Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt á einum vettvangi

Stafrænn háskóladagur verður haldinn 26. febrúar næstkomandi frá klukkan 12 til 15. Þá gefst áhugasömum tækifæri til að kynna sér allt háskólanám sem er í boði á landinu á einum vettvangi. Á vefsíðunni http://www.haskoladagurinn.is er nú mögulegt að leita í öllum námsleiðum sem eru í boði í íslenskum háskólum.

„Nemendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar og starfsfólk allra háskóla landsins verða tilbúnir til að spjalla við gesti dagsins í netspjalli. Það verður hægt að komast í beint samband við fulltrúa frá öllum námsleiðum í grunnnámi háskólanna og um að gera að nýta tækifærið og spyrja um hvað eina sem lítur að draumanáminu og eiga samtal um námsleiðirnar og háskólalífið. Líkt og í fyrra var tekin ákvörðun um að halda daginn ekki með hefðbundnum hætti á staðnum heldur stafrænan. Er það gert í ljósi ástandsins í samfélaginu. Með þessu móti er hægt að bjóða öllum áhugasömum í netspjall við starfsfólk háskólanna og tryggja aðgengi fyrir öll þau sem hafa áhuga á að kynna sér úrvalið hjá íslensku háskólunum,“ segir í tilkynningu frá verkefnisstjórn.

„Við erum rosalega ánægð með virkni leitarvélarinnar á síðunni enda er þetta í fyrsta skiptið á Íslandi þar sem áhugasömum um háskólanám gefst tækifæri til að leita að námi í öllum háskólum landsins,“ segir Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins.