Ýmsu er ábótavant í sundlauginni okkar

Gunnar Njálsson

Ég er búinn að fá nóg af ástandi sundlaugar í Grundarfirði.

Sundlaugargestum, innlendum jafnt sem erlendum, er gert að fara í kaldar sturtur þegar þeir heimsækja sundlaugina og vatn í heitu pottunum er iðulega kalt. Í mörg ár hefur þetta viðgengist og það eru tíðar bilanir í vatnshitakerfinu sem veldur. Kvartanir okkar og athugasemdir nægja hvergi til að menn geri almennilega við ýmsa hluti þarna. Þetta er spurning um að taka vel á móti fólki hér í byggðarlaginu og þá er almenningssundlaug mikið atriði og að hún sé í góðu lagi, enda er tjaldsvæði, sem er mikið notað, við hliðina.

Ég varð fyrir sérstakri reynslu síðasta sunnudag er ég og kona mín ætluðum að fara í sundlaugina okkar. Við höfðum farið þarna fyrir nokkrum dögum, en snerum við, er okkur var tjáð, að kalt vatn væri í hinum heitu pottum. Nú átti að reyna aftur. Ég tók eftir því, að tvö plöstuð spjöld á vegg utan við útidyrnar voru lituð að innan af mold og lítt læsileg. Merkimiðar innan á útihurð voru skakkir. Dyrahúnn á hurðinni inn í karlaklefann var að detta af, allur laus í skrúfunum. Ég tók strax eftir því að karlmennirnir sem voru að klæða sig voru talsvert æstir og karlmaður var í sturtuklefanum, allur í sápu og greinilegt var að vatnið var ískalt og hann í hreinustu vandræðum. Ég gékk til afgreiðslustúlku sem sagði mér að vatnið væri kalt og hún hafði gleymt að segja mér frá því. Ég og kona mín gengum út aftur, en hún sagði að blóð væri á gólfinu og engin gólfmotta, eins og væri einnig í karlaklefanum.

Er vatnsyfirborð sundlaugarinnar látið vera svo lágt til að koma í veg fyrir að yfirbreiðsludúkurinn fjúki upp eftir lokunartíma? Þá er vatn í grunna endanum orðið full lítið til að synda í.

Maður spyr, hvort allt sé í lagi á þessum bæ? Á að bjóða fólki upp á þetta endalaust og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ýmislegt er í ólagi í sundlauginni. Ég starfa sjálfur í að höndla með ferðafólk á sumrin á metnaðarfullum stöðum og ég skammast mín fyrir að vera vitni af þessu hér í bæ.

Í sundlauginni hér starfa tvær konur og enginn karlmaður. Er það löglegt? Er leyfilegt að starfsfólk horfi endalaust í snjallsíma sinn?  Enginn hárblásari er í kvennaklefa og konur þurfa að fara fram í afgreiðslu til að fá að nota hann. Ég vil ekki heyra afsakanir um að það sé hætta á að honum verði stolið, er hann er staðsettur inn í sundlaugarklefa.

Skattgreiðendur borga yfirmönnum sveitarfélagsins kaup til að halda þessum hlutum í lagi og gæta þess að viðmót og fleira sem móta upplifanir gesta verði í lagi. Ég er enginn eftirlitsaðili hér í bæ, en það fólk sem ekki getur staðið sig, verktakar og fleira, verður að víkja. Nú eru allir yfirmenn bæjarskrifstofu og áhaldahúss í sumarfríi sem gerir hlutina enn verri.

Svo má bæta því við, að ekkert vatnsnudd er í heita pottinum. Fyrir einu og hálfu ári voru pottarnir tveir gerðir upp og ákveðið að rífa vatnsnuddkerfið frá og nú í vor voru tveir nýir pottar settir í stað hinna gömlu, en ekki kom vatnsnuddið aftur. Fjöldamargir Grundfirðingar keyra inn í Stykkishólm í þessa flottu sundlaug með metnaðarfullu þjónustustigi.

 

Bestu kveðjur.

Gunnar Njálsson, Grundarfirði.

Fleiri aðsendar greinar