Vitleysan í kringum líeyrissjóðina

Hafsteinn Sigurbjörnsson

Nú þegar HB Grandi hefur sagt upp um 100 manns sem eiga þá rétt á atvinnuleysisbótum, þá kemur margt skrítið í ljós í sambandi við lífeyrissjóðina. Á sama tíma og þessu fólki er sagt upp á Akranesi úthlutar HB Grandi 1,8 milljörðum króna til hlutahafanna sem eru eigendur fyrirtækisins. Þetta er þriggja og hálfs ára laun þeirra 100 launamanna, miðað við að meðallaun hvers einstaklings hefði verið 420.000 krónur á mánuði eða fimm milljónir á ári.

Nú eiga lífeyrissjóðirnir um 33% í HB Granda sem gerir hlut þeirra í þessari upphæð 600 milljónir króna. Ef þessir 100 einstaklingar fengju enga vinnu og færu á atvinnuleysisbætur, þá tapa sjóðirnir 12% af launatekjum þeirra eða 600.000 krónum á hvern einstakling, eða alls 60 milljónum á ári. Það er einum tíunda af því sem þeir fá með því að braska með fjármuni launafólks. Það má segja að það sé gott fyrir lífeyrissjóðina (vogunarsjóðina, sem orðið er réttnefni á þeim með svona braski) að fá meiri aur í sjóðina, því alltaf kvarta þeir um að fá ekki nóg. Hefði ekki verið réttlátara af lífeyrissjóðunum, eigendum 33% í fyrirtækinu, að berjast gegn þessari ákvörðun hjá stjórn HB Granda? Halda með því starfseminni áfram upp á Skaga. Þá hefðu þeir þó alltaf fengið 60 milljónir króna í lífeyrisiðgjöld á ári fyrir störf þessa fólks, en aðrir eigendur ekki krónu?

En nú kemur það athyglisverðasta í ljós við þessa gjörð og þá hringavitleysu sem komin er í þetta lífeyriskerfi. Nú eiga atvinnuleysingjar rétt á atvinnuleysisbótum og það er ríkissjóður sem stendur á bak við að greiða þær. Þessar greiðslur eru að meðaltali fyrir einstakling 250.000 kr. á mánuði sem jafngildir þremur milljónum á ári eða 300 milljónum fyrir þessa hundrað einstaklinga.

Þetta er tekið af skattfé almennings þ.e. mín og þín, þannig að óbeinlínis eru lífeyrissjóðirnir að taka fjármuni úr ríkissjóði. Samkvæmt þessu má færa fyrir þvi rök að af þessu skattfé úr ríkissjóði, þrjú hundruð milljónum á ári, fái lífeyrissjóðirnir 33% eða 100 milljónir mínus 60 milljónir sem þeir hefðu fengið ef þessar uppsagnir hefðu ekki átt sér stað, þ.e. 40 milljónir aukalega við þær 600 milljónir sem arðgreiðslunar gáfu þeim.

Þetta plott lífeyrissjóðanna með lífeyri landsmanna er viðbjóður og verra en harðsvíraðir vogunarsjóðir leika sem einskis svífast í starfsemi sinni.

 

Hafsteinn Sigurbjörnsson.

Fleiri aðsendar greinar