina í öðru ljósi sé ég hversu gefandi og góður tími þetta var og ég er þakklátur að hafa fengið þessa upplifun á þessum tíma. Það mótaði mig mikið og ég held að börn hafi öll gott af því að vera sett í krefjandi aðstæður,“ segir Magnús.

Að grunnskólanámi loknu gekk hann í Menntaskóla Reykjavíkur þar sem hann lauk stúdentsprófi. Þaðan fór hann í Háskóla Íslands að læra heimspeki. „Í heimspekináminu fór ég eitt ár í skiptinám til Nýja Sjálands. Það var æðislegur tími og alveg yndislegt að búa þar, eitt af betri árum lífs míns myndi ég segja,“ segir Magnús. „Nýja Sjáland er eins langt frá Íslandi og hægt er að komast. Þetta er eyþjóð eins og við og mér þótti margt þar minna á Ísland. Þegar maður keyrir um Nýja Sjáland eru sum svæði sem minna mjög á Ísland í landslagi, oft leið mér bara eins og ég væri á heima. Það er þó ýmislegt sem Nýja Sjáland hefur til viðbótar eins og baðstrendur, regnskóg og meiri fjölbreytni í landslagi,“ segir Magnús.

Talaði ekki móðurmálið í marga mánuði

Á Nýja Sjálandi eignaðist Magnús góða vini frá öllum heimshornum. „Þetta var tvímælalaust ár sem víkkaði sjóndeildarhringinn minn mjög og gaf mér aðra sýn; bæði á mig sjálfan og Ísland,“ segir Magnús og rifjar upp að á þessum tíma voru ekki þau samskiptaforrit sem við höfum í dag og liðu því oft margir mánuðir á milli þess sem hann heyrði í fólkinu sínu heima á Íslandi. „Maður var bara með símkort sem kostaði mjög mikið að nota svo maður var ekki oft að hringja heim. Það leið því oft langur tími sem maður mælti ekki orð á íslensku. Maður talaði því bara ensku þennan tíma og það er sérstakt að tala ekki móðurmál sitt í marga mánuði í einu. Það varð þó fljótt eðlislægt að tala annað tungumál,“ segir hann.

Fór í kennslu

Efti námið snéri Magnús sér að kennslu þar sem hann kenndi í fjögur ár við grunnskóla í Kópavogi sem þá hét Hjallaskóli en heitir í dag Álfhólsskóli. „Það var bæði gaman og gefandi að kenna og það hafa að mínu mati allir gott af því að prófa þetta starf einhvern tímann á lífsleiðinni ef fólk hefur tök á því,“ segir Magnús. Eftir að hafa kennt í fjögur ár ákvað hann að setjast aftur á skólabekk og nam þá lögfræði. „Mig langaði að geta sinnt fjölbreyttari störfum og hafa möguleika á að starfa sjálfstætt. Ég taldi lögmennskuna geta verið lykilinn að því,“ segir hann. Magnús lauk námi 2013 og fór strax að starfa sjálfstætt og hefur gert það síðan. Hann fókusar fyrst og fremst á mannréttindamál og þá sérstaklega málefni hælisleitenda. Magnús var til að mynda lögmaður egypsku Kehdr fjölskyldunnar sem fékk hæli hér á landi síðastliðið haust, en þeirra mál kom oft fyrir í fjölmiðlum á síðasta ári.

Aðspurður segir hann taka því mjög alvarlega að berjast fyrir mannréttindum og að það sé einmitt af þeirri ástæðu sem hann býður sig nú fram til þingsetu. „Byggðarmál eru mannréttindamál. Fólk á að hafa sama rétt til heilbrigðisþjónustu og menntunar óháð búsetu í landinu. Ég tel minn bakgrunn úr mannréttindabaráttu geta nýst vel í byggðapólitíkinni og þess vegna býð ég mig fram í Norðvesturkjördæmi,“ segir Magnús.

Þingmaður er í þjónustuhlutverki

„Ég held að þegar fólk velji sér þingmann fyrir sitt kjördæmi eigi spurningin fyrst og síðast að vera hver sé heppilegur til að sinna þeirri hagsmunagæslu vel. Þar tel ég mig hafa ýmislegt fram að færa. Ég er reiðubúinn að bjóða fram mína krafta og baráttuvilja til að vinna að hagsmunum Norðvesturkjördæmis, en alltaf út frá áherslum íbúanna sjálfra. Mín sýn er sú að þingmaður er fyrst og síðast í þjónustuhlutverki, hann er fyrst og fremst að þjónusta íbúa þess kjördæmis sem hann er þingmaður fyrir og svo auðvitað íbúa landsins alls,“ segir Magnús og brosir. „Í þjónustunni felst að hlusta á íbúa því lausnirnar búa í heimabyggð. Það er ekki hlutverk þingmanna að vaða úr einu byggðarlagi í annað og kynna lausnirnar á silfurfati. Það eru íbúarnir sem vita hvaða mál ættu að vera í forgangi og hvaða lausnir henta best,“ heldur Magnús áfram.

Áherslumál

En hver eru hans áherslumál frambjóðandans? „Þess ber að geta að Norðvesturkjördæmi er stórt, byggðakjarnar eru margir og hagsmunamálin ólík. Íbúar á Vestfjörðum hafa talað um afhendingaröryggi raforku og sjávarútvegsmál sem stór áherslumál, svo eitthvað sé nefnt. En heilt yfir heyri ég fólk fyrst og fremst tala um um uppbyggingu innviða, samgöngumál, tekjustofna sveitarfélaga og öfluga grunnþjónustu. Rétturinn til grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntunar, þarf að vera til staðar fyrir alla óháð búsetu í landinu. Þá eru tækifæri til atvinnusköpunar mikilvægur partur af byggð á landsbyggðinni, þar sem til verða góð og vel launuð störf sem endast til framtíðar. Til að þetta geti orðið þarf öflug grunnþjónusta að vera til staðar,“ svarar Magnús og bætir við að fyrir kjördæmið í heild séu samgöngumálin stórt baráttumál. „Það er búið að breikka Suðurlandsveg og Reykjanesbraut en það er ekki búið að breikka Vesturlandsveg og það er afar bagalegt. Þegar ákvarðanir eru teknar um samgöngumál hljóta þau sjónarmið að bjarga mannslífum að vega þungt. Ef við skoðum tölfræðina um alvarleg umferðaslys verða þau flest á þessum stofnæðum frá höfuðborgarsvæðinu. Með því að breikka Vesturlandsveg höfum við bæði stytt umferðartímann inn og út úr kjördæminu og aukið öryggi á veginum. Það fækkar slysum og bjargar mannslífum,“ segir Magnús og bætir við að hann vilji sjá Vesturlandsveg breikkaðan alveg upp í Borgarnes. Þetta sé hins vegar einungis ein af mörgum nauðsynlegum og löngu tímabærum framkvæmdum í samgöngumálum í kjördæminu.

Byggja ákvarðanir á þekkingu og gögnum

Magnús segir Pírata vilja auka tekjustofna sveitarfélaga m.a. með því að virðisaukaskattur sem greiddur sé á ákveðnu svæði verði eftir á því svæði, hjá sveitarfélaginu. „En til að bæta þjónustu legga Píratar fyrst og fremst áherslu á að ákvarðanir séu alltaf byggðar á þekkingu og gögnum sem tiltæk eru á hverjum tíma. Í aðdraganda kosninga sér maður oft frambjóðendur æða úr einu byggðalagi í annað og lofa peningum í hitt og þetta. En það verður að nýta peninga með skynsömum hætti og það þarf að gera að vel skoðuðu máli. Fjármunir sem nýttir eru í verkefni þar sem ekki liggur fyrir greining á fýsileika verkefnisins og svo reynist verkefnið ekki nógu gott, þá eru önnur verkefni sem líða fyrir það. Við vitum nefnilega að það er ekki hægt að framkvæma allt og þess vegna er mikilvægast að velja alltaf bestu verkefnin á grundvelli þeirrar þekkingar og gagna sem liggja fyrir á þeim tíma. Þannig tryggjum við að peningarnir nýtist með sem bestum hætti. Með þessari nálgun byggjum við upp góða grunnþjónustu og atvinnutækifæri til framtíðar,“ segir Magnús og bætir við að sjávarútvegsmál séu Pírötum einnig hugleikin. „Það er okkar vilji að auka rétt smærri útgerða til sjósóknar, gera þeim auðveldara að sækja sjóinn,“ segir Magnús.

Telur kraftana geta nýst

Að lokum spyr blaðamaður Magnús hvers vegna íbúar í Norðvesturkjördæmi ættu að kjósa Pírata? „Sérstaða Pírata felst í að vera frjálslynt, félagshyggjusinnað og and-popúlískt umbótaafl í íslensku samfélagi. Þetta er opinn flokkur og ólík sjónarmið rúmast í honum. Flokkurinn er opinn fyrir nýjum hugmyndum og nýju fólki þar sem virðing er borin fyrir ólíkum sjónarmiðum. En ég persónulega er þannig í eðli mínu að ég tek alvarlega þau verkefni sem ég tek að mér. Ég tel mína krafta geta nýst Norðvesturkjördæmi vel. Eins og ég segi eru byggðamál mannréttindamál og þau eru mér persónulega hjartans mál. Ég kem úr því umhverfi að berjast fyrir réttindum annarra sem lögmaður og ég hef náð góðum árangri. Ég er sterkur á þessu sviði og veit að mínir kraftar geta nýst vel á þingi. Ég vil hlusta á fólk og hlakka mikið til að heyra hvað fólk í Norðvesturkjördæmi hefur að segja. Þeir stjórnmálaflokkar, sem hafa haft meirihluta í Norðvesturkjördæmi á síðustu árum, hafa fengið sitt tækifæri og nú er komið að öðrum að leiða nauðsynlegar og löngu tímabærar umbætur í kjördæminu,“ segir Magnús Davíð Norðdahl frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi.