Vinnuskólinn sumarið 2023

Jón Arnar Sverrisson

Vinnuskóli Akraness lauk starfsemi 11. ágúst síðastliðinn. Í vinnuskólanum störfuðu um 300 unglingar, fæddir 2005-2009, tíu flokkstjórar og verkstjóri. Starfsemin hófst ekki fyrr en 7. júní vegna skólahalds og unnu krakkarnir mislangan tíma eftir aldri. 10. bekkur og 17 ára gátu unnið allt sumarið. Sú nýbreytni var gerð í sumar að ekki var unnið á föstudögum en einungis flokkstjórar unnu þá undir handleiðslu garðyrkjustjóra.

Ný handbók vinnuskólans var unnin síðastliðinn vetur af garðyrkjustjóra og verkefnastjóra æskulýðs- og forvarnamála. Í sumar var stuðst við þessa handbók og ýmis nýbreytni sett inn í vinnu vinnuskólans. Má þar nefna jafningjafræðslu á vegum Hins hússins en tvisvar í sumar kom hópur af fræðurum úr Reykjavík og voru með unglingunum heilan dag. Þá fléttuðum við Hinsegin Vesturlandi þannig inn í fræðslu við unglingana að hver hópur fékk að taka þátt í undirbúningi fyrir hátíðina og skreyta og m.a. var einn vagninn í göngunni með skreytingum frá þeim. Þá var starfræktur Listavinnuskóli í allt sumar og gekk það verkefni mjög vel, í það fengum við styrk úr sóknaráætlun Vesturlands, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Unglingar fengu val um að starfa í Listavinnuskólanum sem var mjög skemmtilegt að geta boðið upp á öðruvísi verkefni fyrir þau sem höfðu áhuga á því. Verkefni Listavinnuskólans voru að endurnýja allt skraut fyrir Írska daga og uppfæra álfana sem voru á ljósastaurunum. Þá tók Listavinnuskólinn einnig þátt í skreytingum fyrir Hinsegin Vesturland og stór partur af vinnu þessa hóps var líka að mála og bera á leiktæki á leikvöllum bæjarins.

Vinnuskólinn starfaði mest við hefðbundin verkefni eins og grasslátt og hreinsun á beðum. Á lista hjá vinnuskólanum voru um 70 lóðir þar sem slegið var fyrir eldri borgara og öryrkja, allt að fjórum sinnum í sumar. Þá eru grasblettirnir allnokkrir og svo öll leiksvæðin, leikskóla- og skólalóðirnar. Við erum einnig mikið að tína rusl út um allan bæ enda er mikill munur á bænum eftir að vinnuskólinn hættir. Þá höfum við gert átak í að klippa njóla á sérstökum stöðum og svo höfum við farið reglulega í að hreinsa meðfram götum og gangstéttum en betur má ef duga skal í þeim verkefnum.

Annars hefur Vinnuskólinn gengið vel í sumar, það tekur alltaf tíma að slípa hlutina til og koma öllu í rútínu. En svo eru þau bara allt í einu hætt og sumarið ekki búið. Vinnuskólinn er heljarinnar vinnustaður og ein fjölmennasta stofnun eða starfsstöð bæjarins á sumrin. Það þarf mikið skipulag og aga til að halda slíkum vinnustað úti svo vel sé, því það koma alltaf upp ýmsir vankantar og vandamál, sem þarf að leysa fljótt og vel.  Vinnuskólinn sem starfsstöð á skilið miklu meiri virðingu en þá sem hann fær fyrir öll þau fjölbreyttu verkefni sem hann sinnir, þótt það sé ekki nema þessa þrjá mánuði á sumrinu.

Með vinsemd og virðingu,

 

Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri Akraneskaupstaðar

Vinnuskólinn að störfum í sumar. Ljósm. vaks