Valgarður í bæjarþingsal Akraneskaupstaðar. Ljósm. frg.

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Sigurvegari kosninganna er Valgarður Lyngdal Jónsson, grunnskólakennari og oddviti Samfylkingarinnar á Akranesi og forseti bæjarstjórnar. Hann hlaut 51 atkvæði af 94, en Gunnar Tryggvason varð næstur með 26 atkvæði. Jónína Björg Magnúsdóttir á Akranesi var sjálfkjörin í 2. sætið þar sem hún var eina konan í hópi frambjóðenda. Í þriðja sæti varð Sigurður Orri Kristjánsson. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Valgarði og fræddist um manninn.

Valgarður er fæddur á Akranesi 1972 og uppalinn á Eystra-Miðfelli í Hvalfjarðarsveit þar sem foreldrar hans, Heiðrún Sveinbjörnsdóttir og Jón Valgarðsson, bjuggu félagsbúi með bróður Jóns, Þorvaldi Valgarðssyni. Hann er kvæntur Írisi Guðrúnu Sigurðardóttur, aðstoðarleikskólastjóra á leikskólanum Teigaseli og eiga þau þrjú börn, þau Hlín Guðnýju, Jón Hjörvar og Hrafnkel Vála og á síðasta ári bættist við dóttursonurinn Jón Tinni. Valgarður gekk í Heiðarskóla í Leirársveit og síðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands. „Ég tók eitt ár í trésmíði en fór síðan í bóknám og kláraði stúdentinn.“ Síðan lá leiðin í Kennaraháskólann, sem þá hét, þaðan sem Valgarður lauk kennaraprófi árið 1996. Að kennaranáminu loknu flutti Valgarður með fjölskyldunni vestur á Patreksfjörð þar sem hann starfaði sem grunnskólakennari. „Dóttir okkar sem er fædd 1994 var tveggja ára þegar við fluttum vestur,“ segir Valgarður. „Ég var svolítið á skjön við flest skólasystkini mín. Ég hafði áhuga á því að prófa að búa einhversstaðar á landsbyggðinni á meðan margir í kringum mig höfðu áhuga á að flytja jafnvel til útlanda og búa þar. Ég er bara svona mikill sveitamaður, þarf að sjá til fjalla til að líða eins og ég sé heima hjá mér.“

Eftir að hafa starfað í eitt ár sem kennari bauðst Valgarði staða aðstoðarskólastjóra á Patreksfirði en þá var hann einungis 25 ára. „Staðan var auglýst en enginn sótti um. Ég var því eiginlega beðinn um að taka við starfinu. Það var mikil áskorun enda var ég mjög ungur og bara búinn að kenna í eitt ár,“ segir Valgarður. „Á Patreksfirði bjuggu á þessum tíma um 900 manns og skólinn því af þægilegri stærð til þess að takast á við þetta verkefni. Í smærri skólum er oft meiri nánd og verkefnin öðruvísi en í stærri skólum. Þetta var gríðarlega mikil og dýrmæt reynsla sem hefur nýst mér vel.“

Alltaf haft áhuga á pólitík

Aðspurður um hvenær áhuginn hafi fyrst vaknað á pólitík segir Valgarður: „Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík. Spáði meðal annars í pólitík strax í framhaldsskóla og þá var það meðal annars umræðan um alþjóðasamvinnu sem vakti áhugann, þegar Ísland var að ganga í EES. Það er á Patreksfirði sem ég fer aðeins að taka þátt í pólitík. Vinur minn og samstarfsmaður, Guðbrandur Stígur Ágústsson, fór í framboð til sveitarstjórnar og var svo á lista Samfylkingarinnar í þingkosningum 1999 og ég var svona að aðstoða hann og fæ þá smá innsýn í stjórnmálin.“

Eftir þriggja ára dvöl á Patreksfirði flutti fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem Valgarður kenndi í eitt ár við Árbæjarskóla. Að því loknu tók fjölskyldan sig aftur upp og flutti á Flúðir í Hrunamannahreppi þar sem Valgarður hafði sótt um og fengið starf aðstoðarskólastjóra. „Það var gríðarlega gott að búa á Flúðum. Fallegur staður og gott samfélag. Skemmtilegt sambland af vaxandi landbúnaðarhéraði og þéttbýlismyndun. Maður hafði tilfinningu fyrir því að þar væri hugur í fólki, mikill vöxtur og bjartsýni og þarna var mikið um það að ungt fólk væri að taka við búrekstri, byggja hann upp og nútímavæða.“

Árið 2003 flytur fjölskyldan á Akranes þar sem Valgarður tekur við stöðu deildarstjóra á unglingastigi í Brekkubæjarskóla. „Við tókum ákvörðun um að koma heim á Akranes. Konan mín er fædd og uppalin hér og héðan er stutt í sveitina til foreldra minna, þannig að við höfðum alltaf haft það svolítið á bak við eyrað að hér myndum við enda.“

Tók á móti forseta Maldive eyja

Árið 2008 ákveður Valgarður að breyta til og hefur störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hann sinnti upplýsinga- og fræðslumálum. „Það var mjög skemmtilegt. Það var holl tilbreyting fyrir mig að koma inn á svona allt öðruvísi vinnustað heldur en skólar eru. Þetta var gjörólíkt því umhverfi sem ég átti að venjast,“ segir Valgarður. „Ég kom úr tiltölulega flötu skipulagi þar sem ekki var mikið verið að spá í hver væri yfir hverjum og ekki mikið titlatog. Í þeim skólum sem ég hef starfað í hefur verið lagt mikið upp úr því að leita samráðs og að fólkið eigi hugmyndirnar saman. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur, OR var hins vegar mjög skýrt skipulag. Þar var alltaf á hreinu hver var yfirmaður hvers og það var líka nauðsynlegt að vita það upp á ábyrgð á ýmsum hlutum. Þessi þrepaskipting var svolítið ný fyrir mér.“

Valgarður segir að starfið hjá OR hafi verið mjög áhugavert og lærdómsríkt. „Ég hafði starfsstöð í Hellisheiðarvirkjun og þangað komu ýmsir „höfðingjar“, kínverskar sendinefndir og þá kom forseti Maldive eyja í heimsókn einn daginn,“ rifjar Valgarður upp. „Orkuveitan lagði sig mikið fram við að kynna nýtingu jarðvarma, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Svo skellur hrunið á og OR fór ekki vel út úr því.“ Staða fyrirtækisins var afar þröng og allt sem var „óþarfi“ var skorið burt og lagt niður. Þar á meðal var sviðið sem Valgarður starfaði á. Hann stóð því uppi atvinnulaus en það varði ekki lengi. Einum og hálfum degi eftir uppsögnina hringdi Hrönn Ríkharðsdóttir, skólastjóri Grundaskóla á Akranesi, í Valgarð og bauð honum starf við skólann og þar hefur Valgarður unnið síðan.

Flokkar af sama meiði

Valgarður hefur um árabil tekið þátt í starfi Samfylkingarinnar og tók nýlega sæti í framkvæmdastjórn flokksins en hún heldur utan um allt flokksstarfið á landsvísu. „Ég er mikill jafnaðarmaður þó ég sé kominn af framsóknarmönnum langt aftur, og félagshyggjumaður þó ég sé alinn upp í sveit. Ég vil miklu frekar segja að ég sé kominn af félagshyggjufólki heldur en framsóknarfólki. Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkurinn, og þar með Samfylkingin, eiga náttúrulega sameiginlegan uppruna. Báðir eru stofnaðir sem félagshyggjuflokkar, annar gagngert fyrir dreifbýlið og hinn gagngert fyrir þéttbýlið. Enda var það hugmynd Jónasar frá Hriflu sem stofnaði báða flokkana að Framsókn væri í sveitinni og Alþýðuflokkurinn í þéttbýlinu en síðan myndu þeir starfa saman, eins og Samfylkingin og Framsókn starfa nú saman í meirihluta í bæjarstjórn Akraness með góðum árangri.

Ég læri til kennara og gerist opinber starfsmaður og launþegi og finn það út frá sjálfum mér og minni stöðu að ég sem jafnaðarmaður eigi samleið með Samfylkingunni. Það horfir hver á heiminn frá sínum túngarði. Ég er mikill félagshyggjumaður í hjarta mínu og eftir því sem ég verð eldri, þá verð ég sannfærðari í jafnaðarmennskunni. Við viljum hafa ákveðin öryggisnet í samfélaginu, sem grípa fólk þegar á þarf að halda. Við viljum að þegar við eignumst börn, þá sé það ekki íþyngjandi fjárhagslega og við viljum að börnin komist í góða skóla og fái tækifæri til að afla sér góðrar menntunar. Við viljum að við njótum öflugs heilbrigðiskerfis ef eitthvað kemur upp á og við viljum njóta öryggis þegar að kvöldi er komið á ævinni. Og ekki síst viljum við halda uppi öflugu atvinnulífi, því þegar upp er staðið þá er það verðmætasköpunin í atvinnulífinu sem fjármagnar hið opinbera.“

Forseti bæjarstjórnar Akraness

Valgarður er forseti bæjarstjórnar Akraness og aðspurður um hvað sé efst á baugi á þeim vettvangi svarar hann: „Ég er bara mjög ánægður með það hvernig Akraneskaupstaður hefur náð að vaxa og þróast á síðustu árum og hefur náð vopnum sínum eftir efnahagshrunið. Það tók tíma fyrir sveitarfélög að reisa sig við og komast af stað eftir það. Ég er á því að Akraneskaupstaður hafi staðið sig virkilega vel í þessum efnum. Það er óvíða jafnmikil gróska og hér og hún sýnir sig bæði í þessari almennu uppbyggingu og í því hvernig bæjarfélagið hefur getað farið í stóraukna uppbyggingu á innviðum og þjónustu. Við höfum að mínu mati tekið mjög skynsamlegar ákvarðanir í þessum efnum, aldrei farið fram úr sjálfum okkur en algerlega haldið dampi.“

Það er ýmislegt að gerast á Akranesi. „Nefna má til dæmis vistvæna iðngarða í Flóahverfi sem er frábær hugmynd í alla staði og Þróunarsetrið á Breið sem er „concept“ sem við getum verið gríðarlega stolt af vegna þess að það er bara svo myndarlega staðið að þessu. Það þarf ekki að horfa lengi á Þróunarsetrið til þess að átta sig á að þetta er ekkert hálfkák heldur alvöru, „we mean business.“ Einnig er ég afar ánægður með þá uppbyggingu sem hér hefur orðið og stendur enn yfir, á fjölbreyttu leiguhúsnæði sem rekið er af óhagnaðardrifnum leigufélögum og kemur til með að tryggja bæði einstaklingum og fjölskyldum öruggt húsnæði fyrir sanngjarna leigu. Það þarf að auka fjölbreytnina á íslenskum húsnæðismarkaði almennt og mér finnst Akraneskaupstaður algerlega hafa lagt sitt af mörkum í þeim málum.“

Áherslan er á jafnaðarstefnuna

Valgarður er spurður að því hvar áherslur hans liggi í pólitík. „Áherslurnar mínar liggja fyrst og fremst í jafnaðarstefnunni. Fyrir mér er jafnaðarstefnan velferðarstefna en hún er líka atvinnustefna, samgöngustefna, umhverfisstefna og jafnaðarstefnan gengur alltaf út á það að allir eigi jafnan rétt og jafna möguleika og jafnt aðgengi að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur upp á að bjóða. Þannig eru til dæmis samgöngumál og aðgangur að orku og fjarskiptum hreint og klárt jafnaðarmál, að allir sitji við sama borð hvað þessa hluti varðar hvar sem þeir velja sér að búa.

Norðvesturkjördæmi er risastórt og víðfeðmt kjördæmi og ofboðslega fjölbreytt og ekki bara í landslagi eða landfræðilegum skilningi heldur er atvinnulífið til að mynda gríðarlega fjölbreytt. Við erum með iðnaðinn hérna á Grundartanga, við erum með útgerð úti á Nesi, fyrir vestan og fyrir norðan, vaxtarsprotann í fiskeldinu, myndarleg landbúnaðarhéruð, fjölbreytta ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja. Ég er sannfærður um það að ef stjórnvöld héldu myndarlega á málum væri hægt að gera frábæra hluti á Grundartanga varðandi það að fanga koltvísýring og farga. Þá værum við með stóriðjufyrirtæki sem nýta græna raforku og væru jafnframt að draga mikið úr kolefnislosun. Með þessu værum við komin með grænustu stóriðju í heimi með minnsta umhverfisspor sem um getur. Ekki viljum við missa þennan iðnað til Kína eða eitthvað annað þar sem raforka er unnin úr kolum,“ segir Valgarður að endingu.