Vítissótinn og páfi kaþólskra

Finnbogi Rögnvaldsson

Umhverfismál eru málaflokkur sem skiptir lífríki jarðar miklu máli. Ekki þarf lengi að leita til að finna sorgleg dæmi um ofveiði og gróðureyðingu á og við fósturjörðina. Við státum okkur af því að hér gaf síðast gerifuglinn upp öndina og gróðureyðing og jarðvegsrof hefur verið hratt frá lándnámi norænna manna á 9. öld. Samt erum við fá og landið strjálbýlt.

Á okkar dögum býr í landinu hámenntuð þjóð, aðgangur að þekkingu hefur aldrei verið jafn greiður og nú og fyrirferðamiklar stofnanir vaka yfir umhverfinu til að tryggja að við mennirnir förum að öllu með gát. Manni bregður því óneitanlega í brún við að lesa klausu eins og þessa á vefmiðlinum visir.is:

„Umhverfisstofnun mælir með því að leyfi verði veitt fyrir tilraun með basa í botni Hvalfjarðar í sumar. Rannsóknin sé líkleg til að veita mikilvægar upplýsingar um möguleika á kolefnisbindingu án þess að hafa neikvæð áhrif á hafið.“

Hvað á þetta að þýða? Einföld menntaskóla efnafræði leiðir í ljós – án nokkurra tilrauna – að vítissóti getur ekki bundið koldíoxíð svo neinu nemi og augljóst að það að demba smátteríi eins og 30 tonnum í sjóinn eykur losun koldíoxíðs í lofthjúp jarðar. Ekki mikið þó í stóra samhenginu. Þetta hljóta sérfræðingar Umhverfisstofnunar að vita og því vakna óþægilegar spurningar um hvað mönnum gangi til að senda frá sér aðra eins tilkynningu og þessa.

Vítissóti er framleiddur með rafgreiningu á saltpækli, NaCl er látið hvarfast við vatn í efnahvarfi þar sem vítissóti, vetni og klór eru myndefnin. Stundum er saltsýra framleidd með vítissótanum í stað klórs og vetnis en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Í efnafræði er notast við eininguna mól til að mæla efnismagn. Þegar eitt mól af NaOH (vítissóta eða natríumhydroxíð) er framleitt þarf til þess orku sem er u.þ.b. 330 kJ (ACS energy letters: Caustic Soda Production, Energy Efficiency, and Electrolyzers | ACS Energy Letters). Við bruna á 1 móli af C (kolefni) fæst orka sem er u.þ.b. 390 kJ, litlu meira en þarf til að framleiða vítissótann. Lengra þarf ekki að fara í rannsóknum á vítissóta og bindingu koldíoxíðs til þess að sjá að slíkt er einfaldlega ekki gerlegt. Ekki er hægt að binda koldíoxíð með vítissóta! Nettóútkoman verður aldrei í plús. Svo má vissulega halda áfram, rita efnaformúlur og gera grein fyrir umfangi viðfangsefnisins til þess að sjá þetta enn betur, hugmyndin er einfaldlega andvana fædd og ætti ekki að vera til umfjöllunar hjá virðulegum stofnunum ríkisins. Hvað þá að hljóta þar meðmæli. Þá er eitthvað skrítið á seyði.

En það er líka önnur hlið á þessu sem margir hafa þegar bent á og snýr að lífríki sjávarins. Vissulega er vítissóti rammur basi sem leysist auðveldlega upp í vatni og þynnist tiltölulega hratt ef vatnsmagnið sem hann leysist upp í er mikið. Til að hafa áhrif á sýrustig sjávarins þarf því óhemju magn basa (eða sýru). Þetta gerist hinsvegar ekki á augabragði og til þess að komast að því þarf heldur ekki að gera tilraunir í Hvalfirði. Á meðan basinn er að þynnast verður sjórinn sem hann blandast mjög basískur sem hefur neikvæð áhrif á örverur, það er líka vitað. Hversu neikvæð áhrif vitum við ekki frekar en við vitum ekki af hverju Hvalfjörður fylltist af síld sumarið 1948. En það var örugglega ekki af því einhver hellti 30 tonnum af vítissóta í sjóinn skömmu áður. Það mikilvægasta er þó að missa ekki sjónar á því að tilrauninni er ekki ætlað að kanna áhrif ramms basa á lífríkið heldur á að kanna hvort hægt sé að binda kolefni úr lofthjúpi jarðar með því að blanda NaOH í sjóinn. En það er ekki hægt – það veit páfinn. Því er óþarfi að sullast þetta frekar.

 

Finnbogi Rögnvaldsson