Þorvaldur Hjaltason verkefnastjóri málefna flóttamanna hjá Borgarbyggð. Ljósm. sþ

Barnafólkið sérstaklega ánægt á Bifröst

Þorvaldur Hjaltason er annar tveggja verkefnastjóra í málefnum flóttamanna hjá Borgarbyggð. Blaðamaður spjallaði við hann í síðustu viku þegar börnum og fullorðnu flóttafólki á Bifröst voru afhent reiðhjól. Þorvaldur sem hefur sjálfur búið á Bifröst og alið þar upp barn og segist þekkja umhverfið vel. Hann upplifir mikið þakklæti og ánægju frá úkraínska fólkinu sem hefur komið á staðinn.

,,Ég er sjúkraflutningamaður og verkefnastjóri alls varðandi heilbrigðisþjónustu og húsnæðismál. Heiðrún Helga Bjarnadóttir er svo verkefnastýra yfir öllu verkefninu,“ segir Þorvaldur. Spurður út í stöðu verkefnisins nú segir hann nýja hópa ennþá koma vikulega. ,,Hluti hópsins fer frá okkur í önnur varanlegri úrræði eða fær vinnu með húsnæði annars staðar á landinu í hverri viku og nýr hópur kemur inn í staðinn. Ég var akkúrat að taka á móti nýjum hópi hérna áðan. Það er yfirleitt alltaf að nýir hópar koma á þriðjudögum þegar fjölmenningarsetur í Reykjavík hefur parað fólk við Bifröst og boðið því að koma hingað, svo fer restin af vikunni í að kynnast nýju fólki og kveðja þá sem eru að fara annað og aðstoða þá með ferðir og skipulag. Frá okkur hefur fólk verið að fara um allt land eins og til dæmis á Akranes, Keflavík, Súðavík, Reyðarfjörð, Akureyri og Reykjavík.“

Blaðamaður forvitnast um skipulag verkefnisins og eftir hvaða leiðum fólkið komi á Bifröst. „Bara fyrsti hópurinn okkar kom beint frá flugvellinum, en við endurtökum ekki þá móttöku. Fólk fer ávallt fyrst annað hvort til Keflavíkur eða Reykjavíkur í heilbrigðisskoðun, berklapróf, ferli hjá Útlendingastofnun og kennitöluskráningu. Þannig að það eru allir búnir að vera í nokkra daga og upp í tvær vikur á landinu áður en þeir fara hingað upp eftir. Það er aldrei neinn sendur hvorki hingað eða í önnur úrræði, öllum er boðið að koma og fólk velur á endanum sjálft hvort það kemur. Fólkið fær að vita hvaða úrræði eru í boði á viðkomandi stað og öllum er alltaf frjálst að neita.“

Bifröst er ekki eina svona úrræðið sem flóttafólki býðst. ,,Það er hótel í Reykjavík þar sem svona úrræði er rekið og svo er einnig á Ásbrú í Keflavík. Við bjóðum kannski upp á örlítið meira utanumhald, en hjá okkur fær fólkið, meðan á 12 vikna úrræðinu stendur, húsnæði og fullt fæði í samstarfi við Hreðavatnsskála. „Það má eiginlega líkja þessu við hótelstarfsemi að einhverju leyti; fólk kemur inn, fólk fer út og svo endurtökum við þetta í næstu viku.

Ég veit ekki til þess að önnur úrræði séu með sömu uppbyggingu og við, en skilst að verið sé að skoða að setja upp svipaða miðstöð á Eiðum fyrir austan og þá jafnvel að flogið yrði að hluta til beint þangað, en þetta er allt í vinnslu.“

Velvilji hvarvetna

Þorvaldur segir mikla vinnu að baki en góð vikuleg rútína hjá teyminu gangi nú vel. ,,Á þriðjudaginn síðasta voru átta vikur síðan fyrsti hópur kom til okkar en okkur finnst við búin að vera hérna í tvö ár. Hjá okkur er fólk sem kom með fyrsta hópi og hefur óskað eftir fastri búsetu hér á Bifröst, barnafólk. En einnig einstaklingar og svo jafnvel stórfjölskyldur eins og t.d. eldri hjón sem komu með tvær dætur sínar og tvö barnabörn en dætur þeirra eru báðar farnar að vinna í Hreðavatnsskála. Þau sem hafa komið hingað eru almennt rosalega sátt og þá sérstaklega barnafólkið. Grunnskólinn á Varmalandi tók frá fyrstu stundu rosalega vel á móti krökkunum, raunar eins og þau höfðu alltaf verið þar í skóla. Leikskólinn á Bifröst var í starfsmannavanda til að byrja með en það leystist meðal annars með því að ein úkraínsk kona fór að vinna þar en hún hafði talsverða reynslu af slíkum störfum í Úkraínu. Þangað er núna komið eitt úkraínskt barn og fleiri komast inn fljótlega. Við finnum fyrir gríðarlegum velvilja alls staðar í sveitarfélaginu og allir hafa lagst á eitt um að reyna að bæta aðstæður fólksins og ótrúlega margir boðið fram ýmiss konar aðstoð í sjálfboðavinnu,“ segir Þorvaldur um stöðu verkefnisins.