Vonin í votlendinu

Einar Bárðarson

Í dag 2. febrúar er Alþjóðlegi dagur votlendis en þann dag árið 1971 var Ramsarsamningur, samningur um verndun votlendis, undirritaður.

Endurheimt votlendis er viðurkennd aðferð hjá Loftslagsráði sameinuðu þjóðanna (IPCC) í baráttunni við loftslagsbreytingarnar. Alþjóðleg viðmið um losun hvers hektara sem IPCC hefur gefið út eru 19,5 tonn. Um nokkurra ára skeið hefur vísindafólk Landgræðslunnar unnið að rannsóknum að meðallosun íslenskra mýra. Mælt er á fjórum mismunandi stöðum á landinu og til þessa hafa mælingarnar gefið til kynna að meðaltalið sé nokkuð svipað og þegar kemur að losun íslenskra mýra.

Endurheimt votlendis er einföld og hraðvirk leið í baráttunni við loftslagsbreytingarnar, og um leið endurheimt vistkerfa og styður við náttúrulega fjölbreytileika. Vert er að taka fram að stöðvun losunar koldíoxíðs er að ræða en ekki bindingu.

Árið 2019 stöðvaði sjóðurinn losun 1.404 tonn af koldíoxíð en uppreiknað til þriggja ára eru það 4.212 tonn. Árið 2020 stöðvaði sjóðurinn 2.636 tonn en uppreiknað til tveggja ára eru það 5.265 tonn. Samtals til dagsins í dag eru þetta 9.477 tonn sem samsvara losun 4.738 nýrra fólksbíla á sama tíma. Þess utan lauk sjóðurinn við endurheimt í Fífustaðadal í haust, svæði sem telur um 70 hektara.

Landgræðslan metur og mælir forsendur allra endurheimtarverkefna Votlendissjóðs. Að lokinni framkvæmd er verkið mælt og metið að nýju. Ef verkið hefur heppnast til fulls færir Landgræðslan það í samantektartölur landsins um stöðvun losunar frá framræstu votlendi.

Votlendissjóður býður öllum landeigendum til samstarfs um framkvæmd endurheimtar á svæðum í þeirra eigu. Undir slíkum samningi tryggir landeigandinn að endurheimtin verði unnin af fagaðilum og undir eftirliti og mælingum Landgræðslunnar.

Á átta ára samningstíma greiðir Votlendissjóðurinn fyrir alla vinnu við undirbúning og framkvæmd endurheimtarinnar. Á samningstímanum er ábati aðgerðanna, þ.e. kolefniseiningarnar eign sjóðsins og selur sjóðurinn þær til að fjármagna aðgerðina. Að samningstímanum loknum eru einingarnar eign landeigandans.

Kynntu þér starfið okkar hjá Votlendissjóði á www.votlendi.is og sjáðu sóknarfærin sem liggja allt í kringum okkur í loftslagsbaráttunni.

 

Einar Bárðarson

Höf. er framkvæmdastjóri Votlendissjóðs