Viðreisn á Vesturlandi

Sturla Rafn Guðmundsson

Í síðustu viku lögðu þrír efstu menn á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi land undir fót og heimsóttu fyrirtæki á Vesturlandi. Hvar sem við komum voru móttökurnar góðar og starfsmenn áhugasamir um málefni Viðreisnar.

Það má segja að áherslur séu aðeins mismunandi eftir því hvort um dreifbýli eða þéttbýli sé að ræða. Í dreifbýlinu eru það skortur á háhraða netsambandi og þriggjafasa rafmagni en í þéttbýli skortur á leiguhúsnæði og iðnaðarmönnum. Sameiginlegt er svo slæmir og óöryggir vegir, skortur á hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn, skortur á lögreglumönnum og ófullnægjandi heilsugæsla.

Ferðamönnum er að fjölga og á næstu árum má reikna með mikilli fjölgun og má sjá að heimamenn eru þegar farnir að búa sig undir það með fjölgun gistirýma og veitingastaða. Skortur er hinsvegar á starfsfólki og húsnæði fyrir það og hafa sum fyrirtæki farið út í að byggja eigið húsnæði til að leysa þann vanda. Fjölgun útlendra starfsmanna er talsverð sem m.a. kemur fram í fjölgun barna í grunn- og leikskólum með tilheyrandi álagi á starfsfólk.

Viðreisn leggur áherslu á uppbyggingu innviða þjóðfélagsins s.s. stórauknar vegaframkvæmdir, styrkingu heilbrigðiskerfisins með áherslu á heilsugæslu heim í hérað og áherslu á verknám með aðkomu fyrirtækja á svæðinu. Einnig leggur Viðreisn áherslu á stöðugt viðskiptaumhverfi þar sem verðtrygging heyrir sögunni til og vextir lækka verulega sem gerir venjulegu fólki kleift á að eignast þak yfir höfuðið. Við gerum kröfu um jöfn laun kynjana fyrir sambærilega vinnu og viljum hækka tekjuhámark fæðingarorlofsgreiðslna. Kjörorð okkar er „Almannahagsmunir framar sérhagsmunum“.

 

Aðeins um höfund

Ég heiti Sturla Rafn Guðmundsson, fæddur í Reykjavík og ólst upp í Smáíbúðahverfinu. Móðir mín, Brynhildur Bjarnarson, er fædd í Kötluholti, Fróðárhreppi, þar sem móðir hennar Ingibjörg (Inga) Bjarnadóttir ólst upp. Móðurfaðir minn, Jón Björnsson Bjarnarson, er fæddur á Sauðafelli í Dölum. Faðir minn, Guðmundur Bjarnason, er fæddur í Reykjavík en móðir hans, Elín Guðmundsdóttir, fæddist í Ívarshúsum á Hvalsnesi, Ytri Akraneshreppi. Föðurafi minn var Bjarni Bjarnason, vélstjóri, fæddur á Þingeyri.

Ég lauk sveinsprófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1971, BSc í rafmagnstæknifræði frá Tækniskólanum í Árósum 1978 og Diplóma í verkefnastjórnun frá Endurmenntun HÍ 2006.

Tengsl mín við Norvesturkjördæmið eru mikil. Sem drengur var ég sendur í sveit í sex sumur að Miklaholti í Hraunhreppi, Mýrasýslu. Á námstíma mínum í rafvirkjun vann ég m.a. við að rafvæða bæi í Borgarfirði og vestur í Dölum. Eftir að ég kom heim úr námi starfaði ég um tíma við Iðnþróunarverkefni Málm- og skipasmiðja og heimsótti þá öll málm- og vélaverkstæði á Vestfjörðum. Síðan 2006 hef ég starfað sem deildarstjóri Framkvæmdadeildar RARIK á Vesturlandi með aðsetur í Stykkishólmi. Á Vesturlandi stýri ég vinnuflokkum í Borgarnesi, Ólafsvík og Búðardal og nær svæðið sem við þjónum frá Kjós og vestur í Gilsfjörð. Konan mín, Eyrún Ísfold Gísladóttir talmeinafræðingur, er alin upp á Ísafirði en faðir hennar, Gísli Kristjánsson, forstjóri Sundhallarinnar á Ísafirði, var Bolvíkingur. Móðir hennar, Guðrún J. Vigfúsdóttir, veflistakona frá Árskógsströnd, Eyjafirði, starfaði alla tíð við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði ásamt því að stofna og reka Vefstofu Guðrúnar Vigfúsdóttur hf. Ég hef alla tíð verið mikill sveitamaður í mér og haft áhuga á skepnum og sveitastörfum.

Ég hef alla tíð verið mikill sveitamaður í mér og haft áhuga á skepnum og sveitastörfum. Ég var mörg ár í hestamennsku og hafði mikla ánægju af því að fara í göngur á haustin og smala fé á Arnarvatnsheiði fyrir Miðfirðinga.

 

Sturla Rafn Guðmundsson.

Höf. skipar 3ja sæti á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.