Viljið þið breytingar? Setjið X við D

Bjarni Sigurbjörnsson og Eygló Bára Jónsdóttir

Við sem skrifum þessi orð erum nýtt fólk á D-listanum í Grundarfirði. Leitað var eftir því  við okkur að við tækjum sæti á listanum og þurfti hvorugt okkar langa umhugsun. Niðurstaða okkar beggja var sú að við kæmum okkar skoðunum ekki á framfæri yfir kaffibollanum við eldhúsborðið og ef við vildum breytingar yrðum við að taka þátt í að móta þær.

Málefnum aldraðra þarf að taka föstum tökum. Við teljum að á tiltölulega einfaldan hátt sé hægt að bæta heimaþjónustu til muna. Með því að virkja samfélagið og styðja við samstarf á milli aðila sem koma að þessum málum. Mögulega þurfum við að horfa til fortíðar þar sem heimaþjónusta var ekki fullt starf heldur gafst kostur á að sinna því í hlutastarfi. Þessum málaflokki þarf að bregðast skjótt við og það hyggst D-listinn gera. Stækkun Dvalarheimilisins Fellaskjóls er komin af stað en betur má ef duga skal. Það þarf að fjölga dvalarrýmum á Fellaskjóli og það þarf að fjölga um allavega eitt stöðugildi hjá þeim sem koma að heimahjúkrun og aðhlynningu þeirra sem enn búa heima. Við gerum okkur grein fyrir því að heimahjúkrun heyrir ekki undir  bæjarstjórn en við teljum það hlutverk bæjarstjórnar að beita þrýstingi á rétta staði og það munum við gera.

Við viljum lækni með fast aðsetur í Grundarfirði. Við þurfum að standa vörð um hagsmuni okkar eins og t.d.  að hafa hér lækni með fast aðsetur. Eigum við að sætta okkur við að endalaust sé verið að taka af okkur þjónustu? Hvernig er ástandið í eina bankanum í Grundarfirði, eigum við á hættu að hann fari? Sjúkrabíllinn, er eitthvað farið að tala um að við gætum misst hann? Þetta, ásamt ótal öðru, er meðal þeirra hagsmuna sem við viljum gæta.

Grundarfjörður var fyrir nokkrum árum talinn vera eitt snyrtilegasta bæjarfélagið á Vesturlandi. Þann sess viljum við endurheimta. Við teljum að með samstilltu átaki bæjaryfirvalda og íbúa sé þetta auðvelt markmið. Við þurfum að horfa fram í tímann og gera heildstæða áætlun um fegrun umhverfisins og umhirðu grænna svæða.

Við biðjum þig kæri kjósandi að setja X við D næstkomandi laugardag og hjálpa okkur þannig að gera gott betra og móta nýja framtíð í Grundarfirði.

 

Bjarni Sigurbjörnsson, 5. sæti D-lista

Eygló Bára Jónsdóttir, 6. sæti D-lista

Fleiri aðsendar greinar