Vitlaust gefið í menntakerfinu

Dagný Rósa Úlfarsdóttir

Einn af grunnþáttum samfélagsins er menntakerfið og mikilvægt er að allir fái að njóta góðrar menntunar frá bernsku og fram á fullorðinsár. Fjölbreytt nám, hvort sem það er bóknám, iðnnám eða listnám, fær fólk til að þroska sína hæfileika. Til þess að það sé hægt þurfum við kennara.

Góðir kennarar eru grunnundirstaða í góðu menntakerfi og mikilvægt að vel menntaðir kennarar séu á öllum skólastigum. Frá árinu 2008 hefur nýnemum í kennaranámi fækkað um 60% og er það mikið áhyggjumál. Lenging kennaranáms í 5 ár hefur kannski haft eitthvað að segja, því launin hafa ekki hækkað í takt við aukna menntun. Mikilvægt er að bæta kjör og starfsumhverfi kennara til þess að kennaranemum fjölgi. Um helmingur þeirra sem mennta sig til kennara velja að starfa við annað en kennslu. Ef fram fer sem horfir eru líkur á að mikill kennaraskortur verði viðvarandi í leik- og grunnskólum landsins á komandi árum. Við þurfum að gera starf kennara eftirsóknarverðara þannig að nýútskrifaðir kennarar komi til kennslu.

Niðurskurður í menntakerfinu hjá ríki og sveitarfélögum undanfarin ár er farinn að bitna á skólastarfinu á marga vegu. Háskólarnir eru fjársveltir og bitnar það meðal annars á verklegu námi kennaranema. Kennarar í grunn- og leikskólum treysta sér ekki allir til að starfa við núverandi starfsaðstæður sem einkennast af of miklu aðhaldi og leita í önnur störf. Aukið álag veldur auknum fjarvistum vegna veikinda og streitu.

Kjarabarátta kennara hefur ekki alltaf verið dans á rósum og nú hafa grunnskólakennarar lausan kjarasamning. Viðsemjendur kennara eru sveitarfélögin og þau segja að ekki sé til meiri peningur. Einhvers staðar er vitlaust gefið. Sveitarfélögin þurfa að starfrækja grunnskóla samkvæmt öllum þeim lögum og reglugerðum sem ríkið setur. Til þess gætu þau þurft að taka upp viðræður við ríkið um breytta skiptingu tekjustofna.

Þegar ástandið er svona er ekki líklegt að ungt fólk, sem er að velja sér framtíðarstarfsvettvang, velji kennaranám.

Það er alvarleg staða, því enginn vill samfélag án kennara.

 

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, bóndi og kennari í A-Húnavatnssýslu

Höfundur skipar 3. sæti lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Fleiri aðsendar greinar