
Zonta segir NEI við kynbundnu ofbeldi!
Zontaklúbburinn Ugla
Zontaklúbburinn Ugla sem starfar á Vesturlandi stendur fyrir vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi þessa dagana, eða til 10. desember, ásamt öðrum Zontaklúbbum á landinu í tilefni að alþjóðlegu 16 daga átaki. Þann 28. nóvember síðastliðinn buðu Uglur upp á opinn fund í húsi Símenntunar á Akranesi þar sem Ísól Björk Karlsdóttir, ráðgjafi og fræðslustýra hjá Kvennaathvarfinu sagði frá starfinu.
Það kom fram í máli Ísólar að gerendur og þolendur endurspegla þverskurð samfélagsins sem þýðir að ofbeldi getur átt sér stað inni á hvaða heimili sem er. Ofbeldi á sér margar birtingamyndir og þar má nefna andlegt ofbeldi sem dylst mörgum og felst í einangrun, tilfinningalegu ofbeldi, ofureftirliti og hótunum. Markmið geranda er að ná stjórn á þolanda. Líkamlegt ofbeldi getur verið að berja, klípa, varna útgöngu, loka inni, henda eða skemma hluti. Kynferðislegt ofbeldi felst m.a. í þvingun til kynferðislegra athafna, kynferðislegt áreiti og athugasemdir um líkama eða klæðaburð, ásamt hótunum. Fjárhagslegt ofbeldi getur til dæmis falist í því að neita þolanda um peninga, skammta peninga eða segja ósatt um stöðu fjármála. Stafrænt ofbeldi er beitt með notkun tækni til dæmis með því að senda neikvæð, ógnandi skilaboð í gegnum samfélagsmiðla, síma eða tölvupóst.
Heimilisofbeldi er ekki einstakur atburður heldur stjórnunar- og kúgunarferli sem á sér stað í öllum samfélögum og öllum fjölskyldumynstrum. Heimilisofbeldi á sér stað í allskonar samböndum, óháð kyngervi eða kynhneigð fólks. Ofbeldi þrífst í öllum þjóðfélagshópum og ofbeldismenn og brotaþolar bera ástandið á heimilinu sjaldan utan á sér. Einfaldasta leiðin til að komast að því hvort fólk sé beitt ofbeldi er að spyrja ef það vaknar nokkur grunur um að slíkt sé í gangi. Þolendur geta brugðist ókvæða við en skilaboðin geta orðið til þess að þeir leiti sér hjálpar þótt síðar verði.
Það hefur færst í aukana að yfirmenn og samstarfsfólk hafa samband í síma Kvennaathvarfsins til þess að fá ráðgjöf um hvernig hægt er að styðja við þolendur heimilisofbeldis.
Í erindi Ísólar kom fram að þjónusta Kvennaathvarfsins er bráðnauðsynleg í okkar samfélagi og þangað leituðu 1.206 þolendur í viðtöl árið 2022 og 269 íbúar dvöldu í athvarfinu, 155 konur og 114 börn frá 47 löndum. Aldur kvenna sem komu í dvöl eða viðtöl var frá 18 – 79 ára og aldur barna var allt frá því að vera nokkurra daga til 18 ára. 84% kvenna sem fengu viðtal voru íslenskar og 16% erlendar. En af þeim sem dvöldu í athvarfinu voru 59% erlendar og 41% íslenskar.
Afleiðingar ofbeldis geta m.a. verið kvíði, ótti, skömm, sektarkennd, laskað sjálfstraust, sjálfsefi og margskonar líkamlegir kvillar. Það er sláandi staðreynd að sjötta hver stúlka í 10. bekk hefur verið nauðgað af jafnaldra. Það segir okkur að við þurfum að skipta okkur af! Sú staðreynd að þriðja hver kona hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka, er ekki í lagi.
Börn sem verða vitni að heimilisofbeldi eiga í mikilli hættu að þjást af líkamlegum, sálrænum og félagslegum afleiðingum ofbeldis, jafnvel þó þau verði ekki fyrir því sjálf. Það er einnig umhugsunarvert að bæði þolendur og gerendur heimilisofbeldis hafa tilhneigingu til að vanmeta upplifun barna af ofbeldinu og áhrif þess á líðan þeirra. Rannsóknir sýna að börn vita af ofbeldi sem viðgengst á heimili og að þeim líður illa.
Það er hlutverk okkar allra að taka virka afstöðu gegn ofbeldi í allri mynd. Ofbeldi á heimili er glæpur sem á að tilkynna. Það er ekki hægt að fela ofbeldi undir friðhelgi heimilis. Samkvæmt barnaverndarlögum hvílir tilkynningarskylda á okkur öllum.
Kvennaathvarfið var sett á laggirnar 6. desember 1982 og er því 41 árs gamalt úrræði fyrir konur og börn sem þurfa aðstoð við að komast út úr ofbeldi á heimili. Í athvarfinu starfa sérfræðingar á mörgum sviðum sem sinna ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og rekstri. Frá stofnun Kvennaathvarfsins hefur starfsemin og þjónustan sem veitt er aukist til muna og síðustu ár hafa konur sem dvalið hafa í athvarfinu getað nýtt sér í framhaldinu tímabundið úrræði í leiguíbúðum á vegum athvarfsins þar sem þær og börnin þeirra geta byggt upp nýtt líf í öruggu umhverfi.
Í erindi Ísólar kom fram að einungis 3% íslenskra kvenna sem dvöldu í athvarfinu voru af Vesturlandi. Í okkar augum er það skýr ábending um það úrræðaleysi sem þolendur ofbeldis búa við á Vesturlandi. Eina athvarfið utan Reykjavíkur er á Akureyri og það er staðreynd að eitt af því sem einkennir ofbeldi er að ofbeldisaðilinn einangrar þolandann. Því er nauðsynlegt að fjölga úrræðum á Vesturlandi.
Skiptum okkur af og segjum NEI við ofbeldi
Zontakúbburinn Ugla hvetur alla til að þora að taka afstöðu gegn öllu ofbeldi. Gerendur bera ábyrgð á ofbeldinu, ekki þolendur. Börn eiga ekki skilið að alast upp í ótta og kúgun. Við ættum öll að gera það sem við getum til að útrýma ofbeldi. Segjum NEI við ofbeldi í hvaða birtingarmynd sem er. Hringjum í 112 ef við verðum vör við nágrannerjur eða spyrjum nærgætnislega ef við sjáum vanlíðan hjá þeim sem við þekkjum.
Hægt er að afla sér upplýsinga um úrræði og fræðslu inni á kvennaathvarf.is, stigamot.is, bjarkarhlid.is, heimilisfridur.is og 112.is
Að leggja málefninu lið
Zontaklúbburinn Ugla stendur fyrir fjáröflun til að styðja við margvísleg verkefni sem styrkja konur og stúlkur. Innanlands sem utan og nú söfnum við fyrir Kvennaathvarfið. Miðvikudaginn 6. desember nk. munum við vera á Hyrnutorgi í Borgarnesi milli kl. 16-18. Seld verða kerti og kort og tekið við framlögum.
Zontaklúbburinn Ugla