Vilt þú búa í landi tækifæranna?

Helga Thorberg

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem yfir 600 manns bíða áratugum saman á biðlista eftir húsnæði – en það er enginn heimskortur á byggingarefni, vinnufólki né peningum?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem fátækt eykst og fleiri þúsund manns eiga ekki fyrir mat út mánuðinn – samt er enginn skortur á matvælum í landinu?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem örfáum einstaklingum er veittur einkaréttur á að veiða fiskinn okkar – samt er fiskurinn í eign þjóðarinnar?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem gróðinn rennur í brjóstvasa útgerðarinnar, sem rær þar sem henni sýnist – án allrar skyldu við samfélagið sem skóp verðmætin?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem þrælsóttinn ræður ríkjum og fólk á á hættu að missa eina atvinnutækifærið á staðnum ef það rífur kjaft – ella að flytja úr byggðalaginu?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem verið er að svelta bændur með lágu afurðaverði – svo til verða fátækrahverfi í afskekktum sveitum landsins?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem auðhringamyndun sogar allt vald og fjármagn til sín – svo eftir situr valdalaus almenningur og vonar að atvinnutækifærin rói ekki burt?

Vilt þú búa í landi tækifæranna – þar sem fólk á landsbyggðinni þarf að bíða í 4-6 vikur eftir að hitta heimilislækninn?

Er þetta það líf í landi tækifæranna sem þú vilt fyrir þig og þína afkomendur?

Ef þú vilt ekki þetta líf sem þorra almennings stendur til boða í Sjálfstæðislandi tækifæranna – þá getur þú skipt um lögheimili með atkvæði þínu þann 25. september.

Þú getur valið – kynntu þér stefnu Sósíalistaflokksins þar blasa við tækifæri fyrir almenning – almenningur þarf ekki og á ekki að láta þetta tækifæri sem rennur upp á kjördag, framhjá sér fara. Kjósum Sósíalistaflokkinn sem tekur þarfir almennings fram yfir þarfir sérhagsmuna. Flytjum úr Sjálfstæðislandinu 25. september þar er einungis lífvænlegt fyrir fáa.

 

Helga Thorberg

Höf. skipar efsta sætið á lista Sósíalistaflokksins í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar