
Yfirlýsing frá foreldrum barna í Eyja- og Miklaholtshreppi
Foreldrar barna á fimm heimilum í Eyja- og Miklaholtshreppi
Þegar sveitarstjórn fjallar um málefni samfélagsins hvíla á þeim margs konar skyldur um málsmeðferð, samráð við íbúa, gegnsæ stjórnsýsla og fleira. Þegar unnið er að því að taka stefnumarkandi ákvarðanir og það sem kallast meiri háttar breytingar á samfélögunum er krafan sérstaklega skýr um vönduð og gegnsæ vinnubrögð svo við tölum ekki um að lögum verði fylgt.
Við nokkrir foreldrar barna sem stunduðu nám við Laugargerðisskóla vorum afar ósátt við hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps þegar okkur var skyndilega tilkynnt um fyrirhugaða lokun skólans. Var ekkert samráð haft við foreldra né fræðslunefnd um málið. Reyndum við að ræða við sveitarstjórn og koma á framfæri hugmyndum að lausnum, lögðum m.a. til að sveitarstjórn frestaði um eitt ár að loka skólanum og nýtti tímann til samráðs í samfélaginu. Þegar það gekk ekki nýttum við okkur þann rétt að leita til ráðuneytis mennta- og barnamála. Sendum við erindi 26. júlí 2023, ráðuneytið sendi síðan bréf til sveitarstjórnar 5. september. Svar barst ráðuneytinu frá sveitarstjórn 4. október 2023, foreldrar sendu viðbrögð við því bréfi 25. október 2023 til ráðuneytisins. Síðan barst okkur bréf frá ráðuneytinu 7. nóvember 2023 með niðurstöðu ráðuneytisins.
Í bréfi ráðuneytisins kemur eftirfarandi fram; „Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur undir með foreldrum barna í Eyja- og Miklaholtshreppi að niðurlagning Laugargerðisskóla feli í sér meiri háttar breytingar á skólanum. Leiddi því af 1. mgr. 8. gr. laga um grunnskóla að skylt var að óska umsagnar fræðslu- og skólanefndar Eyja- og Miklaholtshrepps, sem fór með verkefni skólaráðs Laugargerðisskóla, áður en endanleg ákvörðun var tekin um niðurlagningu skólans. Því er það afstaða mennta- og barnamálaráðuneytisins að aðdragandi ákvörðunar um niðurlagningu skólans hafi ekki verið í samræmi við lög. Með vísan til 4. gr. laga um grunnskóla leggur mennta- og barnamálaráðuneytið fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp að taka framangreindar breytingar á skólahaldi til nýrrar meðferðar sem er í samræmi við ákvæði laga um grunnskóla. Um er að ræða viðbrögð við annmarka á formhlið málsins en ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort efni ákvörðunarinnar sé í samræmi við lög.“
Þetta þýðir að nú þarf hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps að taka málið fyrir að nýju og fara að lögum. Þá gefst nú væntanlega tækifæri á að fara betur yfir það sem snýr að börnunum, tíma í akstri, skipulag aksturs, biðtíma eftir skólabíl, aðstaðan í frístund / regnboðalandi og fl. sem við foreldrar vildum fá svör við síðastliðinn vetur en fengum ekki.
Það vekur samt óneitanlega athygli okkar að frá því að niðurstaða ráðuneytisins barst sveitarstjórn hafa verið haldnir tveir fundir án þess að bréf ráðuneytisins hafi ratað inn á dagskrá fundanna eins og þeim bar að gera. Því viljum við vekja athygli á málinu með von um að sveitarstjórn vandi nú til verka og hafi það sem snýr að börnunum að leiðarljósi, velferð þeirra og farsæld.
Guðný Linda Gísladóttir og Atli Sveinn Svansson, Dalsmynni.
Hans Henning Lehmann og Dr. Ulrike Taylor, Miklaholtsseli
Sveinbjörg Zophoníasdóttir og Jón Ásgrímsson Stóru Þúfu.
Sonja Karen Marinósdóttir og Þórður Guðmundsson, Stórakrók
Katharina Kotschote og Eggert Kjartansson, Hofsstöðum.