„Alltaf blundað í mér löngun til að skrifa“

„Það hefur alltaf blundað í mér löngun til þess að skrifa. Ég gekk nokkuð lengi með hugmyndina að þessari bók. Ég hófst handa fyrir u.þ.b. tveimur árum og lauk verkinu að mestu á u.þ.b. níu mánuðum. Síðan tók við föndur og smámunasemi þar til mér fannst hún hæf til útgáfu,” segir Skagamaðurinn Gunnar Krismannsson, sem nýlega gaf út skáldsöguna Úlfssaga.

Bókin Úlfssaga er skálduð ævisaga Skagamannsins Úlfs Tristan Hannibalssonar og er skrifuð árið 2027. Úlfur á þýska móður sem flutti til landsins skömmu eftir síðari heimsstyrjöld til að flýja hörmungarnar í heimalandinu. Það er ekki allt sem sýnist með hennar skyldmenni og í ljós kemur að sum þeirra höfðu verið virkir þátttakendur í glæpum þriðja ríkisins. Þótt Úlfssaga sé fyrsta skáldsaga Gunnars þá samdi hann óperettu fyrir um 15 árum. „Þá sömdum við Skagamennirnir og félagaranir, ég og Gautur Gunnlaugsson, óperettu sem sýnd var í Iðnó á þeim tíma. Það að skapa hefur því alltaf verið á áhugasviðinu hjá mér hvort sem það eru ritstörf eða tónsmíðar.“

Gunnar hefur stærstan hluta starfsferils síns starfað við tónlist. „Ég fór upphaflega í Tónlistarskólann á Akranesi og þaðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og einnig í Söngskólann í Reykjavík. Ég hélt síðan í framhaldsnám í söng til Spánar og nam í Barcelona og Madrid. Eftir að ég kom heim aftur réði ég mig sem skólastjóra Tónlistarskólans í Grindavík og starfaði þar í sjö ár. Eftir það flutti ég aftur til Reykjavíkur og hef starfað hjá Skólahljómsveitum Reykjavíkur.“

Gunnar segist nú þegar vera kominn með hugmynd að nýrri sögu og vonandi geti hann áður en langt um líður farið að setjast niður og hefja skriftir á nýrri bók.

„Hvað Úlfssögu varðar þá hjálpar þetta ástand ekki sem nú ríkir með kynningu á bókum sem gefnar eru út. Þetta eru sérstakir tímar. Mannamót eru í algeru lágmarki og útgáfupartý eru ekki haldin. En ég er afskaplega ánægður með viðtökurnar. Bókin hefur hlotið einróma lof lesenda. Það segir mér að vel hafi tekist til og er mér hvatning til frekari verka í framtíðinni.

Gunnar gefur bókina út sjálfur og hægt er að kaupa hana í gegnum facebooksíðuna Úlfssögu og einnig í verslunum Eymundsson.