Vindmyllur á Grjóthálsi

Georg Magnússon

Tilgangur þessarar greinar er að vekja athygli á stærð og umfangi á fyrirhugaðri vindmylluframkvæmd á Grjóthálsi í Borgarfirði.

Úr Skessuhorni 14. október 2019:

„Síðastliðið fimmtudagskvöld efndu Einar Örnólfsson bóndi á Sigmundarstöðum í Þverárhlíð og Helgi Hjörvar ábúandi á Hafþórsstöðum í Norðurárdal til kynningarfundar með nágrönnum sínum um hugsanlegan vindmyllugarð á Grjóthálsi, sem skilur að sveitir þeirra. Fundurinn var haldinn í samkomuhúsinu við Þverárrétt. Samkvæmt hugmyndum sem kynntar voru verða reistar allt að sex stórar vindmyllur á miðjum Grjóthálsinum, ef af verkefninu verður. Þá var einnig upplýst á fundinum að eigandi Króks í Norðurárdal hefur heimilað Norðmönnum að ráðast í rannsóknir í landi sínu með tilliti til vindmyllu uppsetningar. Einar Örnólfsson staðfestir í samtali við Skessuhorn að verkefni þetta sé enn á hugmyndastigi og allsendis óvíst hvort af því verður. Því væri ekki tímabært að lýsa því nánar að svo stöddu. Þeir hafi hins vegar viljað hafa nágranna sína upplýsta frá upphafi og því boðið til kaffis og spjalls í Réttinni.“

Undirritaður var á þessum kynningarfundi ásamt fleirum. Megin inntak fundarins var að vindmyllur til raforkuframleiðslu væru umhverfisvænar, jarðrask yrði í lágmarki, hægt væri að nota vegslóðann upp á Grjótháls til aðflutnings, einfalt væri að tengja myllurnar inn á háspennulínuna sem liggur eftir hálsinum, Hrútatungulínu 1, (undirritaður hefur reyndar ekki fengið svar við fyrirspurn til Landsnets hvað varðar Hrútatungulínu, stækkun, endurnýjun, lestun o.fl.)  og síðast en ekki síst að þegar og ef notkun ljúki einhvern tímann og myllurnar teknar úr notkun yrði lítið mál að þekja og sá yfir sárið.

Meðal þess er fram kom á fundinum:

  • Aðspurðir um sjónmengun, jú hún yrði einhver en ávinningurinn af grænu rafmagni væri meiri.
  • Aðspurðir um hávaða frá myllunum töldu þeir að það yrði ekki vandamál þar sem myllurnar væru það langt frá bæjum.
  • Aðspurðir um hvort ekki yrði hætta á að fasteignaverð myndi lækka á svæðinu vegna þeirrar sjónmengunar og hávaða sem myllurnar myndu valda töldu þeir, ásamt fundargesti, svo ekki vera. Ávinningurinn vegna nægrar orku í héraði, mögulegrar uppbyggingar í framtíðinni myndi vega upp á móti því.
  • Aðspurðir um hvort fuglum og öðrum dýrum gæti ekki stafað hætta af myllunum og m.a. vitnað í mikinn fugladauða af völdum mylla samkvæmt nýlegum fréttum frá Noregi, var svarið í raun að það ætti eftir að koma í ljós.
  • Spaðar vindmyllanna væru það langt frá jörðu að hljóðbylgjur sem af þeim stafaði gætu og myndu ekki skaða menn og dýr sem ættu leið um.
  • Aðspurðir um hvort erlendir ferðamenn, þar á meðal laxveiðimenn, sem koma í óspillta náttúru myndu sætta sig við að hafa gínandi vindmyllur yfir sér, fundargestur úr Norðurárdal tók undir með fundarboðendum og taldi svo ekki vera, ferðamenn væru vanir myllum að heiman.

Sem sagt þetta væru litlar og sætar myllur sem myndu gera mikið gagn til raforkuframleiðslu, bæta raforkuöryggið og myndi verða samfélaginu til mikilla hagsbóta.

Skýrsla VSÓ Ráðgjafar, Drög að matsáætlun

Skömmu eftir kynningarfundinn kom síðan fram í dagsljósið skýrsla frá VSÓ Ráðgjöf. „Vindmyllur á Grjóthálsi, Borgarbyggð. Drög að matsáætlun dagsett 16. október 2019.“ Í frétt Skessuhorns er haft eftir Einari Örnólfssyni bónda á Sigmundarstöðum að verkefnið sé á hugmyndastigi og alls óvíst hvort af yrði. Þarna skýtur aðeins skökku við því miðað við skýrslu VSÓ var þá þegar búið að vinna talsverða undirbúningsvinnu og ekki verður annað séð en að verkefnið sé komið á fulla ferð.

Á fundi Byggðaráðs Borgarbyggðar 16. janúar sl. (fundur nr. 512) er framlögð umsókn eigenda Sigmundarstaða og Hafþórsstaða beiðni um að fá að reisa mælingamastur á Grjóthálsi. Byggðarráð samþykkti beiðnina og vísaði afgreiðslu til sveitarstjórnar. Á fundi sveitastjórnar Borgarbyggðar 13. febrúar sl. (fundur nr. 194) samþykkir sveitastjórn afgreiðslu byggðarráðs.

Sæstrengur er í pípunum

Í skýrslu VSÓ kafli 2 „Markmið og forsendur,“ segir: „Markmið verkefnisins er að nýta vindorku til vinnslu rafmagns og mæta vaxandi orkuþörf í landinu.“ Enn fremur segir: „Í raforkuspá til 2050 er gert ráð fyrir að raforkunotkun aukist um 1,7% á ári til 2050. Í heildina litið er um að ræða 70% aukningu frá árinu 2018.“

Án efa allt rétt, nema að stórt kísilver sem reisa átti á Grundartanga var flautað af. Bræðsla í Helguvík hefur ekki verið í gangi um nokkurt skeið og óvíst að verði gangsett aftur vegna mótmæla íbúa í nágrenni verksmiðjunnar.

Í Morgunblaðinu 3. mars sl. er frétt um orkumál. Þar segir: „29 ný vindorkuver í pípunum. Orkufyrirtækin tilkynna 42 nýja orkukosti, Landsvirkjun hyggst stækka þrjár stórvirkjanir.“ Þarna er sagt frá ríflega 200 MW stækkun vatnsaflsvirkjana vegna nýrrar tækni og betri nýtni. Nýjar vatnsaflsvirkjanir upp á 76 MW, jarðvarmavirkjun upp á 100 MW og síðan áætlanir franska fyrirtækisins Quadran Iceland Development með afl frá 18 MW til 190 MW. Þarna er aðeins upptalning á hluta þeirra virkjunakosta sem eru í pípunum, heildar umfangið liggur ekki fyrir en von sé á fleirum kostum, segir Guðrún Pétursdóttir formaður verkefnastjórnar þriggja ráðuneyta, sem fjallar um málið.

Miðað við orkuspána til 2050 verður ekki annað séð en að vel sé í lagt því ekki hefur verið neitt í fréttum um væntanlega stóriðju og skemmst er að minnast að Google valdi að reisa stórt gagnaver í Svíþjóð ekki fyrir svo löngu síðan.

En spurningin er hvað á að gera við allt þetta rafmagn? Varla verður það allt notað innanlands, þrátt fyrir mikla þörf á rafbílahleðslu? Hugmyndir um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands hafa verið lengi í umræðunni. Engar upplýsingar er að fá frá Landsvirkjum, hvorki um verkefnið sem slíkt né þann kostnað sem búið er að verja til verksins. Landsvirkjun er undanþegin upplýsingaskyldu, samkvæmt lögum.

En ekki þarf lengi að vafra um veraldarvefinn til þess að sjá að sæstrengur er í pípunum og hugsanlega lengra kominn en við meðaljónar vitum um? Getur verið að þau fyrirtæki sem hyggjast reisa vindmyllugarða, vatnsaflsvirkjanir, gufuvirkjanir og fleira viti eitthvað meira en við hin og það sé leynt og ljóst stefna fyrirtækjanna að flytja út rafmagn í gegnum sæstreng? Sagt hefur verið að raforkuverð t.d. í Noregi hafi hækkað um 15 – 20% með tilkomu sæstrengs og því verður að telja líklegt að svo muni einnig verða á Íslandi.

Það er hinsvegar mjög skiljanlegt að landeigendur vilji fá arð af sínu landi t.d. með því að nýta það til uppbyggingar vindmyllugarða þar sem það hentar og ekki verður annað séð en að mikill áhugi sé á slíkri uppbyggingu erlendis frá.

Ýmsar stærðir

En skoðum nú framkvæmdina fyrirhuguðu á Grjóthálsi. Mér segir svo hugur um að fæstir fundargestir á kynningarfundinum í samkomuhúsinu við Þverárrétt, íbúar og lesendur almennt hafi gert eða geri sér fyllilega grein fyrir stærð og umfangi verkefnisins, sem þó er mjög lítið miðað við aðrar fyrirhugaðar vindmylluframkvæmdir. (Dalir, Reykhólasveit, Austurland og víðar).

Hér má sjá hæð vindmyllu eins og þeirra sem rætt er um að reisa á Grjóthálsi. Til samanburðar er ljósmynd af Hallgrímskirkju í Reykjavík. En hæð myllunnar með spaða í hæstu stöðu, er tvöfalt meiri en hæð kirkjunnar.

Stærð 5 MW vindmylla

Byrjum á því að skoða myllurnar sem fyrirhugað er að reisa. (Tölur um stærðir og fleira eru fengnar frá framleiðendum 5 MW vindmylla).

Samkvæmt skýrslu VSÓ er fyrsti valkostur á Grjóthálsi sex vindmyllur, 150 metrar að hæð með spaða í efstu stöðu og samkvæmt teikningu mynd 7.1 í skýrslunni er um að ræða 80 til 85 metra frá jörðu og upp í miðju á spaða. Reikna má með því að hæð mylluturna verði misjafn eftir landslaginu, vindhegðun og fleiru.  Möguleg afkastageta myllanna er áætluð 30 MW eða 5 MW hver mylla. Til samanburðar eru vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu fyrir ofan Búrfellsvirkjun 0,9 MW, turnhæð 55 metrar, mesta hæð með spaða beint upp 77 metrar og til enn frekari samanburðar er turninn á Hallgrímskirkju 75 metra hár.

Líftími vindmylla af þessarri stærð er áætlaður 20 ár +/- og gera verður ráð fyrir einhverjum spaðaskiptum á líftímanum, allt eftir aðstæðum hverju sinni, misvindasömu svæði, mishita og mörgu fleiru.

Ásýnd og áhrif

Stærstu áhrifin af fyrirhuguðum vindmyllum verður sýnileikinn. Ásýnd Grjóthálsins mun koma til með að gjörbreytast, hvaðan sem á verður litið, ekki bara Grjóthálsins heldur alls svæðisins og héraðsins. Samkvæmt mynd 10.4 í skýrslu VSÓ kemur fram að sýnileiki myllanna verður í allt að 50 km fjarlægð en áhrifin verða mest í nærumhverfinu eða allt að 15 km radíus út frá staðsetningu myllanna. Því til viðbótar má bæta við að vegna hæðar er skylda að hafa flugumferðarljós á svona mannvirki og þá eykst sýnileikinn enn meira.

Til frekari glöggvunar fyrir lesendur er flatarmál skrúfunnar (spaðans) miðað við 132 m þvermál 13.684 fermetrar eða 1,36 hektarar. Hver spaði vegur um 17 tonn og snúningurinn er 12 sn/mín sem gerir endahraða blaðanna ca 80 m/sek. Skrúfan er svokölluð skiptiskrúfa sem er þannig útbúin að hægt er að stjórna skurði blaðanna þannig að spaðinn snýst sína 12 sn/mín við breytilegan vindhraða eða ca 3,5 m/sek til 14 m/sek. (14 m/sek kjör vindhraði). Með þessu er leitast við að rafallinn snúist alltaf ca 1100 snúninga og haldi þannig 50 Hz tíðni sem er tíðni veitukerfisins, en hlutfall gírkassans sem er á milli skrúfu og rafala er ca 1:90. Til samanburðar fyrir lesendur má geta þess að rafalar í stærstu frystitogurum er 1,5 – 2 MW og samkvæmt frétt í Mbl getur varðskipið Þór veitt um 2 MW rafmagns í land á neyðartímum og dugar það til þess að fæða meðalstórt sveitarfélag.

Hljóðmengun

Hávaði frá mylluspöðunum er ca 110 dB, getur reyndar verið svolítið mismunandi eftir spaða- og myllugerð samkvæmt upplýsingum frá vindmylluframleiðendum. Hafa þarf í huga að hljóðið berst með vindinum.

Í skýrslu VSÓ er frekar lítið gert úr hávaða frá myllunum í kafla 10.8 Hljóðvist. Það er staðreynd að umferðarniður úr Norðurárdalnum heyrist yfir í Þverárhlíð, þegar þannig viðrar og verður því að gera ráð fyrir því að hávaði frá fyrirhuguðum myllum komi einnig til með að heyrast yfir Þverárhlíðina þar sem þær eiga að vera uppi á miðjum Grjóthálsinum og hljóð hefur tilhneigingu til þess að berast niður, samanborið við umferðarniðinn úr Norðurárdalnum sem berst upp og yfir Grjóthálsinn.

Kolefnisspor

Rafmagnsframleiðsla með vindi skilur ekki eftir sig kolefnisspor að öðru leyti en því að umtalsvert spor liggur eftir framleiðslu og uppsetningu á hverri myllu fyrir sig. Mesta vandamálið við endurvinnslu á vindmyllum eru spaðarnir en sem fyrr segir er hver spaði 5 MW myllu um og yfir 17 tonn. Með notkun á gler- og koltrefjum við framleiðslu spaðanna hefur tekist að létta þá verulega og gera sterkari sem hinsvegar gerir þá nánast óendurvinnanlega. Mestur hluti vindmylluspaða sem teknir hafa verið úr notkun í Evrópu fara í landfyllingu og einhver hluti þeirra er malaður niður og notaður sem íblöndunarefni í steinsteypu. Til þess að gera sér grein fyrir stærð spaðanna er þvermál spaðans við rótor nafið rúmlega 3 metrar, rafalahúsið ofan á turninum er að jafnaði 333 tonn og turninn sem heldur því uppi er á svipuðum nótum 300 – 400 tonn.

Jarðvinna, undirstöður, vinnuplön og vegir

En skoðum nú aðeins undirstöðurnar sem halda bákninu uppi. Í skýrslu VSÓ er útlitsmynd af undirstöðu. Mynd 7.3 bls 7.  Eins og sjá má á myndinni er þetta sæmilega stór gryfja sem þarf að grafa fyrir hverja undirstöðu eða ca einn meter út fyrir hvern meter niður sem gerir ca 28 m þvermál, 4 metra niður, athugið í besta falli, hugsanlega miklu meira, jafnvel minna, allt eftir því hvernig landið, jarðvegur, berg og fleira er á framkvæmdasvæðinu. Upp úr gryfjunni koma því um 2500 m3 af efni eða 15.000 m3 úr öllum sex gryfjunum. Í hvern sökkul fara um 630 m3 af steypu, auk steypustyrktarstáls, turnfestinga og fleira, sem þýðir að af þessum 2500 m3 sem fóru upp úr gryfjunni fara til baka um 1870 m3 en þá standa út af 630 m3 eða 3780 m3 sem myndu trúlega nýtast í vinnuplön, vegagerð og fleira.

Fjarlægð milli vindmylla er gjarnan í hlutfalli við þvermál spaðanna, 6 – 10 sinnum þvermálið. Miðað við 132 m spaða þvermál koma myllurnar til með að þekja nokkra hektara svæði. Sé þeim raðað í eina línu taka þær 4,75 km til 7,92 km allt eftir því hvaða stuðull er notaður. Það er því ljóst að þarna verða miklar jarðvegsframkvæmdir, ekki bara við undirstöður heldur líka við athafnasvæði í kringum hvern mylluturn, vegi og fleira.

Í skýrslu VSÓ segir: „Við hvert mastur verða útbúin vinnuplön þar sem reisingartæki geti athafnað sig á framkvæmdatíma. Möstur og aðrir hlutar vindmyllunnar verða flutt á svæðið á flutningabílum og þau verða reist. Öðrum búnaði verður komið fyrir með bílkrönum.“

Ennfremur segir: „Aðkoma að framkvæmdasvæðinu verður um Grjóthálsveg sem liggur yfir hálsinn og tengist annars vegar Þverárhlíðarvegi og hinsvegar Norðurárdalsvegi. Frá veginum verða lagðir slóðar að möstrum og munu vegirnir einnig koma til með að gegna hlutverki til framtíðar sem þjónustu- og viðhaldsvegir.“

Til þess að koma tækjum og tólum upp á Grjóthálsinn þarf að leggja algerlega nýjan veg upp á hálsinn og tómt mál er að tala um einhverja vegslóða. Það er rangt. Úti í Evrópu, (Þýskaland, Holland, Danmörk og víðar) eru notaðir 750 tonn/metra kranar til þess að reisa 5 MW vindmyllu. 20 metra löng 9 öxla, 100 tonna ferlíki, (ferðaþyngd). Slíkt vinnutæki verður ekki keyrt á staðinn eftir einhverjum vegslóða.  Þá þarf að flytja vinnubúðir, steypu, (sand og möl) stál, turnhluta, rafala, spaða og fleira upp á hálsinn og það verður ekki gert eftir einhverjum slóðum hvort sem farið verður upp úr Þverárhlíðinni og/eða Norðurárdalnum en reikna má með því að farið verði upp úr Þverárhlíðinni vegna þess að það liggur beinna við frá Grundartanga. Þetta eru þungaflutningar, rafallinn getur verið allt að 120 tonn, gírkassi 50-70 tonn, rafalahúsið 60 tonn og svona mætti lengi telja. Síðan eru það spaðarnir 60 – 70 m langir sem eru fluttir á þar til gerðum vögnum. En engu að síður er þetta allt framkvæmanlegt, svo lengi sem vegakerfið og aðrar aðstæður leyfa.

Hvernig viljum við ásýnd héraðsins?

Hér hefur aðeins verið leitast við að skýra fyrir lesendum, íbúum Borgarbyggðar, nær og fjær fyrirhugaða framkvæmd, stærð og umfang við uppsetningu vindmylla á Grjóthálsi. Þetta er nokkurra milljarða króna framkvæmd en hver verður hugsanlega framtíðar ávinningur héraðsins, hellingur af rafmagni til uppbyggingar? Eflaust, en verður bara ekki nóg af því hvort sem þessar myllur verða reistar eða ekki? Tekjur á meðan uppbyggingu stendur, jú einhverjar, tekjur til handa sveitarfélaginu í formi aðstöðugjalds, jú til langframa, tekjur til landeigenda, jú, en sem fyrr meginarður af myllunum mun ekki verða eftir í sveitarfélaginu.

Það sem verður eftir er gerbreytt ásýnd héraðsins með tilheyrandi náttúruspjöllum, sjónmengun, hljóðmengun, fugladauði, lægra fasteignaverð og neikvæðri ímynd.

Þá vakna upp spurningar ef af framkvæmdinni verður: Ætla framkvæmdaaðilar að bæta það tjón sem hugsanlega gæti orðið vegna lækkunar fasteignaverðs, illa- og óseljanlegar eignir, t.d. jarðir, sumarhúsalóðir, lélega ásókn í laxveiði, uppbyggingu og eða endurbyggingu á vegum sem ekki eru undir þungaflutninga búnir og eyðileggingu ásýndar og náttúru beggja vegna Grjóthálsins?

Sættum við okkur við að ásýnd og óspillt náttúra verði eyðilögð með vindmyllum? Ég held að þegar fólk áttar sig almennt á því og skilur hvað er í undirbúningi verði svarið einfalt:  Nei, við viljum ekki eyðileggja ásýnd héraðsins með vindmyllum.

 

Georg Magnússon

Norðtunga 3

311 Borgarnes.

 

Heimildir :

Skessuhorn.

Morgunblaðið.

Borgarbyggð heimasíða.

Vindmyllur á Grjóthálsi, Borgarbyggð, drög að matsáætlun, VSÓ Ráðgjöf.

Vindmylluframleiðendur; Siemens, Vestas, General Electric, Darwind o.fl.

Landsvirkjun.

RE Power.

OK og Liebherr kranaframleiðendur.

Wikipedia o.fl.

Fleiri aðsendar greinar