Viðskiptamódelið

Finnbogi Rögnvaldsson

Botnsskáli

Þegar ég var krakki vestur í Staðarsveit ferðaðist ég stundum suður, það var þá langur vegur varðaður vegasjoppum. Ein skar sig úr. Pétur Geirsson seldi mönnum ódýrt bensín, sumir sögðu að hann borgaði með því. Greiðvikin ungmenni dældu á bílana en inn þurftu menn að fara til að gera upp. Og þá var draumurinn úti. Þar mætti mönnum smörrebröd sem fáir höfðu séð viðlíka, jafnvel í útlöndum. Þegar ég ferðast um fjarlægar borgir heimsmenningarinnar, Kaupmannahöfn, París og Búdapest og kem inn í verslanir þar sem hillur svigna af kökum og smurbrauði, dettur mér alltaf Botnskáli í hug!

Á þessu græddi Pétur, hann var og er veitingamaður af Guðs náð. Enda enn að á níræðis aldri, rekið hótel á sömu kennitölu áratugum saman en slíkt þykir fátítt í voru landi. Annar vert ritaði í blað fyrir nokkrum árum og kvartaði yfir kúnnum sínum sem kæmu til að kúka en keyptu ekki neitt. Þá varð mér á að hugsa að þessi maður hefði ekki skólast hjá Pétri og ætti kannski að fást við annað en að reka sjoppu.

Riddari götunnar

Í dag kynnist ég hinsvegar nýjum hæðum í lágkúru í túrisma! Á ferð minni um suðausturland vildi ég líta aflögð varnarmannvirki en fá mér í leiðinni kaffivatn á veitingastað sem þar var í grenndinni. Við vorum feðgar á ferð og lögðum bílnum við kaffihúsið þegar okkur var ljóst að innheimt væri gjald fyrir frekara ferðalag á bíl. Ákváðum að fá okkur stuttan göngutúr áður en farið væri í kaffið. Hefst nú gangan en skammt er farið niður brekku þegar hrópað er að baki úr kvennmannsbarka skipandi rómi. Ljóst var þegar að hér væri ekki sunginn matseðill dagsins! Þið verðið að borga tilkynnti konan. Heldur fór þetta illa í ferðalangana, erlend kona vildi nú rukka okkur fyrir að tipla um fósturjörðina. Við blasti timburskilti sem á stóð heiti kaffihússins, það gaf til kynna að hér svifi andi Egils Skallagrímssonar og Skarphéðins Njálssonar yfir vötnum og lögmál Péturs Geirssonar væru fyrir mönnum latína. Hér var kaffihús víkinga! Við flúðum konuna en komust ekki langt áður en sjálfur eigandinn kom akandi og fór geist. Borga skildum við. Rök hans voru skýr, hann átti landið og veginn og hélt honum við. Allt var skýrt. Vildum við að hann kæmi heim til okkar og kúkaði í klósett á einkaheimilum okkar!

Þarna lauk samtali okkar við veitingamanninn. Þegar komið var aftur að bílnum hafði, líkt og fyrir galdur, loft lekið úr hjólbarða farþegamegin að aftan. Heimsókn á kaffihúsið góða vék því fyrir dekkjaskiptum.

Sumir eru þeirrar gæfu aðnjótandi að rata ungir í störf sem þeim fellur vel að sinna, lenda á réttri hillu í lífinu. Aðrir ættu að vera að fást við annað en það sem hefur orðið hlutskipti þeirra um lengri eða skemmri tíma. Vandi ferðaþjónustu á Íslandi er mikill eins og víðast hvar um þessar mundir. Það er þó ljóst að hann einskorðast ekki bara við of fáa ferðamenn, í einhverjum tilvikum eru veitingamennirnir allavega einum of margir!

 

Finnbogi Rögnvaldsson

Fleiri aðsendar greinar