Viðreisn á Vesturlandi

Gylfi Ólafsson og Lee Ann Maginnis

Vesturland hefur ekki farið varhluta af fjölgun ferðamanna og allt bendir til að þeim fjölgi enn á næstu árum. Ferðaþjónustan og náttúra Íslands skapa nýja auðlind og þessir gestir okkar hafa styrkt efnahagslífið svo um munar. Viðreisn vill tryggja að arðurinn af þeirri auðlind skili sér til heimamanna.

 

Hvort sem ferðamenn fara á kræklingafjöru í Hvalfirði, gista á Akranesi og fara þar á veitingahús og byggðasafn, njóta leiðsagnar í gönguferð um Borgarfjörð, náttúrufegurðar Snæfellsness eða dvelja í kyrrð Dalanna þá er ljóst að fjölda fólks þarf til að sinna þessum gestum okkar. Ferðaþjónustan skapar atvinnu og tekjur með því að nýta þá auðlind sem náttúra okkar er.

 

Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað mikið eru möguleikarnir til vaxtar enn gríðarlegir á Vesturlandi. Þar er tækifæri fyrir heimamenn. Viðreisn ætlar sér að tryggja að sú auðlind skili sér til heimamanna, í formi gistináttagjalds. Bílastæðagjöld verði tekin upp og þeim varið á svæðinu.

 

En það er tómt mál að tala um vöxt í ferðaþjónustu ef ekki er tekið á samgöngumálum, sem brenna mjög á íbúum Vesturlands. Það gengur ekki lengur að vegir í Dalabyggð séu slysagildra Vesturlands. Um 5% landsmanna búa á Vesturlandi, en þar er um 14% allra akvega á Íslandi, í kílómetrum talið. Umferð um Vesturland hefur aukist mjög mikið á síðustu árum og löngu tímabært að taka til hendinni í vegamálum. Þar ætlar Viðreisn að leggja sitt af mörkum.

 

Gylfi Ólafsson skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Lee Ann Maginnis skipar 2. sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Fleiri aðsendar greinar