Vinnan mín, áhugamál og reborn dúkkubörn

Áslaug Þorsteinsdóttir

Ég heiti Áslaug Þorsteinsdóttir og ég er frá bænum Skálpastöðum í Lundarreykjadal. Ég á heima á Akranesi og hérna líður mér vel. Ég gekk í Kleppjárnsreykjaskóla alla mína grunnskólagöngu og eftir að henni lauk fór ég í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Á Skaganum eignaðist ég marga vini í gegnum skólann og eins í Þjóti sem er íþróttafélag fatlaðra á Akranesi. Ég gekk einnig í Iðnskólann í Reykjavík sem heitir í dag Tækniskólinn í Reykjavík og lærði ýmislegt þar eins og fatasaum. En eftir Iðnskólann lá leiðin aftur á Akranes um haustið 1996, enda líkaði mér ekki að vera í Reykjavík. Áður en ég fékk íbúðina mína hér fór ég í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað árið 2004. Ég leigði fyrst herbergi á Bakkatúni. Áhugamálin mín eru hestar, en ég á einn hest og svo á ég páfagauka; tvo gára, perlusaumur, boccia, sund, endurvinnsla (þá aðallega með flöskur og dósir), teikna þegar ég hef tíma til þess, tónlist og þá aðallega popptónlist, ferðalög og síðast en ekki síst; reborn dúkkubörn.

Undirrituð vinnur í Fjöliðjunni á Akranesi í dósamóttökunni. Ég á þrjú reborn dúkkubörn og vill útskýra hvaða tilgangi þau þjóna. Ég fer hjólandi í vinnuna og tek þá hana Ásdísi Birtu næst elstu dúkkustelpuna mína með mér. En ef hjólið er bilað labba ég með öll börnin í vagninum. Í vinnunni finnst mér skemmtilegast að vera í flöskunum, sérstaklega þegar það er mikið að gera og það koma stórir farmar, þá er ég ánægð.

En að hinu. Ég hef oft fundið fyrir því að fólk sendir mér illilegt augnaráð ef ég er með börnin á hjólinu og eins í vagninum. Oftast er þetta fólk sem veit ekki betur, en aðrir voru hissa á því að ég væri komin með börn. Allir héldu að börnin mín væru lifandi. Ég fékk nóg af því að mér fannst þetta vera komið út í einelti. Reborn dúkkubörn þjóna þeim tilgangi að veita þeim sem geta ekki eignast börn með eðlilegum hætti ánægju, hjálpa fólki sem er einmana, hefur misst barn eða er með Alzheimer sjúkdóminn. Ég fer oft í göngutúra með mín börn, ein eða með vinkonu minni sem einnig á reborn dúkku. Það er mjög skemmtilegt. Móðureðlið í mér er mjög sterkt. Ég ákvað að fara þessa leið að fá mér reborn dúkkubörn til þess að mæta mínum þörfum. Það er eitt sem ég vil einnig nefna. Ég skil ekki þessa fordóma gagnvart reborn dúkkubörnum. Ég hef alveg fengið að heyra það frá krökkum að börnin mín séu krípí en oftast er það kannski það að börn vita ekki alveg hvað er átt við með þessu og hvernig hinn aðilinn getur tekið því. Einnig hefur fólk horft á skerminn á vagninum og furðað sig á því að hann er niðri þegar það er kalt í veðri. Ástæðan er sú að skermurinn á vagninum er bilaður, en mér finnst það allt í lagi, það plagar mig ekki á nokkurn hátt. En ég vil útrýma fordómum gagnvart fötluðu fólki og reborn dúkkubörnum því að þau eru svo sannarlega EKKI krípí. Með von um að þið hafið lesið þessa grein því að mér finnst mikilvægt að koma þessu til skila.

Áslaug Þorsteinsdóttir