Viljum fara aðrar leiðir í skattheimtu af ferðaþjónustu

Elsa Lára Arnardóttir

Við Framsóknarmenn höfum varað við virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustu og bent á hver áhrif hennar geta verið á ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Fyrir stuttu síðan skrifaði ég grein í Skessuhorn og benti á að þessi vsk hækkun á ferðaþjónustu gæti haft neikvæð áhrif, m.a. á rekstur ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni. Í störfum þingsins í gær ræddi ég þessi áform ríkisstjórnarinnar og hvaða afleiðingar sú aðgerð getur haft, samanber frétt á vef Skessuhorns þess efnis að fjárfestar hafa nú fallið frá byggingu hótels á Akranesi.

Við Framsóknarmenn gerum okkur vel grein fyrir því að ríkissjóður þarf að fá fjármagn af þessari stóru atvinnugrein en við gerum okkur líka grein fyrir því að aðstæður og rekstrarskilyrði ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni eru ekki allsstaðar hin sömu og hjá stórum aðilum á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna endaði ég ræðu mína í þinginu í gær á að þessum orðum: ,,Auðvitað þarf að fá fjármagn af þessari stóru atvinnugrein, en við Framsóknarmenn teljum aðrar leiðir betri. Við viljum setja á komugjöld til landsins og nýta þau til stýringar á ferðamannastraumnum. Til dæmis væri hægt að hafa komugjaldið hærra yfir sumarið og lægra yfir háveturinn. Einnig væri hægt að hafa lægra komugjald á flugvelli eins og t.d. á Akureyri eða á Egilsstöðum. Einnig viljum við Framsóknarmenn að gistináttagjald sé hlutfallslegt því að okkur finnst ekki sanngjarnt að sá sem gistir á tjaldstæði borgi sama gistináttagjald og á lúxushóteli í Reykjavík.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er alþingismaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.