Viðvörunarorð vegna bógkreppunnar

Jón Viðar Jónmundsson

Í byrjun maí sendi ég Bændablaðinu grein með tölvupósti um bógkreppu og óskaði birtingar í maíblaði. Af einhverjum óskiljanlegum örsökum hefur hún misfarist. Ég sendi blaðinu stytta og endurskoðaða grein með beiðni um birtingu í fyrsta blaði eftir sumarfrí. Þegar hún birtist þar ekki hringdi ég í Sigurð Má sem ég sendi endurskoðuðu greinina. Hann sagði þá að Bændablaðið hefði, sennilega að gamni sínu, ákveðið að setja mig í ritbann því að ástæður gat hann ekki tilgreint, vísaði aðeins á skyndiákvörðun ritstjórans sem hann sagði í lengra fríi og þá á blaðinu varðaði ekkert mannréttinda- og stjórnarskrárbrot sem þessi athöfn er víst hvorutveggja. Í fyrstu greininni var ég að leiðrétta missagnir í næsta tölublaði áður en ég hef vanist því að öll heiðarleg blöð birti þannig leiðréttingar. Þarna hafði pennamanni (áðurnefndum Sigurði Má) orðið á að misfara með tvö meginatriði í sambandi við erfðir bógkreppu þar sem hann var að endursegja atriði úr ágætu erindi Sæmundar Sveinssonar á fagfundi sauðfjárræktarinnar á Hvanneyri í lok apríl. Í erindinu var Sæmundur að greina frá stórmerkilegum rannsóknum sem nú standa yfir úti á Nýja-Sjálandi þar sem leitað er leiða til að þróa erfðagreiningu til að finna bógkreppugenið. Rannsókninni stjórnar Íslandsvinurinn J.McEwan, sem er einn alfremsti vísindamaður í heimi í hagnýtum rannsóknum erfðatækni hjá sauðfé. Samstarfsaðilar hér á landi eru RML, MATÍS og Keldur.

 

Viðar 17-844 frá Bergsstöðum í Miðfirði var ótrúlega mikill yfirburðagripur og mjög mikið notaður meðan hann var á stöð. Hann hefur hins vegar verið fundinn arfberi bógkreppu. Það kom því miður ekki fram fyrr en eftir tveggja vetra notkun hans á stöð. Takist ekki að vinna erfðapróf fyrir bógkreppugeninu blasir mikill vandi við í ræktunarstarfi margra sauðfjárbænda. Greinin fjallar um viðbrögð við því. Ljósm. RML.

 

Villurnar í frásögninni var að ýja að því að fleiri en eitt gen væri að baki. Það var endanlega staðfest af Sigurði Steinþórssyni í meistararitgerð sinni fyrir áratugum síðan að bógkreppan ræðst af einu víkjandi geni. Verið hefur umræða um að mögulega finnist mjög sjaldgæf form bógkreppu þar sem komi til fleiri gen. Slíkar hugmyndir verða aldrei sannreyndar nema að beita aðferðum erfðatækninnar og slík afbrigði skipta engu máli í sambandi við þá bógkreppu sem bændur víða um land eru að kljást við í dag. Auk þess sem í þeim formum mun víkjandi genið fyrir bógkreppunni ætíð vera fyrir hendi. Hin villan var að tala um erfðatengsl bógkreppu og vöðvasöfnunar sérstaklega í læraholdum. Þetta er annar misskilningur sem stundum kemur upp í umræðunni vegna þess að bógkreppan hefur magnast mest upp þegar saman fara hjá sama einstaklingi gen fyrir bógkreppu og erfðavísar fyrir vöðvavöxt. Ég hef gert mér í hugarlund að mögulega sé um að ræða erfðavísa á sama litningi en að þarna sé erfðavísir sem hefur samverkandi áhrif er della. Það hefur margsýnt sig í framræktun á fé með þessi einkenni.

Síðar um mánaðamót maí/júní kom ég í fjárhús víða um land og varð ég þess því miður var að ófögnuðurinn er farinn að banka á dyr alltof víða. Nefni aðeins að í vor fæddist fyrsta sinni bógkreppulamb á Hesti. Veit að vísu að forráðamenn þar á bæ munu gera ráðstafanir til þess í haust að slíkt muni ekki endurtaka sig. Þannig standi þetta eitt meginvígi fjárræktar í landinu áfram laust við bógkreppuna. Því miður veit ég að þetta verða ekki viðbrögð meginþorra bænda. Nái hins vegar áhrifin frá Viðari einum að dreifa sér án inngripa verða eftir 5-8 ár mörg þúsund bógkreppulömb sem fæðast árlega. Þess vegna eru jákvæðar fréttir frá Nýja-Sjálandi mjög mikilvægar. Gangi það ekki eftir þá eru samt vissar ráðstafanir sem má gera. Þess vegna bið ég sauðfjárbændur að kynna sér það sem hér kemur á eftir áður en þeir hefja ásetningsstörfin í september.

Fyrst vil ég benda þeim sem frekar vilja fræðast um erfðir bógkreppunnar á góða grein þar um í síðustu hrútaskrá sæðingastöðvanna eftir Eyþór Einarsson og fleiri.

Bógkreppan er erfðagalli sem er bundinn við íslenskt fé, stökkbreyting sem hvergi annars staðar er að finna hjá sauðfé í heiminum. Ég hef fundið í erlendum kennslubókum og gagnagrunnum það sem á ensku er þekkt sem spider og er vel þekkt í nokkrum láglendiskynjum (Hampshire, Suffolk) í Bandaríkjunum og áreiðanlega miklu víðar. Þetta er það sem líkast er bógkreppunni.

Bógkreppunni er fyrst lýst í hinn frægu grein Páls Zophoníassonar um dulda erfðagalla hjá íslensku sauðfé og segir hann að hún finnst hjá sauðfé víða um land. Vandinn við grein Páls er að hann nefnir gallana aldrei neinu nafni. Halldór Pálsson þekkti gallann líka vel en nefnir hann aldrei nema sem dulinn erfðagalla. Hins vegar er auðvelt að fylgja dreifingu bógkreppunnar í landinu gegnum skrif hans.

Bógkreppuna með því nafni mun fyrst koma fram hjá Jóni Konráðssyni hjá Sauðfjárverndinni um 1970 og Hjalti Gestsson fer síðan að nota heitið þegar afkvæmi Hyls koma fram. Mögulega komið í umferð þá í Árnessýslu.

Í ljósi þessa þarf ekki að koma á óvart að fjöldi bænda og dýralækna þekktu ekki bógkreppuna. Dýralæknar eru menntaðir erlendis og grunur minn að þar sé fátt fræðslu um séríslenska sjúkdóma. Þetta gerir erfitt að gera sér grein fyrir þróun eiginleikans. Einhverjir bændur leyndu auk þess óværunni. Að lokum bætast við vandamál vegna mögulegra misskráninga á ætterni þegar kemur að því að rekja sig til upphafs gallans.

Þessu öllu stóð ég frammi fyrir meðan það var mitt starf að dæma arfbera frá notkun á sæðingastöðvunum. Nokkrir slíkir sluppu í notkun en varla nema Hylur sem olli stórskaða og mögulega Viðar á næstu árum. Ég vil alls ekki útiloka að einhvern hrút hafi ég dæmt úr leik vegna misvísandi upplýsinga. Gegnum þetta og almenna forvitni mína um sauðfé hér á landi þá tel ég mig í dag þekkja fleiri og fleiri uppsprettur gensins fyrir bógkreppu. Af þeim eru samt áreiðanlega yfir 90% tengd geneintakinu sem Hylur bar.

Í þessu ljósi er vandinn sem blasir við tengdur Viðari feikilegur þar sem hann var líklega notaður fjórfalt á við Hyl á sínum tíma og ræktunaryfirburðir hans umtalsverðir umfram Hyl á þeim árum. Tel mig einnig vita að flestir fjárbændur munu óska þess að þurfa ekki að standa í slátrun unglamba á sauðburði.

Takist ekki að þróa erfðagreininguna blasir við stórt vandamál sem þarf að takast á við. Engin leið verður að fella nokkurn dóm um dætur Viðars. Leiðin er því að ala aldrei undan þeim. Bestu syni hans má prófa. Til þess kann ég aðeins eina leið sem hægt er að mæla með. Það er að halda 6-8 dætrum hrútsins undir hann eða Viðarsdætur. Komi ekki fram bógkreppulamb mundi ég telja með þokkalegri samvisku viðkomandi hrút lausan við gallann. Bendi á að um leið mundi slík prófun vera prófun gagnvart öllum mögulegum duldum genum hjá hrútnum. Þetta gerðu bændur í Þistilfirði með frægustu kynbótahrúta landsins fyrr og síðar með frábærum árangri fyrir allt frekara ræktunarstarf fyrir 70 árum. Einnig bendi ég á það sama og fyrir dætur Viðars að nota þessa úrvalshrúta aðeins til að framleiða sláturlömb þangað til prófun þeirra hefur farið fram.

Ég hef geymt til loka að nefna árangursríkustu leiðina og um leið þá öruggustu. Það er að slátra öllum sonum og dætrum Viðars og mögulegum afkvæmum þeirra. Það er eina örugga leiðin til að komast fyrir rót vandans. Flestir bændur eiga orðið slíkt úrvalsfé að þannig ráðstafanir eru áreiðanlega mun skaðaminni en að hafa eldinn áfram falinn í hjörðinni.

 

Jón Viðar Jónmundsson

Frá hrútasýningu á Hesti haustið 2014. Þeir dæmdu og færðu til bókar á hrútasýningu sem fram fór á Hesti í Andakíl; Jón Viðar Jónmundsson greinarhöfundur, Ármann Bjarnason bóndi á Kjalvararstöðum og Friðrik Jónsson ráðunautur. Ljósm. úr safni Skessuhorns/mm.