Við viljum sanngirni og efla sjávarútveginn

Sigurjón Þórðarson

Á aðalfundi Landssamband smábátaeigenda, sem fram fór í Reykjavík þann 13. október sl. voru lagðar þrjár spurningar fyrir framboðin til Alþingis.  Þær snérust um að fjölga leyfilegum veiðidögum smábáta, koma á sanngjarnari gjöldum í greininni og opna fyrir að trillur geti veitt makrílinn, sem afhentur var nánast í heilu lagi til örfárra stórútgerða af síðustu „vinstristjórn“.

Það var auðvelt fyrir Dögun að svara öllum spurningunum enda voru tillögur Landssambandsins nánast samhljóða þeim tillögum sem Dögun hefur sett á oddinn fyrir komandi alþingiskosningar.

Svörin voru á allt annann veg hjá fulltrúum Viðreisnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem lögðust einfaldlega gegn því að rýmkað væri til fyrir útgerð smábáta.  Ráðherra Framsóknarflokksins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins settu á langar ræður um kerfislæga ómöguleika að hleypa lífi í hafnir sjávarbyggðanna. Þessi skýra andstaða framangreindra flokka ætti að auðvelda þeim valið þann 29. október nk. sem vilja viðhalda núverandi strandveiðikerfi eða hvað þá fyrir þá kjósendur sem vilja efla það.

Það eru veigamikil líffræðileg rök fyrir því að nýta staðbundin fiskimið inn á flóum og fjörðum allt í kringum landið, en það verður aðeins gert með því að dreifa fiskveiðum.  Sá misskilningur er uppi meðal margra stjórnmálamanna að hægt sé að veiða allan afla á Íslandsmiðum á örfáum togurum.  Það er mögulega hægt í tilbúnum hagfræðilíkönum, en raunveruleiknn er auðvitað allur annar.

Dögun leggur áherslu á sanngjarnar breytingar á kerfinu sem skila þjóðinni ávinningi, en ekki að leggja sem þyngstar álögur á sjávarútveginn. Í ljósi þess þá leggur Dögun höfuðáherslu á að verðmyndun á afla fari fram á markaðsverði, en með því þá batna kjör sjómanna.  Bætt kjör sjómann leiða síðan sjálfkrafa til þess að afraksturinn af greininni flæði í gegnum æðar efnahagslífsins bæði til hins opinbera og annarra í samfélaginu.

 

Sigurjón Þórðarson.

Höf. skipar 1. sæti á lista Dögunar í Norðvesturkjördæmi.

 

Fleiri aðsendar greinar